Vinnumarkaður - 

06. desember 2011

Kjarasamningar í Finnlandi til tveggja ára

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjarasamningar í Finnlandi til tveggja ára

Heildarsamtökin á finnska vinnumarkaðnum gerðu nýlega rammasamning sem gildir næstu tvö árin og tekur hann til 94% launamanna í landinu. Aðilar að samningnum eru Samtök atvinnulífsins í Finnlandi, samtök vinnuveitenda hjá ríki og sveitarfélögunum annars vegar og tvenn heildarsamtök launafólks hins vegar. Samkvæmt samningnum má launakostnaður einstakra kjarasamninga milli vinnuveitenda og stéttarfélaga ekki hækka meira en 4,3% á næstu 25 mánuðum.

Heildarsamtökin á finnska vinnumarkaðnum gerðu nýlega rammasamning sem gildir næstu tvö árin og tekur hann til 94% launamanna í landinu. Aðilar að samningnum eru Samtök atvinnulífsins í Finnlandi, samtök vinnuveitenda hjá ríki og sveitarfélögunum annars vegar og tvenn heildarsamtök launafólks hins vegar. Samkvæmt samningnum má launakostnaður einstakra kjarasamninga milli vinnuveitenda og stéttarfélaga ekki hækka meira en 4,3% á næstu 25 mánuðum.

Með kostnaðarhækkunum er átt við launahækkanir og aðrar breytingar á kjörum sem hafa kostnað í för með sér. Kjarasamningar mega ekki hækka kostnað meira en 2,4% á næstu 13 mánuðum og 1,9% á þarnæstu 12 mánuðum.

Þessi aðferð við gerð kjarasamninga er nýlunda í Finnlandi, þ.e. að heildarsamtökin semji um kostnaðarramma en ekki efnisatriði.

Rammasamningurinn hefur verið staðfestur í öllum landssamböndum heildarsamtakanna en nákvæm útfærsla fer fram á vettvangi einstakra stéttarfélaga og fyrirtækja.

Markmið samningsins er að tryggja samkeppnishæfni Finnlands, hagvöxt, fjárfestingar, atvinnustig og kaupmátt á óvissutímum í heimsbúskapnum. Aðgerðir stjórnvalda í tengslum við samninginn snúa að bættri samkeppnishæfni og innlendri eftirspurn. Samningnum fylgir nokkur skattalækkun á launatengdum gjöldum fyrirtækja og lækkun á orkusköttum iðnaðarins.

Samtök atvinnulífsins