Vinnumarkaður - 

02. september 2004

Kjarastefnan hefur verið mörkuð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjarastefnan hefur verið mörkuð

SA hafa á árinu gert 101 sjálfstæðan kjarasamning og samtals taka þeir til 62.500 launamanna. 18% þeirra tóku þátt í atkvæðagreiðslum um samningana og að meðaltali voru 70% þeim samþykkir. SA eiga eftir að gera kjarasamninga sem ná til um 11.000 starfsmanna og alls semja SA því fyrir 95% hins almenna vinnumarkaðar. Með þessum samningum SA og viðsemjenda hefur verið mörkuð kjarastefna í landinu til næstu fjögurra ára, en um 75% launafólks tilheyra hinum almenna vinnumarkaði. Samningsbundinn kostnaðarauki á samnings-tímanum er liðlega 15% sem er rúmlega 3,5% á ári að jafnaði. Það eru meiri samningsbundnar hækkanir en almennt gerist í viðskiptalöndum okkar. 25% launafólks tilheyra opinberum vinnumarkaði.

SA hafa á árinu gert 101 sjálfstæðan kjarasamning og samtals taka þeir til 62.500 launamanna. 18% þeirra tóku þátt í atkvæðagreiðslum um samningana og að meðaltali voru 70% þeim samþykkir. SA eiga eftir að gera kjarasamninga sem ná til um 11.000 starfsmanna og alls semja SA því fyrir 95% hins almenna vinnumarkaðar. Með þessum samningum SA og viðsemjenda hefur verið mörkuð kjarastefna í landinu til næstu fjögurra ára, en um 75% launafólks tilheyra hinum almenna vinnumarkaði. Samningsbundinn kostnaðarauki á samnings-tímanum er liðlega 15% sem er rúmlega 3,5% á ári að jafnaði. Það eru meiri samningsbundnar hækkanir en almennt gerist í viðskiptalöndum okkar. 25% launafólks tilheyra opinberum vinnumarkaði.

Ef stórt samband á borð við Kennarsamband Íslands knýr fram meiri kostnaðarhækkanir fyrir grunnskólakennara munu önnur stéttarfélög með lausa samninga að öllum líkindum reisa sínar kröfur á grundvelli samnings grunnskólakennara. Í kjölfarið yrði erfitt að ljúka samningum á almennum vinnumarkaði og kröfur myndu rísa um endurskoðun þeirra samninga sem þegar hafa verið gerðir í nóvember á næsta ári. Ef samið er við eitt eða fleiri félög opinberra starfsmanna um meiri kostnaðarhækkanir getur það þannig falið í sér ákvörðun um að brjóta á bak aftur þá launastefnu sem mótuð hefur verið á almennum vinnumarkaði, skapað óvissu, vaxandi verðbólgu og óstöðugleika. Það er sú staðreynd sem opinberir samningsaðilar standa frammi fyrir þegar þeir meta hvort þeir ætli að bera ábyrgð á nýrri kjarastefnu í landinu, með meiri launahækkunum.

Þrátt fyrir að stór samningssvið á vinnumarkaðnum hafi síðastliðinn vetur og vor bundið kjarasamninga sína til ársloka 2007 stendur samningalotan í raun enn þar sem fjöldi samninga á sviði Samtaka atvinnulífsins kemur til endurnýjunar á komandi mánuðum, auk þess sem samningum við fiskimenn og fleiri með lausa samninga er ólokið. Þá renna flestir samningar ríkis og sveitarfélaga við félög innan BSRB og BHM út í nóvemberlok. Því fer þannig fjarri að endurnýjun kjara-samnings grunnskólakennara sé aðal verkefnið á sviði kjaramála á komandi mánuðum, þar sem þeir samningar sem ólokið er skipta mörgum tugum, bæði á almennum markaði og hjá ríki og sveitarfélögum. Munurinn á grunnskólakennurum og öðrum er að félag þeirra hefur boðað verkfall þann 20. september sem hefur þann tilgang að fá margfalt meiri launahækkanir í sinn hlut en samningar þeir sem gerðir hafa verið hingað til fela í sér.

