Efnahagsmál - 

31. desember 2003

Kjarasamningar ættu að nást án átaka

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjarasamningar ættu að nást án átaka

Það kæmi á óvart ef menn sæju ástæðu til þess að efna til kjaradeilna nú, þegar höfð er í huga hin mikla aukning kaupmáttar undanfarin ár, segir Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í áramótasamtali við Morgunblaðið. Hann segir mestu skipta að andrúmsloftið er jákvætt og að almenn ánægja ríkir með árangur af yfirstandandi samningum, sem hafa skilað launafólki meiri raunhækkun launa en dæmi eru um áður. Í samtalinu fjallar Ingimundur meðal annars um þá miklu velmegun og auðlegð sem einkenna Ísland nú um stundir og möguleikana á áframhaldandi sókn í efnalegu tilliti, hátt launastig og mikilvægi hóflegra launahækkana, umbætur í skattamálum og nauðsyn aðhaldssemi í útgjöldum hins opinbera.

Það kæmi á óvart ef menn sæju ástæðu til þess að efna til kjaradeilna nú, þegar höfð er í huga hin mikla aukning kaupmáttar undanfarin ár, segir Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í áramótasamtali við Morgunblaðið. Hann segir mestu skipta að andrúmsloftið er jákvætt og að almenn ánægja ríkir með árangur af yfirstandandi samningum, sem hafa skilað launafólki meiri raunhækkun launa en dæmi eru um áður. Í samtalinu fjallar Ingimundur meðal annars um þá miklu velmegun og auðlegð sem einkenna Ísland nú um stundir og möguleikana á áframhaldandi sókn í efnalegu tilliti, hátt launastig og mikilvægi hóflegra launahækkana, umbætur í skattamálum og nauðsyn aðhaldssemi í útgjöldum hins opinbera.

Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í áramótasamtali við Morgunblaðið:

"Almenn velmegun og mikil auðlegð einkennir Ísland nú um stundir. Við erum meðal tíu tekjuhæstu þjóða heims, þegar litið er til verðmætasköpunar á hvern íbúa. Hagvöxtur hefur verið mikill og raunar til muna meiri en hjá flestum öðrum þjóðum. Við getum þó enn sótt fram í efnalegu tilliti ef við höldum vel á okkar málum á næstu árum. Þar verður á hinn bóginn ekkert sjálfgefið og úrlausnarefnin verða efalítið vandasöm. Í þeim efnum mun reyna mjög á hagstjórnina og ekki síður á hyggindi og staðfestu samtaka launþega og atvinnulífsins," segir Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, spurður um hvað sé efst í hans huga nú um áramót.

"Hagvöxtur hefur farið vaxandi á árinu eftir samdrátt í fyrra, en því miður einkennist hagþróunin af stöðnun eða samdrætti útflutningsgreina og ört vaxandi innflutningi. Útflutningsgreinar hafa bæði þurft að búa við sterkt gengi krónunnar og versnandi viðskiptakjör, sem þýðir með öðrum orðum að kaupmáttur útflutnings fer minnkandi. Gott atvinnuástand, aukinn kaupmáttur og væntingar um enn betri tíð hafa aukið á bjartsýni landsmanna og valdið vaxandi skuldsetningu heimilanna. Afleiðing þess er minni stöðugleiki milli helstu efnahagsþátta og aukin verðbólga. Meginverkefni næsta árs er að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Þar vegur þyngst aðhaldssemi í útgjöldum ríkis og sveitarfélaga og hófsamir kjarasamningar, en í þeim efnum er afar mikilsvert, að kostnaður atvinnulífsins hækki ekki umfram það, sem gerist hjá erlendum keppinautum.

Hérlendis eru laun sem hlutfall af verðmætasköpun þjóðarinnar í sögulegu hámarki, og hafa þau raunar verið það undanfarin fjögur ár. Það hlutfall er hér hærra en í nokkru öðru landi, sem við berum okkur saman við, og raunar mun hærra en að jafnaði í helstu viðskiptalöndum okkar. Þetta háa launahlutfall felur það í sér, að arðsemi fjármagns og framlegð fyrirtækja er minni en í viðskiptalöndum okkar, en það dregur úr fjárfestingu og hefur áhrif á atvinnustig, þegar til lengri tíma er litið," segir Ingimundur.

Jákvætt andrúmsloft
Þegar hann er beðinn að gerast spámaður fyrir komandi kjarasamninga segist hann vilja trúa því að niðurstaða muni fást án þess að til átaka komi. Það kæmi á óvart ef menn sæju ástæðu til þess að efna til kjaradeilna nú, þegar höfð væri í huga hin mikla aukning kaupmáttar undanfarin ár. "Mestu skiptir að andrúmsloftið er jákvætt og almenn ánægja ríkir með árangur af yfirstandandi samningum. Þeir hafa skilað launafólki meiri raunhækkun launa en dæmi eru um áður. Það er ekki síst því að þakka, að í síðustu kjarasamningum var áhersla lögð á efnahagslegan stöðugleika og hóflegar launahækkanir. Fari það saman er líklegast að kjarasamningar valdi lítilli verðbólgu, skili auknum kaupmætti og bæti í raun afkomu launamanna. Flest stærstu félög launafólks á almennum vinnumarkaði hafa nú í kröfugerðum sínum lagt megináherslu á það að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Það er afar mikilsvert. Kröfur félaganna eru þó í heild talsvert hærri en svo, að unnt yrði að halda stöðugleika í verðlagi, ef að þeim yrði gengið, enda yllu þær þá mun meiri kostnaðarhækkunum hér á landi en atvinnulífið býr við í nágrannalöndum okkar.

