Efnahagsmál - 

03. Nóvember 2005

Kaupmáttur launa aldrei verið hærri

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kaupmáttur launa aldrei verið hærri

Nú þegar miðstjórn ASÍ hefur sent út þau boð að einsýnt sé að kjarasamningum verði sagt upp vegna kaupmáttarþróunar er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og skoða hvernig kaupmáttur launa landsmanna hefur þróast á undanförnum árum í samanburði við fyrri tímabil. Þróun undanfarins aldarfjórðungs er sýnd á meðfylgjandi línuriti, þ.e. tímabilið frá 1980 til september 2005, og er byggt á launavísitölu Hagstofunnar frá 1989 og launavísitölu til greiðslujöfnunar fyrir þann tíma. Línuritið sýnir að kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri, að hann hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 1994 þegar hann var í lágmarki og að hann er 40% hærri nú en þá var. Aukning kaupmáttar frá árinu 1999, þ.e. á síðasta samningstímabili sem var fjögur ár og það sem liðið er af þessu samningstímabili, er 14%.

Nú þegar miðstjórn ASÍ hefur sent út þau boð að einsýnt sé að kjarasamningum verði sagt upp vegna kaupmáttarþróunar er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og skoða hvernig kaupmáttur launa landsmanna hefur þróast á undanförnum árum í samanburði við fyrri tímabil. Þróun undanfarins aldarfjórðungs er sýnd á meðfylgjandi línuriti, þ.e. tímabilið frá 1980 til september 2005, og er byggt á launavísitölu Hagstofunnar frá 1989 og launavísitölu til greiðslujöfnunar fyrir þann tíma. Línuritið sýnir að kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri, að hann hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 1994 þegar hann var í lágmarki og að hann er 40% hærri nú en þá var. Aukning kaupmáttar frá árinu 1999, þ.e. á síðasta samningstímabili sem var fjögur ár og það sem liðið er af þessu samningstímabili, er 14%. 

Smellið á myndina

Kaupmáttur launa nóv lítil

Þegar litið er á tímabilið í heild þá var kaupmáttur launa í september 2005 16,5% hærri en fyrir aldarfjórðungi og hefur hann að jafnaði vaxið um 0,6% árlega að jafnaði á þessum 25 árum. Kaupmátturinn minnkaði á níunda áratugnum um 15% og jókst síðan um rúm 20% á þeim tíunda. Það var ekki fyrr en á árinu 1999 að kaupmáttur ársins 1980 náðist á ný. Árleg kaupmáttaraukning að jafnaði frá 1999 er 2,2% sem er þrefalt meira en að jafnaði síðasta aldarfjórðunginn.

Lífskjarabati án hliðstæðu
Tekjuskattur ríkisins á launafólk hefur verið lækkaður á þessu ári og svo var einnig gert á árunum 1997-1999. Kaupmáttur ráðstöfunartekna, þ.e. launa eftir skatt, hefur því aukist enn meira en kaupmáttur launa. Samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins verður kaupmáttur ráðstöfunartekna liðlega 60% hærri á þessu ári en árið 1994 og tæplega 20% hærri en árið 1999. Slík aukning kaupmáttar, eða með öðrum orðum slíkur lífskjarabati, á sér vart nokkra hliðstæðu meðal þróaðra ríkja á svo skömmum tíma.

Hærri framlög vinnuveitenda til lífeyrissjóða ekki mæld í vísitölum
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði á þessu samningstímabili og því síðasta hafa að miklu leyti snúist um lífeyrismál. Á síðasta samningstímabili var samið um mótframlög vinnuveitenda gegn viðbótar lífeyrissparnaði launamanna og á yfirstandandi samningstímabili var samið um 1% viðbótarframlag vinnuveitenda í samtryggingarlífeyrissjóð frá síðustu áramótum og um 1% til viðbótar árið 2007. Þessar greiðslur vinnuveitenda í lífeyrissjóði eru ekki mældar í launavísitölum hér á landi. Það er hins vegar ekkert sjálfgefið að reikna vísitölurnar með þeim hætti. Má t.d. nefna að í Danmörku eru iðgjöld í lífeyrissjóði meðal þeirra þátta sem launavísitölur mæla. Í ljósi þess að verulegur hluti kostnaðarauka vinnuveitenda á undanförnum árum hefur farið í lífeyrisfarveginn er það afar ófullkomin umfjöllun um það hverju samningarnir hafa skilað fólki að líta fram hjá aukningu framlaga vinnuveitenda til lífeyrissparnaðar.

