Kjaramál í Kastljósinu

Alvarleg staða á vinnumarkaði var til umfjöllunar í Kastljósi RÚV í gærkvöld. Rætt var við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og Drífu Snædal, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins. SGS krefst 50-70% launahækkana á þriggja ára tímabili fyrir alla sína félagsmenn og að hækkanir hæstu launa verði hlutfallslega mestar. Yrði gengið að háum kröfum SGS og þær yrðu fyrirmynd annarra samninga, eins og viðbúið er, myndi launakostnaður atvinnulífsins hækka um 500-700 milljarða á ári.

Þorsteinn benti á að kröfugerð SGS snúist ekki eingöngu um hækkun lægstu launa eins og haldið hefur verið ítrekað fram.  Þorsteinn tók sem dæmi að meðaltekjur innan SGS (að félögunum á Suð-Vesturlandi meðtöldum) eru 420 þúsund krónur á mánuði. Kröfur SGS  hækki þau í 650-700 þúsund krónur sem sé langt yfir meðaltekjum í landinu og um slíkar hækkanir yrði aldrei sátt hjá öðrum starfsstéttum án þess að þær fengju sambærilegar hækkanir.  Það myndi hleypa verðbólgunni af stað.

Þorsteinn ítrekaði vilja SA til að ræða leiðir til að hækka lægstu laun en það sé ekki sátt um það á vinnumarkaði að hækka þau sérstaklega. Nýverið settu SA fram hugmyndir um að fara nýjar leiðir í kjarasamningum með því að stokka upp gömul og úrelt launakerfi, hækka grunnlaun gegn því að dregið yrði úr yfirvinnugreiðslum. Með því yrði vinnumarkaður á Íslandi sambærilegri við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Þorsteinn segir það farsælla en að hverfa aftur til níunda áratugarins þegar laun voru hækkuð um 40% á ári að jafnaði. Laun voru tuttugufölduð á þeim áratug en þegar upp var staðið hafði kaupmáttur aukist um innan við 1%. Í kjölfarið voru tekin upp breytt vinnubrögð með þjóðarsátt um hóflegar launahækkanir og stöðugt verðlag. Uppskeran var sú að  kaupmáttur jókst um 2% á ári að jafnaði á tíunda áratugnum.

Smelltu hér til að horfa