Vinnumarkaður - 

09. júlí 2015

Kjarasamningar auki kaupmátt þrátt fyrir aukna verðbólgu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjarasamningar auki kaupmátt þrátt fyrir aukna verðbólgu

„Kjarasamningarnir sem voru undirritaðir fyrir skömmu fara talsvert út fyrir það svigrúm sem er til launahækkana,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við Fréttablaðið í dag. Þorsteinn segir hættu á að samningarnir auki verðbólgu en segist vona að fyrirtæki bregðist við á annan hátt en með verðhækkunum.

„Kjarasamningarnir sem voru undirritaðir fyrir skömmu fara talsvert út fyrir það svigrúm sem er til launahækkana,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við Fréttablaðið í dag. Þorsteinn segir hættu á að samningarnir auki verðbólgu en segist vona að fyrirtæki bregðist við á annan hátt en með verðhækkunum.

„Við bindum vonir til að verðbólguáhrif verði eins lítil og kostur er og að fyrirtæki leiti allra annarra leiða en að bregðast við með kostnaðarhækkunum.“  Ársverðbólga samkvæmt nýjustu mælingu Hagstofunnar er liðlega 1,5% og fjarri því að verðlag hafi almennt hækkað mikið í kjölfar samninganna.

Í Fréttablaðinu kemur fram að samkvæmt  athugun Neytendasamtakanna hafi 17 birgjar  hækkað verð hjá sér að undanförnu. Flestir vísi til nýrra kjarasamninga sem ástæðu hækkana en einnig að flutnings- og rafmagnskostnaður hæfi hækkað. Listi Neytendasamtakanna er ekki tæmandi.

Samtök atvinnulífsins héldu því fram í aðdraganda kjarasamninga að ekki væri svigrúm til svo mikilla launahækkana eins og samið var um. Þær myndu þýða aukna verðbólgu og hækkun verðlags í landinu. Í umfjöllun Fréttablaðsins segir að vísbendingar séu að þau varnaðarorð hafi verið á rökum reist. „Þessi hætta er mjög skýr og er fyrir hendi. Þetta bentum við á. Til þess að verðlag sé stöðugt verða kjarasamningar að vera ábyrgir og unnir innan þess svigrúms sem er til launabreytinga. Þessir samningar voru það ekki.“

Einnig var rætt við Þorstein í Bítinu á Bylgjunni, miðvikudaginn 8. júlí um samband launahækkana, verðbólgu og kaupmáttar.  Hægt er að hlusta á viðtalið hér að neðan en þar bendir Þorsteinn á að laun séu að hækka mjög mikið og líkur á að kaupmáttur geri það einnig þó svo að verðbólgaskot fylgi samningunum sem gilda til ársloka 2018.

Forsenduákvæði samninganna gera ráð fyrir að í febrúar ár hvert hafi laun hækkað umfram hækkun verðlags - að öðrum kosti komi til endurskoðunar þeirra. Þorsteinn segist hafa fulla trú að samningarnir muni auka kaupmátt fólks, verbólga síðustu 12 mánaða skýrist aðallega af hækkunum á húsnæði en ekki á vörum og þjónustu og sé mun lægri en búist hafi verið við.

Þorsteinn segir tímabært að læra af reynslunni, of miklar launahækkanir á Íslandi hafi verið meginorsök verðbólgu í gegnum tíðina sem hafi skert lífskjör landsmanna. Stóra málið til lengri tíma sé að halda henni niðri, tryggja stöðugleika í efnahagslífinu, lækka vexti og auka ráðstöfunartekjur heimilanna líkt og nágrannaþjóðir okkar hafa gert með góðum árangri.

Viðtalið við framkvæmdastjóra SA má nálgast hér að neðan, en þar ræðir hann einnig um ástandið í Grikklandi, möguleg áhrif þess á íslenskt efnahagslíf.

Viðtal við framkvæmdastjóra SA í Bítinu á Bylgjunni

Samtök atvinnulífsins