Kaupmáttarþróun alls launafólks, þ.e. bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, að meðaltali á þessu og síðasta samningstímabili er sýnd með bláu línunni í meðfylgjandi línuriti. Auk þess er bætt við áætluðum kaupmáttarauka vegna  þeirra iðgjalda sem samið hefur verið um að vinnuveitendur greiði í lífeyrissjóði. Myndin sýnir að kaupmáttur launa var 14,3% hærri í september 2005 en í janúar 2000. Þegar fyrri hluti yfirstandandi samningstíma er borinn saman við sama tímabil á síðasta samningstímabili kemur í ljós að kaupmáttur jókst um 2,7% frá janúar 2004 til september 2005 samanborið við 3,9% á sama tímabili árin 2000-2001. Aukning kaupmáttar er veruleg á báðum tímabilum en allnokkru meiri á því fyrra. Þessi munur jafnast nokkuð þegar tekið er tillit til lífeyrisframlaga. Kaupmáttur launa að viðbættum framlögum til lífeyrissparnaðar, sem sýndur er með rauðu línunni, hefur aukist umtalsvert meira, eða um 16,6% á tímabilinu. Er þá reiknað með að helmingur launamanna spari í séreignarlífeyrissjóðum og um 60% launamanna (á þessu ári hækkuðu lífeyrisframlög einungis á almennum vinnumarkaði, en opinberir starfsmenn fengu sambærilega hækkun á launum í staðinn) hafi fengið hækkun á framlagi vinnuveitenda í samtryggingarlífeyrissjóði á þessu ári.


 

Smellið á myndina

Þróun kaupmáttar nóv lítil

Sé litið til kaupmáttarþróunar á almennum markaði annars vegar og opinberum markaði hins vegar þá hefur kaupmáttarþróunin verið nánast eins á síðustu tveimur árum, þegar tekið er tillit til lífeyrisframlags á almennum vinnumarkaði. Kaupmáttur launa hjá opinberum starfsmönnum jókst um 5,2% en 4,2% á almennum vinnumarkaði án lífeyrisframlagsins, en um 5,2% með því, frá 4. ársfjórðungi 2003 til þriðja ársfjórðungs á þessu ári. Á sambærilegu skeiði á síðasta samningstímabili, þ.e. frá 4. ársfjórðungi 1999 til 3. ársfjórðungs 2001, jókst kaupmáttur launa opinberra starfsmanna um 7,4% en um 2,8% á almennum markaði. Kaupmáttarþróunin milli þessara geira hefur með öðrum orðum verið mun jafnari á þessu samningstímabili en á því síðasta.

Þrír fjórðu vegna hækkunar fasteignaverðs
Í þessari umfjöllun um kaupmátt launa og samhengi við kjarasamninga hefur verið byggt á vísitölu neysluverðs eins og hún er reiknuð og hefðbundið er að gera, enda er tilefni til endurskoðunar kjarasamninga miðað við þá vísitölu. Það verður þó ekki litið fram hjá því að þróun vísitölunnar hefur verið afar óvenjuleg undanfarið ár þar sem þrír fjórðu hlutar verðbólgunnar undanfarna 12 mánuði hafa stafað af hækkun fasteignaverðs og 55% af hækkun vísitölunnar frá ársbyrjun 2004. Ef ekki hefði komið til þessarar fasteignaverðbólgu þá hefði verðlagsforsenda kjarasamninganna staðist. Þá er ákaflega vandasamt að mæla húsnæðiskostnað í vísitölu neysluverðs og umdeilanlegt hvernig það er gert. Er þá ekki einungis átt við þá staðreynd að eignir fólks hafa hækkað í verði á móti og fasteignakaup orðið viðráðanlegri vegna lægri fjármagnskostnaðar. Í umræðu undanfarið hefur til dæmis komið fram að húsnæðisliður vísitölunnar er ekki gæðaleiðréttur, eins og t.d. bifreiðaliður vísitölunnar, en á báðum sviðum fara gæði vaxandi ár frá ári. Þegar bílar hækka í verði vegna hvarfakúta eða ABS bremsa þá kemur það ekki fram sem hækkun í vísitölu neysluverðs en sífellt dýrari fjölbýlishús vegna aukinna sérbýliseinkenna, bílageymslna og aukinnar hljóðeinangrunar gera það. 

Ekki samið um kaupmátt í kjarasamningum
Í kjarasamningum eru laun ekki verðtryggð með vísitölu neysluverðs og ekki er samið um kaupmátt heldur launataxta og launabreytingar. Yfirstandandi samningar eru til fjögurra ára og ákvæðið um verðbólguna er öryggisventill, sem tilkominn er til þess að verkalýðsfélögin geti losnað út úr samningum ef allt færi á versta veg. Ekki er með nokkru móti hægt að halda því fram að hallað hafi á félagsmenn verkalýðsfélaganna það sem af er samningstímans þar sem kaupmáttur launa er í sögulegu hámarki hvernig sem á hann er litið og ofan á það eru tekjuskattar lækkaðir svo um munar. Á hinn bóginn hefur hallað verulega á atvinnulífið, þ.e. þann hluta þess sem hefur tekjur í erlendum gjaldmiðlum eða þarf að keppa við erlendar vörur eða þjónustu. Ef einhver ætti að hafa tilefni til þess að segja upp samningum, og losna þannig út úr miklum launahækkunum um næstu áramót, þá eru það fyrirtæki í erlendri samkeppni sem ekki eiga fyrir neinum hækkunum og ekki geta velt kostnaðarhækkunum yfir á viðskiptamenn sína.


 

Samtök atvinnulífsins