Vinnumarkaður - 

03. september 2013

Kjarasamningar til þriggja ára í Finnlandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjarasamningar til þriggja ára í Finnlandi

Þann 30. ágúst síðastliðinn voru gerðir kjarasamningar til þriggja ára á finnska vinnumarkaðnum. Samningsaðilar eru heildarsamtök vinnuveitenda á almennum vinnumarkaði, hjá ríki og sveitarfélögum annars vegar og þrenn heildarsamtök launafólks hins vegar. Kjarasamningurinn er miðlægur rammasamningur sem krefst útfærslu fjölmargra samningsaðila í mismunandi greinum atvinnulífsins.

Þann 30. ágúst síðastliðinn voru gerðir kjarasamningar til þriggja ára á finnska vinnumarkaðnum. Samningsaðilar eru heildarsamtök vinnuveitenda á almennum vinnumarkaði, hjá ríki og sveitarfélögum annars vegar og þrenn heildarsamtök launafólks hins vegar. Kjarasamningurinn er miðlægur rammasamningur sem krefst útfærslu fjölmargra samningsaðila í mismunandi greinum atvinnulífsins.

Samningurinn hefur það að markmiði að stuðla að hagvexti, auka atvinnu, styrkja kaupmátt og tekjur launafólks og bæta horfur finnskra fyrirtækja í samkeppni á alþjóðamarkaði.

Samningurinn hefur einnig það markmið að gera efnahagsumhverfið fyrirsjáanlegra og að bætt samkeppnisstaða fyrirtækja og fjölgun starfa haldist í hendur. Til þess að svo geti orðið telja samningsaðilar að ríkjandi efnahagsskilyrði krefjist mikils kostnaðaraðhalds og varðstöðu um  samkeppnishæfni atvinnulífsins. Fyrirtæki eru hvött til þess að sýna ábyrgð og hófstillingu í  launaákvörðunum.

Efnislega felur samningurinn í sér tilmæli til samningsaðila í mismunandi atvinnugreinum um innihald samninga þeirra. Helstu efnisatriði samningsrammans eru eftirfarandi:

  • Kjarasamningar atvinnugreinanna, sem renna út haustið og veturinn 2013-2014, framlengist um 22-24 mánuði, með möguleika á frekari framlengingu um eitt ár.

  • Almenn launahækkun um 20 evrur á mánuði (3.200 kr.) skal eiga sér stað eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að samningur tekur gildi.

  • Almenn launahækkun um 0,4% skal eiga sér stað 12 mánuðum eftir fyrri launahækkunina.

  • Forsenda þess að þessi miðlægi samningur taki gildi er að atvinnugreinasamtökin endurnýi kjarasamninga sína fyrir 25.10. 2013 í samræmi við framangreind ákvæði. Möguleikar á staðbundnum frávikum eru litlir. Spurningin er því sú hvort öll helstu félög vinnuveitenda og launafólks vilji fylgja þessum samningi. Skilyrði heildarsamtaka vinnuveitenda (EK) er að allar mikilvægar atvinnugreinar fyrir útflutningsiðnaðinn, þ.m.t. flutningastarfsemi, hafnar og opinberi geirinn, taki samninginn upp því annars verði hann ekki að veruleika.

  • Fyrir sumarið 2015 skal semja um hugsanlega framlengingu samningsins um eitt ár, og launahækkanir fyrir það tímabil.

  • Ríkisstjórnin mun styðja við samninginn með ákveðnum aðgerðum. Einstök atriði þeirra hafa ekki verið gerð opinber en rætt hefur verið um að þrep í tekjuskatti launafólks hækki til samræmis við verðbólgu.

  • Launahækkun frá upphafi til loka samningstímans er áætluð 1,03% skv. samningnum. Fyrstu 24 mánuðina er launahækkunin áætluð 0,66%, eða 0,33% á ári. Að viðbættu launaskriði, áhrifum síðasta kjarasamnings og hækkun launatengdra gjalda er heildarhækkun launakostnaðar atvinnulífsins áætluð 1,7-2,0% á almanaksárinu 2014 og 1,2-1,5% á almanaksárinu 2015.

Samtök atvinnulífsins