24. júní 2022

Kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist mest hjá tekjulágum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist mest hjá tekjulágum

Samkvæmt nýrri greiningu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafa heildartekjur allra tekjutíunda hækkað undanfarin ár og kaupmáttur aukist. Að auki greiða allar tíundir nú minni tekjuskatt en áður nema þeir allra tekjuhæstu.

Frá árinu 2021 hefur kaupmáttur heildartekna einstaklinga aukist um 4,4% og kaupmáttur ráðstöfunartekna um 5,1% að jafnaði, þ.e. heildartekjur auk bóta að frádregnum opinberum gjöldum leiðrétt fyrir hækkandi verðlagi. Í þessum tölum birtist bæði mikill ávinningur Lífskjarasamningsins frá 2019 og skilvirkar breytingar á skattkerfinu á undanförnum árum sem hafa skilað sér í vasa heimila. Mest hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist hjá þeim tekjulægstu.

Engin breyting er á skattbyrði tekjulægstu tíundarinnar þar sem tekjur þeirra falla undir skattleysismörk. Kaupmáttur ráðstöfunartekna þessa hóps hefur þó aukist talsvert umfram aðra.

Skattbyrði tekjuhæstu tíundarinnar hefur aftur á móti aukist frá árinu 2019.

Samtals námu skattgreiðslur efstu tekjutíundar 36% af heildartekjum hins opinbera af tekjusköttum einstaklinga (þ.e. tekjuskattur einstaklinga, útsvar og fjármagnstekjuskattur) árið 2021. Til samanburðar stóð tekjulægri helmingur skattgreiðenda, þ.e. neðstu fimm tekjutíundir, undir samtals 17% af tekjuskatti einstaklinga, þar af aðeins 4% af greiddum tekjuskatti til ríkissjóðs og 13% af heildarútsvari. Efri helmingur tekjudreifingarinnar stendur því undir afganginum, eða 83% af tekjum hins opinbera af tekjusköttum einstaklinga.

Samtök atvinnulífsins