Efnahagsmál - 

14. apríl 2011

Kjarasamningar í höndum ríkisstjórnarinnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjarasamningar í höndum ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur það í höndum sér hvort gerðir verða kjarasamningar til lengri eða skemmri tíma. Þetta segja forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins sem funda með fulltrúum ríkisstjórnarinnar fyrir hádegi. Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að nokkuð hafi gengið í viðræðum en klára þurfi ýmis mál. Gangur komst í kjaraviðræðurnar á ný í gærmorgun eftir útspil frá ríkisstjórninni og verður farið í þær af fullum krafti í dag. Vonast er til að samningar liggi fyrir á föstudag.

Ríkisstjórnin hefur það í höndum sér hvort gerðir verða kjarasamningar til lengri eða skemmri tíma. Þetta segja forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins sem funda með fulltrúum ríkisstjórnarinnar fyrir hádegi. Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að nokkuð hafi gengið í viðræðum en klára þurfi ýmis mál. Gangur komst í kjaraviðræðurnar á ný í gærmorgun eftir útspil frá ríkisstjórninni og verður farið í þær af fullum krafti í dag. Vonast er til að samningar liggi fyrir á föstudag.

"Við eigum í rauninni eftir að klára talsvert mikið gagnvart ríkisstjórninni ennþá og reiknum með því að það verði klárað fyrir hádegi," segir Vilmundur Jósefsson, formaður SA, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að ýmislegt hafi áunnist varðandi þau stóru atriði sem SA hafi lagt áherslu á en það vanti að klára málin.

"Við erum búin að fá ýmislegt fram í framkvæmda- og orkumálum en við þurfum að leggja lokahönd á það og fá ákveðnar tryggingar fyrir því að það gangi þá eftir eins og við höfum reiknað með," segir hann. Sjávarútvegsmálin séu stóra málið sem þurfi að klára og mikið velti á því að sátt náist um þau mál.

"Það er stefnt að því að gera þriggja ára samning en ef það strandar þá verður gripið til þess ráðs að fara í einhverja útfærslu á skammtímasamningum. Það veltur í rauninni allt á ríkisstjórninni."

Kjarasamningar til þriggja ára eru mikilvægur hluti Atvinnuleiðarinnar sem SA hafa talað fyrir undanfarnar vikur og mánuði ásamt samkomulagi við ríkisstjórnina um auknar fjárfestingar m.a. í orku- og iðnaðarverkefnum, sátt um málefni sjávarútvegsins, skattamál fyrirtækja, sérstakt átak til að ná niður atvinnuleysi og skipulag atvinnuleysistrygginga.

Forsenda þess að hægt verði að gera kjarasamninga til þriggja ára er að ríkisstjórnin leggi fram trúverðugar áætlanir sem leiði til meiri hagvaxtar en nú eru horfur á.

Tengt efni:

Þetta þarf ekki að vera svona - horfðu á atvinnuleiðina.

Samtök atvinnulífsins