Efnahagsmál - 

02. febrúar 2006

Kjarabætur teknar að láni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjarabætur teknar að láni

Á árunum og áratugunum fyrir árið 1990 gerðist það ítrekað að kjarasamningar stéttarfélaga við ríki eða sveitarfélög voru gerðir í aðdraganda kosninga til þings eða sveitarstjórna. Kjarasamningar sem gerðir voru við þessar aðstæður fólu gjarnan í sér háar prósentutölur og ollu uppnámi á vinnumarkaðnum. Kjarasamningar við slíkar aðstæður voru líklega síðast gerðir vorið 1987 í aðdraganda alþingiskosninga. Þetta mynstur breyttist eftir þjóðarsáttina 1990 og hefur það verið þroskamerki á íslensku samfélagi að almennt samkomulag hefur ríkt um að beita ekki kjarasamningum í pólitískum tilgangi fyrir einstaka frambjóðendur eða stjórnmálaflokka. Til þess væru of miklir grundvallarhagsmunir í húfi. Þetta óformlega samkomulag var rofið með kjarasamningi Reykjavíkurborgar við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar í byrjun desember 2005. Þá var undirritaður verðbólgusamningur með gamla laginu með 25-30% kostnaðarhækkun á þremur árum. Kjarasamningarnir fengu nánast rússneska kosningu í stéttarfélögunum og borgarstjórinn bætti stöðu sína gagnvart keppinautunum í prófkjörsbaráttunni.

Á árunum og áratugunum fyrir árið 1990 gerðist það ítrekað að kjarasamningar stéttarfélaga við ríki eða sveitarfélög voru gerðir í aðdraganda kosninga til þings eða sveitarstjórna. Kjarasamningar sem gerðir voru við þessar aðstæður fólu gjarnan í sér háar prósentutölur og ollu uppnámi á vinnumarkaðnum. Kjarasamningar við slíkar aðstæður voru líklega síðast gerðir vorið 1987 í aðdraganda alþingiskosninga. Þetta mynstur breyttist eftir þjóðarsáttina 1990 og hefur það verið þroskamerki á íslensku samfélagi að almennt samkomulag hefur ríkt um að beita ekki kjarasamningum í pólitískum tilgangi fyrir einstaka frambjóðendur eða stjórnmálaflokka. Til þess væru of miklir grundvallarhagsmunir í húfi. Þetta óformlega samkomulag var rofið með kjarasamningi Reykjavíkurborgar við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar í byrjun desember 2005. Þá var undirritaður verðbólgusamningur með gamla laginu með 25-30% kostnaðarhækkun á þremur árum. Kjarasamningarnir fengu nánast rússneska kosningu í stéttarfélögunum og borgarstjórinn bætti stöðu sína gagnvart keppinautunum í prófkjörsbaráttunni.

Kjaramál annarra sveitarfélaga sett í uppnám

Kjarasamningur Reykjavíkurborgar setti kjaramál nágrannasveitarfélaganna í uppnám, en þau höfðu öll lokið samningsgerð við bæjarstarfsmannafélögin og Eflingu í gegnum launanefnd sveitarfélaga. Athyglin beindist mest að leikskólunum, en í raun endurspegluðu þeir stöðuna almennt. Afleiðing samnings borgarinnar var að leikskólar nágrannasveitarfélaganna urðu nánast óstarfhæfir vegna þess hve kjörin voru orðin mikið betri hjá borginni og leikskólarnir innan borgarmarkanna urðu nánast óstarhæfir vegna þess að kjör þeirra starfsmanna leikskólanna sem ekki voru leikskólakennaramenntaðir voru orðin of góð hlutfallslega miðað við leikskólakennarana.

Sveitarfélögin hafa greitt laun samkvæmt kjarasamningum launanefndarinnar og eru greiðslur umfram samninga þeirra fátíðar. Kjarasamningar sveitarfélaganna eru því ekki lágmarkssamningar, eins og almennir samningar á vinnumarkaðnum eru, heldur eru þeir jafnframt hámarkssamningar. Þann 28. janúar brást launanefnd sveitarfélaga við þeim aðstæðum sem upp voru komnar með því að heimila sveitarfélögunum að greiða launaviðbætur við gildandi kjarasamninga við bæjarstarfsmannafélögin og aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands. Rétt er að halda því til haga að ákvörðun launanefndarinnar er tekin í skugga hópuppsagna starfsmanna á leikskólum. Í samþykkt launanefndarinnar var tekið fram að ekki væri um breytingu á kjarasamningi að ræða og að ekki yrðu teknar upp viðræður við stéttarfélög um þessar ákvarðanir. Hækkun launa er mjög mismunandi eftir störfum, um 10% í lægstu launaflokkunum en fer lækkandi eftir því sem ofar dregur í launastiganum og fá hæstu launaflokkarnir 3% í tveimur áföngum á samningstímanum. Tilmælin um hækkun á leikskólunum eru hins vegar á þann veg að lægstu launin hækka minnst, rúm 11%, og þau hæstu mest, rúm 15%.