Við Íslendingar höfum því miður reynslu af því hvernig miklum launahækkunum getur fylgt lítill eða enginn kaupmáttarauki. Launahækkanir, sem ekki eru í samræmi við launabreytingar í viðskiptalöndum okkar, eru einfaldlega ávísun á gengislækkun og vaxandi verðbólgu. Þessi reynsla er mönnum eflaust ljós beggja vegna samningaborðsins. Vonandi berum við gæfu til þess að fylgja eftir kjarasamningum, sem taka mið af aukinni verðmætasköpun í íslensku efnahagslífi. Kjarasamningar, sem fela hlutfallslega í sér hækkun launa umfram aukna verðmætasköpun í efnahagslífinu, munu einfaldlega stuðla að aukinni verðbólgu og verða flestum til tjóns í efnalegu tilliti.

Landssambönd ASÍ hafa kynnt hugmyndir sínar um lengd samningstíma. Þær eru ýmist til tveggja eða fjögurra ára, en þó útiloka þeir ekki, sem áherslu leggja á styttri samningstíma, að hann geti orðið lengri. Reynslan af yfirstandandi og síðasta samningstímabili bendir ótvírætt til þess, að meiri ávinningur sé af lengri samningstíma bæði fyrir launamenn og fyrirtæki, þannig að vonandi fæst niðurstaða um lengri samningstíma en skemmri. Það fer þó eftir forsendunum, hvort samningstími verði langur í raun, því ef samningar verða lausir eða uppsegjanlegir af minnsta tilefni, þá er í raun verið að gera samning um að vera stöðugt að endurskoða samninga.

Verkalýðshreyfingin hefur nú sett fram kröfur um aukin lífeyrisréttindi til jafns við það, sem gerist í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Sú krafa kemur fram í framhaldi af samþykkt frumvarps um breytingar á eftirlaunum alþingismanna og ráðherra. Af þessu tilefni verður ekki hjá því komist að árétta, að svo getur ekki haldið áfram, að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, leiði þróun launa og annarra starfskjara á vinnumarkaði. Kaupmáttur opinberra starfsmanna hefur nú til margra ára aukist mun hraðar en kaupmáttur launþega á almennum vinnumarkaði og er morgunljóst, að atvinnulífið hefur ekki svigrúm til þess að fylgja þeirri þróun eftir."

Umbætur í skattamálum
Þegar Ingimundur er spurður út í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja segir hann verulegar umbætur hafa orðið á starfsskilyrðum atvinnulífsins undanfarin ár. "Af mörgu má taka, en ég vil þó sérstaklega nefna umbætur á sviði skattamála, sem hafa fært íslenskum fyrirtækjum samkeppnishæft skattaumhverfi, þótt rétt sé að leggja áherslu á að margt er þó enn ógert á því sviði, svo sem afnám hins nánast séríslenska eignarskatts og afnám úreltra stimpil- og vörugjalda. Frjálsræði hefur jafnframt aukist til muna á fjármála- og gjaldeyrismarkaði og ríkisvaldið hefur verið að draga sig meira út úr samkeppnisrekstri í atvinnulífinu. Þegar á heildina er litið hefur breytingin á starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja verið afar jákvæð og er ég sannfærður um, að hún eigi ríkan þátt í hlut atvinnulífsins í afkomubata þjóðarinnar. Þá vil ég ennfremur nefna, hve mikilvægt það er að hafa endurheimt stöðugleika í verðlagi, en það hefur m.a. náðst með góðu samstarfi aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda.

Á hinn bóginn þurfa íslensk fyrirtæki á sama tíma að búa við mun hærri vaxtakostnað en erlendir keppinautar auk þess sem gengissveiflur hafa valdið óstöðugleika í rekstri. Jafnframt er launastigið sem fyrr segir með allra hæsta móti hér á landi, bæði í sögulegu samhengi og í samanburði við viðskiptalöndin. Brýnustu verkefni stjórnvalda hvað starfsumhverfið varðar snúa öðru fremur að efnahagsstjórninni: að sýna aðhald í opinberum útgjöldum á þeim miklu framkvæmdatímum, sem framundan eru hér á landi, og sporna þannig gegn þenslu, enn hærra vaxtastigi og of háu gengi krónunnar," segir Ingimundur. Hvað einkalífinu viðkemur segir hann að tvennt hafi borið hæst. Annars vegar breyting á eigin starfsvettvangi þar sem hann lét af forstjórastarfi Eimskipafélags Íslands og hins vegar langþráð og ánægjulegt sumarleyfi á Ítalíu í sumar, en það hafi verið í fyrsta sinn sem tækifæri gafst til þess að eyða tíu samfelldum dögum með fyrsta og eina barnabarninu enn sem komið er. Hið seinna hafi verið ómetanleg og ánægjuleg upplifun.

Samtök atvinnulífsins