17. mars 2022

Kjarasamningar í Noregi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjarasamningar í Noregi

Kjaraviðræður fara nú fram í Noregi með dreifstýrðum hætti á vettvangi aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins í Noregi (NHO) og viðsemjenda þeirra.

Í Noregi er almenn samstaða um að iðnaðurinn í Noregi ráði ferðinni, samkvæmt svonefndu Frontfagsmodell, og að önnur samtök atvinnurekenda og launafólks fylgi fordæmi þeirra.

Norska líkanið felur í sér að iðnfyrirtæki, sem berskjölduð eru gagnvart samkeppni við erlenda keppinauta, setjast fyrst við samningaborðið. Almennur skilningur er á því að vöxtur og viðgangur norsks efnahagslífs byggi á því að launabreytingar séu innan þess ramma sem iðnaðurinn getur borið án þess að skaðast.

Kjarasamningarnir í Noregi renna út í lok þessa mánaðar. Í síðustu viku (9. mars) lögðu samningsaðilarnir fram áherslur sínar. Náist ekki samkomulag fyrir 1. apríl verður boðað til verkfalls og sáttasemjari tekur við stjórn viðræðna.

Við kynningu á áherslum atvinnulífsins lagði framkvæmdastjóri norsku samtaka atvinnulífsins, Ole Erik Almlid, áherslu á að nú væru óvissutímar og taka þyrfti mið af því að framvinda efnahagslífs í Noregi og Evrópu væri óvenju óljós. Í þeirri stöðu væri enn mikilvægara en áður að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Í komandi kjaraviðræðum væri viðfangsefnið að finna jafnvægi milli kaupmáttar launa og samkeppnishæfni fyrirtækja.

Í stöðuskjali norsku samtaka iðnaðarins segir um launakostnað að góð samkeppnishæfni sé nauðsynleg fyrir norskt atvinnulíf og vinnustaði. Mikilvægt sé að stuðla að umbótum og aukinni atvinnu. Launaþróun þurfi að stuðla að aukinni samkeppnishæfni til að tryggja störf og starfsemi fyrirtækja.

Meginkrafa samtakanna er að dagvinnutímabilið verði útvíkkað þannig að reglulegur vinnutími verði skipulagður á tímabilinu frá 6-19 mánudaga til laugardaga. Náist ekki samkomulag á vinnustöðum um dagvinnutímabil geti fyrirtæki einhliða ákveðið dagvinnutímabilið 7-17, mánudaga til laugardaga.

Gildandi dagvinnutímabil er 6-17 mánudaga til föstudaga og 6-12 á laugardögum við vissar aðstæður. Náist ekki samkomulag gildir dagvinnutímabilið 8-16.

Samtökin rökstyðja breytingartillögur sínar með nauðsyn þess að stuðla að fjárfestingum og nýta framleiðslutæki betur. Þá þurfi að samræma vinnutíma verkafólks og iðnaðarmanna við vinnutíma skrifstofufólks, sérfræðinga og stjórnenda fyrirtækjanna.

Meginkrafa Fellesforbundet er að launahækkanir verði almennar. Þá verði lægstu laun og laun þeirra sem dregist hafa aftur úr í launaþróun hækkuð sérstaklega. Tölugildi hækkana verða sett fram í viðræðunum. Samningstími verði 1. apríl 2022 til 31. mars 2024.

Samtök atvinnulífsins