Hér skal engu spáð um hvort þessi samþykkt launanefndarinnar sé til þess fallin að skapa frið um launamál sveitarfélaganna, en ljóst er að það veldur spennu að launabil milli hópa þjappast saman og að deildarstjórar í leikskólum hækka meira en aðrir deildarstjórar hjá sveitarfélögunum. Þá eru nú þegar komnar fram kröfur í Hafnarfirði um að sambærilegar launahækkanir verði látnar ná almennt til bæjarstarfsmanna, líkt og í Reykjavík.

Sveitarfélögin verða að slá lán

Þrátt fyrir mikla hækkun útsvarstekna og tekna af fasteignagjöldum undanfarin ár hafa sveitarfélögin í heild verið rekin með umtalsverðum halla. Árið 2004 nam rekstrarhalli sveitarfélaganna rúmum 10 milljörðum króna og í fyrra nam hann 6 milljörðum skv. áætlun fjármálaráðuneytisins. Hallareksturinn mun halda áfram á þessu ári og því verða flest sveitarfélögin að slá lán fyrir öllum þessum launahækkunum. Mörg minni sveitarfélög standa afar tæpt og geta engan veginn risið undir þessum kostnaðarhækkunum og má því búast við að sveitarfélögin muni biðla til ríkisins eftir fjármunum, nýjum tekjustofnum, til að geta staðið undir launahækkunum til starfsmanna sinna.

Ekki tilefni til endurskoðunar á samningum SA

Næsti þáttur í þessari atburðarás sem hinn kosningalitaði kjarasamningur Reykjavíkurborgar hrinti af stað stendur nú yfir, en það eru óskir forystumanna Starfsgreinasambandsins um að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði verði breytt til samræmis við samning Reykjavíkurborgar og samræmdrar yfirborgunar annarra sveitarfélaga á gildandi kjarasamninga. Þessum hugmyndum hefur verið svarað afdráttarlaust af hálfu SA á þann veg að umræddir atburðir á vettvangi sveitarfélaga gefi ekki tilefni til endurskoðunar samninga á almennum markaði. Samningar voru gerðir við Starfsgreinasambandið og önnur landssambönd ASÍ í mars og apríl 2004 til fjögurra ára og hefur nýlega verið farið yfir forsendur þeirra og ákveðið að þeir haldi gildi sínu út samningstímann með ákveðnum viðbótum af hálfu atvinnulífsins annars vegar og stjórnvalda hins vegar.

Verðbólguáhrif framgöngu sveitarfélaganna

Starfsmenn sveitarfélaga eru um 18.000 sem nemur 10-11% af vinnumarkaðnum. Að undanskildum grunnskólakennurum, sem eru um 4.500, eru starfsmenn sveitarfélaganna því 13.500 eða 8% af vinnumarkaðnum. Það er óhugsandi að launagreiðendur hjá hinu opinbera ákveði hvaða launabreytingar gangi yfir samkeppnisgreinar atvinnulífsins. Þessu þarf að vera þveröfugt farið því öðru vísi næst ekki það markmið að launaþróun ákvarðist af framleiðniþróun í efnahagslífinu, en það er forsenda þess að unnt sé að búa við stöðugt verðlag hér á landi. Óánægja hópa á almennum markaði með samanburð við launakjör hjá sveitarfélögum getur ekki orðið tilefni til endurskoðunar kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins við stéttarfélögin.  Það hljóta menn að skilja.

Sveitarfélögin vinna gegn 2,5% verðbólgumarkmiði ríkisstjórnar og Seðlabanka á tvennan hátt, með hallarekstri og kostnaðarsömum kjarasamningum. Þetta verðbólgumarkmið gerðu samningsaðilar á almennum vinnumarkaði að forsendu kjarasamninga fyrir tímabilið 2004-2007, en það getur ekki náðst nema árlegar launabreytinar séu að hámarki 3-4% þegar öll launamyndun er talin. Meiri launabreytingar en það tíðkast ekki í löndum þar sem verðstöðugleiki ríkir. Spyrja má hvaða verðbólgumarkmið sveitarfélögin í landinu aðhyllast?

Hannes G. Sigurðsson

Samtök atvinnulífsins