Efnahagsmál - 

01. Mars 2001

Kaupmáttur lágmarkslauna aldrei hærri

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kaupmáttur lágmarkslauna aldrei hærri

Kaupmáttur launa hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár og er meðalkaupmáttur ráðstöfunartekna nú um fimmtungi hærri en í upphafi síðasta áratugar. Kaupmáttur umsaminna launataxta hefur einnig hækkað mikið og raunar mun meira en greiddra launa í heild, samanber meðfylgjandi línurit. Kaupmáttur lágmarkslauna, þ.e. lægsta umsamda launataxta, hefur t.d. aldrei verið hærri en nú. Frá árinu 1990 hefur hann aukist um þriðjung eða 32,3%. Á fyrri hluta síðasta áratugar, á árabilinu 1990-1995, var kaupmátturinn sem næst óbreyttur og er alla aukninguna því að rekja til þess sem gerst hefur frá 1996.

Kaupmáttur launa hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár og er meðalkaupmáttur ráðstöfunartekna nú um fimmtungi hærri en í upphafi síðasta áratugar.  Kaupmáttur umsaminna launataxta hefur einnig hækkað mikið og raunar mun meira en greiddra launa í heild, samanber meðfylgjandi línurit.  Kaupmáttur lágmarkslauna, þ.e. lægsta umsamda launataxta, hefur t.d. aldrei verið hærri en nú.  Frá árinu 1990 hefur hann aukist um þriðjung eða 32,3%.  Á fyrri hluta síðasta áratugar, á árabilinu 1990-1995, var kaupmátturinn sem næst óbreyttur og er alla aukninguna því að rekja til þess sem gerst hefur frá 1996. 


Kaupmáttur lágmarkslauna heldur áfram að aukast hröðum skrefum á þessu ári og því næsta.  Miðað við fyrirliggjandi verðbólguspá Seðlabankans fyrir yfirstandandi ár og það næsta mun kaupmáttur lágmarkslauna vaxa um 3,5% á þessu ári og 3,2% á næsta ári.  Ef það gengur eftir mun kaupmáttur lágmarkslauna verða 42% hærri á árinu 2002 en um miðjan síðasta áratug.

Kaupmáttur lágmarkslauna hefur sem fyrr segir vaxið mun hraðar en kaupmáttur launa almennt.  Samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands var kaupmáttur launa 22% hærri á síðasta ári en árið 1990 þannig að kaupmáttur lágmarkslauna óx  rúmlega tíu prósentustigum meira en kaupmáttur launa almennt.

Lægsti launataxti er nú rúmar 76.000 kr. en var rúmar 46.000 kr. árið 1995.  Þessar gríðarlegu hækkanir á lægstu launatöxtum hafa átt sér stað án þess að samsvarandi breytingar yrðu á meðallaunum á almennum markaði. Lægsti taxti umsamdra launa hefur því færst nær meðallaunum á markaði.

Þar sem afar fátítt er að laun séu greidd samkvæmt byrjunarlaunum lægsta umsamda launataxta mætti kannski halda því fram að þessar tölur endurspegluðu lítið kaupmáttarþróun þeirra sem taka laun samkvæmt umsömdum launatöxtum. Sem dæmi um launataxta sem stórir hópar búa við og endurspeglar vel launakostnað vinnuveitenda má því nefna taxta fiskvinnslufólks.  Hæsta aldursþrep þess launataxta hefur tæplega tvöfaldast frá því fyrir áratug síðan og hefur kaupmáttur þess einnig aukist um þriðjung.   Athugun á launatöxtum iðnaðarmanna, t.d. málmiðnaðarmanna, leiðir til svipaðrar niðurstöðu, en kaupmáttur launa samkvæmt hæsta aldursþrepi hefur hækkað um tæp 30% frá 1990.

Í kjarasamningum ársins 1997 kom til sögunnar nýtt launahugtak sem nefnist lágmarkstekjur fyrir fullt starf.  Þessi lágmarkstekjutrygging er töluvert hærri en lægsti umsamdi launataxti.  Á samningstímabilinu 1997 til febrúar 2000 nam þessi tekjutrygging 70.000 kr. á mánuði en í gildandi samningum nemur hún 85.000 kr. á þessu ári og 90.000 kr. á því næsta.  Sé lágmarkstekjutryggingin notuð sem mælikvarði á lágmarkslaun þá er kaupmáttur lágmarkslauna helmingi meiri en fyrir hálfum áratug síðan og verður tæplega 60% hærri á næsta ári.

Samtök atvinnulífsins