SA gert 101 sjálfstæðan samning
Á árinu 2004 hafa Samtök atvinnulífsins endurnýjað 101 sjálfstæðan kjarasamning. Í þeim reikningi er miðað við atkvæðagreiðslur sem fóru fram eða gátu farið fram, en í nokkrum tilvikum tóku samningar gildi án atkvæðagreiðslu. Stór hluti samninganna er hins vegar gerður í samfloti stéttarfélaga, einkum innan landssambanda ASÍ, og eru því undirrituð eintök samninga allmikið færri eða 30.

Samið fyrir 62.500 launamenn
Samkvæmt atkvæðaskrám stéttarfélaganna, og í sumum tilvikum áætlunum um fjölda félagsmanna, þá tekur þessi 101 samningur til tæplega 62.500 starfsmanna. 11.400 þeirra tóku þátt í atkvæðagreiðslum, eða 18%. Það er mjög dræm þátttaka, hvernig sem á það er litið, enda teljast samningar samþykktir skv. vinnulöggjöfinni ef þátttakan í atkvæðagreiðslu nær ekki 20% (þ.e. þótt meirihluti þátttakenda í atkvæðagreiðslu hafni þeim). 8.000 þeirra sem greiddu atkvæði voru fylgjandi samningunum, eða 70%.

Rúmlega 59.000 í ASÍ
Af þessum 62.500 launamönnum eru rúmlega 59.000 í félögum innan vébanda ASÍ. Verkafólkið í Starfsgreinasambandinu, að meðtöldum félögunum sem teljast til Flóabandandalagsins, telur um 23.000 manns sem jafngildir um 40% af fyrrgreindum félagsmönnum í ASÍ. Þátttakan í atkvæðagreiðslunum 30 sem fóru fram hjá SGS-félögum var mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, en í heild var þátttakan 25%. Iðnaðarmenn á atkvæðaskrá voru tæplega 10.400 sem jafngildir um 18% af þeim félagsmönnum ASÍ sem nýir samningar taka til. Þátttaka í atkvæðagreiðslum iðnaðarmannafélaganna var 20%. 

Dræm þátttaka í rafrænum kosningum
Samkvæmt atkvæðaskránum er Landssamband íslenskra verslunarmanna stærsta landssamband ASÍ með um 25.000 félagsmenn, eða 42% af félagsmönnum ASÍ á samningssviði SA. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni hjá VR, sem er langstærsta stéttarfélag landsins með um 20.000 félagsmenn, var einkar dræm eða aðeins 10%, en vera kann að þar hafi haft áhrif rafræn kosning sem fór fram um kjarasamninga í fyrsta sinn í félaginu. 

Stór félög utan ASÍ ekki með atkvæðagreiðslur
Á árinu hefur SA endurnýjað 12 samninga við stéttarfélög sem standa fyrir utan ASÍ og auk þess þrjá fyrirtækjasamninga. Þessir 15 samningar ná til 3.400 starfsmanna. Stærstu félögin, Verkstjórafélagið og Vélstjórafélagið, báru samningana ekki upp í atkvæðagreiðslum og markast heildartölur í atkvæðagreiðslum af því, en þátttaka í atkvæðagreiðslum á smærri samningssviðum var yfirleitt mikil.

Niðurstöður atkvæðagreiðslna um kjarasamninga

sem gerðir voru í mars-ágúst 2004

Samningar annarra samtaka vinnuveitenda
Önnur félög vinnuveitenda hafa á undanförnum mánuðum gert samninga sem gilda fyrir um 3.000 starfsmenn á almennum markaði. Félag íslenskra stórkaupmanna er þar stærst og gerði samninga við verslunar- og rafiðnaðarmenn sem ná til um 2.000 manna. Bílgreinasambandið samdi við Samiðn um kjör 650 bifvélavirkja og Samband garðyrkjubænda samdi við Samiðn vegna rúmlega 100 skrúðgarðyrkjumanna. Loks hefur Orkuveita Reykjavíkur, sem stendur utan samtaka vinnuveitenda, gert nokkra samninga.

