Kjarasamningar undirritaðir

Kjarasamningar voru undirritaðir í gær og í dag við öll þau stéttarfélög sem felldu kjarasamninginn frá 21. desember 2013, að Verkalýðsfélagi Akraness og Félagi leiðsögumanna undanskildum. Samningarnir byggja á sáttatillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram til lausnar deilunni.

Samningarnir eru samhljóða og með þeim tekur kjarasamningurinn frá 21. desember 2013 gildi gagnvart þessum félögum með eftirfarandi breytingum:

  • Kjarasamningurinn tekur gildi 1. febrúar 2014 (í stað 1. janúar).

  • Fyrir janúarmánuð komi eingreiðsla kr. 14.600 m.v. fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014. Upphæðin greiðist hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall í janúarmánuði.

  • Orlofs- og desemberuppbætur hækka samtals um kr. 32.300 frá síðast gildandi kjarasamningi (kr. 30.000 til viðbótar við það sem áður hafði verið samið um).

  • Orlofsuppbót verður kr. 39.500 frá 1. maí 2014.

  • Desemberuppbót verður kr. 73.600 á árinu 2014.

  • Uppbætur eru samræmdar hjá verslunarmönnum og öðrum hópum.

  • Samningurinn gildir til 28. febrúar 2015 (í stað 31. desember 2014).

Stéttarfélögin sem gengu frá kjarasamningum eru eftirtalin:

Aldan stéttarfélag (Skagafirði),

Báran stéttarfélag (Árnessýsla utan Ölfuss),

Drífandi stéttarfélag (Vestmannaeyjum),

Eining-Iðja (Akureyri),

Flóabandalagið: Efling stéttarfélag (höfuðborgarsvæðið), Verkalýðsfélagið Hlíf (Hafnarfirði) og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis,

Framsýn stéttarfélag (Húsavík),

Stéttarfélagið Samstaða (Blönduósi),

Stéttarfélag Vesturlands (Borgarnesi),

Verkalýðsfélag Grindavíkur,

Verkalýðsfélag Snæfellinga,

Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Verslunarmannafélag Suðurnesja,

AFL-starfsgreinafélag Austurlands v. verslunardeildar,

Framsýn stéttarfélag (Húsavík) v. verslunardeildar,

Vlf. Snæfellinga v. verslunardeildar,

Vlf. Þórshafnar v. verslunardeildar.

Rafiðnaðarsamband Íslands,

VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna,

Þingiðn (Húsavík).

Með þessum samningum hefur verið gengið frá kjarasamningum við öll félög verkafólks, verslunarmanna og iðnaðarmanna, að Verkalýðsfélagi Akraness undanskildu. Einnig hafa undanfarnar vikur verið undirritaðir kjarasamningar vegna verkstjóra, blaðamanna og bifreiðastjóra í Sleipni. Enn á eftir að ganga frá kjarasamningum við stéttarfélög leiðsögumanna, mjólkurfræðinga, flugstétta og samningum vegna einstakra fyrirtækja.