Vinnumarkaður - 

12. apríl 2013

Kjarasamningar til þriggja ára í Svíþjóð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjarasamningar til þriggja ára í Svíþjóð

Í byrjun apríl var skrifað undir kjarasamning til þriggja ára í Svíþjóð milli samtaka iðnfyrirtækja og tíu verkalýðsfélaga. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2013 til 31. mars 2016, en heimilt er að segja honum upp á síðasta árinu. Kostnaðarhækkanir atvinnulífsins á þessum þremur árum verða samtals 6,8%. Í Svíþjóð er almenn samstaða um að þessir samningsaðilar semji fyrstir og móti það svigrúm sem er til launabreytingar á grundvelli þess hversu miklar kostnaðarhækkanir atvinnugreinar í alþjóðlegri samkeppni þoli án þess að atvinnuleysi og verðbólga aukist. Hóflegar hækkanir í íslensku samhengi Hækkun launakostnaðar um 6,8% á þremur árum skiptist þannig að bein hækkun launa nemur 6,3% sem skiptist í 2,0% launahækkun á þessu ári, 2,1% árið 2014 og 2,2% árið 2015. Auk þess er fæðingarorlof, sem atvinnurekendur greiða, lengt um einn mánuð og eldri starfsmönnum auðveldað að minnka starfshlutfall (delpension). Kostnaður vinnuveitenda vegna þessara tveggja þátta er talinn jafngilda 0,5% hækkun launakostnaðar. Samningsaðilar eru sammála um að þessi samningur henti vel sem fyrirmynd allra annarra kjarasamninga í Svíþjóð í framhaldinu.

Í byrjun apríl var skrifað undir  kjarasamning til þriggja ára í Svíþjóð milli samtaka iðnfyrirtækja og tíu verkalýðsfélaga. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2013 til 31. mars 2016, en heimilt er að segja honum upp á síðasta árinu. Kostnaðarhækkanir atvinnulífsins á þessum þremur árum verða samtals 6,8%.

Í Svíþjóð er almenn samstaða um að þessir samningsaðilar semji fyrstir og móti það svigrúm sem er til launabreytingar á grundvelli þess hversu miklar kostnaðarhækkanir atvinnugreinar í alþjóðlegri samkeppni þoli án þess að atvinnuleysi og verðbólga aukist.

Hóflegar hækkanir í íslensku samhengi

Hækkun launakostnaðar um 6,8% á þremur árum skiptist þannig að bein hækkun launa nemur  6,3% sem skiptist í 2,0% launahækkun á þessu ári, 2,1% árið 2014 og 2,2% árið 2015. Auk þess er fæðingarorlof, sem atvinnurekendur greiða, lengt um einn mánuð og eldri starfsmönnum auðveldað að minnka starfshlutfall (delpension). Kostnaður vinnuveitenda vegna þessara tveggja þátta er talinn jafngilda 0,5% hækkun launakostnaðar. Samningsaðilar eru sammála um að þessi samningur henti vel sem fyrirmynd allra annarra kjarasamninga í Svíþjóð í framhaldinu.

Í aðdraganda samningalotunnar sameinaðist verkalýðshreyfingin um kröfur um 8,4% hækkun launakostnaðar (3*2,8%) á þriggja ára samningstíma þar sem hluta kostnaðaraukans yrði varið til lengingar fæðingarorlofs og hlutastarfa eldri starfsmanna.

Aukinn kaupmáttur og stöðugleiki
Að mati vinnuveitenda er þriggja ára samningstími mikilvægur til að skapa útflutningsfyrirtækjunum traustar forsendur fyrir áætlanagerð. Að auki fela samningarnir í sér aukinn sveigjanleika við skipulag reglubundinnar vinnu, einfaldari reglur um yfirvinnu og jákvæðar breytingar um hlutastörf eldri starfsmanna sem gerir þeim kleift að vinna lengur. En talsmenn iðnaðarins telja þó kostnaðarhækkanirnar of miklar og muni hafa neikvæð áhrif á útflutning.

Að mati verkalýðsfélaganna er samningurinn góður því hann stuðli að auknum kaupmætti félagsmanna, lengra fæðingarorlofi og auknum möguleikum eldri starfsmanna til hlutastarfa. Samningurinn sé vel til þess fallinn að verða fyrirmynd annarra samninga.

Samningaviðræður voru erfiðar og slitnaði upp úr þeim á tímabili, en hart var tekist á um bæði launahækkanir og lengingu fæðingarorlofsins.

Aðrir fylgja á eftir
Í framhaldi iðnaðarsamningsins samþykktu aðilar í byggingariðnaði miðlunartillögu sáttasemjara samning til þriggja ára með 6,8% kostnaðarhækkun en starfsmenn í byggingariðnaði höfðu boðað verkfall sem var aflýst. Samningsaðilar stefna sameiginlega að því að þrengt verði að fyrirtækjum sem ekki fylgi lögum og samningum. Einnig voru gerðir sams konar samningar milli vinnuveitenda og stéttarfélaga starfsfólks í verslunar- og lagerstörfum. Að mati talsmanna verslunarinnar verða kostnaðarhækkanir samningsins versluninni erfiðar því eftirspurnaraukning síðustu ára hefur stöðvast og í sumum greinum fer eftirspurn minnkandi.

Lítil verðbólga
Verðbólga er lítil í Svíþjóð um þessar mundir því sænska krónan hefur styrkst síðustu ár, innflutningsverð hefur lækkað og mikil framleiðslugeta er ónýtt. Sænski Seðlabankinn spáir 1% verðbólgu á þessu ári sem aukist í nálægt 2% á miðju næsta ári og staðnæmist þar í framhaldinu. Stýrivextir sænska Seðlabankans eru 1% og er búist við hækkun þeirra smám saman í 2% árið 2015.

Sænska hagkerfið er afar háð alþjóðlegri efnahagsþróun, ekki síst á evrusvæðinu, þar sem útflutningur nemur meira en helmingi þjóðarframleiðslunnar. Eftirspurn á mörkuðum fyrir sænskar vörur er lítil á Evrópumarkaði vegna skuldakreppunnar en endurbati í Bandaríkjunum og hraðvaxandi þróunarlöndum bætir það upp að hluta. Spáð er 1,2% hagvexti á þessu ári, sem aukist í 2,7% á næsta ári og 3,1% árið 2015 þegar heimsbúskapurinn hefur náð sér upp úr efnahagslægðinni.

Samtök atvinnulífsins