Samkeppnishæfni - 

19. Desember 2019

Kísiljárn og áfengi í hringrásarhagkerfinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kísiljárn og áfengi í hringrásarhagkerfinu

Haustið 2019 var stofnaður samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Það liggur í augum uppi að loftslagsváin verður ekki leyst án aðkomu fyrirtækja, til þess er verkefnið of stórt. Eitt af því sem mun koma að notum er svokallað hringrásarhagkerfi.

Haustið 2019 var stofnaður samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Það liggur í augum uppi að loftslagsváin verður ekki leyst án aðkomu fyrirtækja, til þess er verkefnið of stórt. Eitt af því sem mun koma að notum er svokallað hringrásarhagkerfi.

Hringrásarhagkerfi miðar að því að lágmarka úrgang og hámarka nýtingu auðlinda í stað þess að taka, nota og henda, líkt og gert er ráð fyrir í línulegu hagkerfi. Á sama tíma og hráefnaþörf eykst í heiminum er hann fullur af úrgangi. Í Evrópu fer um 31% matvæla til spillis og 10-15% af byggingarefnum á meðan á byggingaframkvæmdum stendur. Jákvæð umhverfisáhrif af hringrásarhagkerfi eru óumdeild en fyrir fyrirtæki er ávinningurinn jafnframt mikill. Afkoman batnar með betri nýtingu og auknum tekjum og væntingar fjárfesta og starfsmanna aukast. Grænar lausnir eru að ryðja sér til rúms í auknum mæli í íslensku atvinnulífi og fjölmörg íslensk fyrirtæki standa framarlega við nýsköpun, þróun og beitingu nýrrar umhverfisvænnar tækni, hvert á sínu sviði.

Elkem Ísland setti sér það háleita markmið að starfsemi félagsins verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2040. Náist markmiðið verður kísiljárnverksmiðjan líklega sú fyrsta í heimi án nokkurs kolefnisfótspors. Sem dæmi má nefna að í framleiðslunni verða til um 110 MW af glatvarma sem er orka sem fyrirtækið hyggst nýta betur.

Leið Elkem til kolefnishlutleysis.

Í þessu samhengi má sérstaklega horfa til nýsköpunarfyrirtækisins Íslenskar mysuafurðir sem er í eigu Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga. Félagið vinnur að aukinni verðmætasköpun úr hráefnum sem falla til í mjólkurframleiðsluferlinu og er gott dæmi um hversu vel getur tekist til þegar unnið er eftir hugmyndafræði hringrásarhagkerfis. Verkefnið og sú verðmæti sem það skapar hefði ekki orðið að veruleika ef samvinna og hagræðing í mjólkuriðnaði hefði ekki verið heimil þar sem vinnslufyrirtæki hefðu staðið frammi fyrir vandamálum hvert í sínu horni. Með samvinnu var vandamálum breytt í tækifæri.

Framleiðsluferli Íslenskra mysuafurða.

Að meðaltali eru um 50 kýr á íslenskum sveitabæjum. Árlega er framleitt úr 150 milljón lítrum af mjólk þar sem 90 milljón lítrar fara í ýmsar mjólkurvörur, s.s. mjólk, smjör og rjóma og 60 milljón lítrar í osta.

Við ostaframleiðsluna umbreytist 90% af hráefninu í mysu. Áður var þessum 54 milljón lítrum af mysu fargað í sjó en nú hefst nýtt framleiðsluferli þar sem úrgangi er haldið í lágmarki og hráefnanýting hámörkuð.

Úr mysunni eru unnin 360 tonn af próteindufti sem nýtt er í fæðubótarefni og próteinbætt matvæli. Þegar búið er að vinna próteinduft standa eftir um 12.000 tonn af sætum vökva og þar af um 2.200 tonn af mjólkursykri. Vökvinn er þá gerjaður og eimaður með grænni innlendri orku. Sykurinn, sem eimast frá, er nýttur til að framleiða 1.500.000 lítra af alkóhóli/etanóli sem er hægt að breyta í 6,5 milljónir flaskna af 40% sterku áfengi eða aðrar vörur s.s. rúðuúða, íblöndunarefni fyrir bensín o.fl. Hrat sem fellur til við þennan síðasta lið framleiðslunnar er hægt að nota sem próteinríkt bætiefni í skepnufóður. Að loknu þessu ferli er einungis hreint vatn sem rennur út í umhverfið.

Það er hlutverk stjórnvalda að móta samkeppnishæft regluumhverfi þannig að framlag fyrirtækja til umhverfis- og loftslagsmála geti orðið sem veigamest. Framleiðsluferli þessa nýsköpunarfyrirtækis er frábært dæmi um það hvernig hægt er að breyta vinnslu og hámarka nýtingu á þann veg að allir hafi ávinning af, fyrirtæki, almenningur og umhverfið. Hugvit og nýsköpun tveggja stórra fyrirtækja, án beinnar aðkomu stjórnvalda, gerðu framþróun mögulega í ferli sem hafði í gegnum tíðina leitt til vannýtingar á stórum hluta hráefna.


Til umhugsunar er yfirskrift greina á vef SA þar sem fjallað er um brýn samfélagsmál.

Samtök atvinnulífsins