10 kjarasamningum ólokið frá síðasta vetri
Kjarasamningar SA/LÍÚ við Sjómannasambandið og Félag skipstjórnarmanna vegna fiskimanna hafa verið lausir frá áramótum og ekki náðst árangur í viðræðum, eins og alþjóð er kunnugt, en þriðja samband fiskimanna, Vélstjórasambandið, er með bundinn samning út næsta ár. Frá síðastliðnum vetri er einnig ólokið samningum vegna þriggja fiskimjölsverksmiðja, tveggja farmannasamninga og þriggja samninga á ferjum og sanddæluskipum. Samtals er því 10 samningum ólokið frá síðasta vetri. 

23 kjarasamningar á sviði SA renna út á haustmánuðum
Á næstu mánuðum renna út 23 samningar til viðbótar á samningssviði SA. Þar er um að ræða 9 samninga flugliða, þ.e. flugmanna, flugvirkja og flugumsjónarmanna, og 10 fyrirtækjasamninga, einkum í stóriðju. Þessu til viðbótar koma allstór samningssvið, t.a.m. starfsmenn fjármálafyrirtækja, blaðamenn og leiðsögumenn. Ekki liggja fyrir tölur um fjölda félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem eiga ósamið en áætlun SA gerir ráð fyrir að þeir séu um 11.000. Ef sú tala er nærri lægi hefur SA lokið samningum fyrir 85% þeirra starfsmanna á almennum markaði sem samningar samtakanna ná yfir og er 15% þar af leiðandi ólokið.

95% hlutdeild á almenna markaðnum
Þær tölur sem liggja fyrir um þátttöku í atkvæðagreiðslum um þegar gerða samninga og áætlanir um þau samningssvið sem bíða endurnýjunar leiða í ljós eftirfarandi niðurstöður: SA hafa þegar gert kjarasamninga sem taka til 62.500 starfsmanna en eiga eftir að endurnýja samninga vegna um 11.000 manns. Samningar SA hafa þannig bein áhrif á kjör 73.500 starfsmanna en samningar annarra félaga vinnuveitenda ná til 3.000 starfsmanna. Almenni vinnumarkaðurinn telur skv. því 76.500 starfsmenn í stéttarfélögum og taka samningar SA því til 95% þeirra. 

Opinberir starfsmenn 25% launamanna
Í árslok 2002 voru 136.000 launamenn á Íslandi samkvæmt Hagstofu Íslands, en hún sækir upplýsingar um stéttarfélagsaðild beint til stéttarfélaganna sjálfra. Félagsmenn stéttarfélaga voru 116.000 (85%) en 20.000 stóðu utan stéttarfélaga.  Af 116.000 launamönnum í stéttarfélögum voru 65.000 í félögum innan vébanda ASÍ, 17.000 í öðrum stéttarfélögum og 34.000 í stéttarfélögum opinberra starfsmanna, þ.e. félögum innan BSRB, BHM og KÍ. Skipting launamanna það ár var því þannig að 75% töldust til almenna markaðarins og 25% til opinbera vinnumarkaðarins.

Almenni markaðurinn hefur markað stefnuna
Samningarnir við aðildarfélög ASÍ síðastliðið vor mörkuðu kjarastefnu í landinu til næstu fjögurra ára. Samningsbundinn kostnaðarauki á samningstímanum er liðlega 15% sem er rúmlega 3,5% á ári að jafnaði. Það eru meiri samningsbundnar hækkanir en almennt gerist í viðskiptalöndum okkar og að meðtalinni annarri launamyndun í formlegum og óformlegum launakerfum má búast við að launahækkanir á Ísland verði áfram um sinn meiri en í nálægum löndum, eins og raunin hefur verið undanfarinn áratug. Samningarnir munu þó stuðla að því að launakostnaðarbreytingar á Íslandi nálgist smám saman það sem algengast er í viðskiptalöndunum. Það er ljóst að verkefni SA verður að framfylgja markaðri launastefnu gagnvart þeim sviðum þar samningum er enn ólokið. Það kann að mæta einhverri andspyrnu einhvers staðar og ófáir munu telja of litlar hækkanir í boði. Reynslan ein mun hins vegar skera úr um það hvort einhverjir viðsemjenda SA muni freista þess að brjóta niður markaða stefnu. 

Er launastefna KÍ fyrir alla

Samtök atvinnulífsins