Vinnumarkaður - 

08. september 2011

Kaupmáttur bóta hefur hækkað mun meira en kaupmáttur launa síðastliðinn áratug

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kaupmáttur bóta hefur hækkað mun meira en kaupmáttur launa síðastliðinn áratug

Undanfarinn áratug hefur kaupmáttur lágmarksbóta almannatrygginga hækkað 50% meira en kaupmáttur launa almennt. Atvinnuleysisbætur hafa hækkað 20% umfram laun. Kaupmáttur lágmarksbóta almannatrygginga var í júlí í ár næstum tveimur þriðju hlutum (65%) hærri en árið 2000. Þegar litið er aftur til ársins 1995 hefur kaupmáttur lágmarksbóta almannatrygginga tvöfaldast. Kaupmáttur atvinnuleysisbóta er þriðjungi (32%) hærri á þessu ári en árið 2000. Kaupmáttur lágmarkslauna var fjórðungi hærri (24%) en árið 2000 en kaupmáttur launa almennt um 10% hærri.

Undanfarinn áratug hefur kaupmáttur lágmarksbóta almannatrygginga hækkað 50% meira en kaupmáttur launa almennt. Atvinnuleysisbætur hafa hækkað 20% umfram laun. Kaupmáttur lágmarksbóta almannatrygginga var í júlí í ár næstum tveimur þriðju hlutum (65%) hærri en árið 2000. Þegar litið er aftur til ársins 1995 hefur kaupmáttur lágmarksbóta almannatrygginga tvöfaldast. Kaupmáttur atvinnuleysisbóta er þriðjungi (32%) hærri á þessu ári en árið 2000. Kaupmáttur lágmarkslauna var fjórðungi hærri (24%) en árið 2000 en kaupmáttur launa almennt um 10% hærri.

Smelltu til að stækka!

Lágmarksbætur almannatrygginga eru nú rúmlega 196 þúsund krónur á mánuði en lágmarkslaun eru 182 þúsund krónur. Lágmarksbætur almannatrygginga hafa hækkað svo mikið vegna tveggja ákvarðana stjórnvalda á undanförnum árum. Árið 2007 var ákveðið að hækka tekjutryggingu um næstum helming og árið 2009 var tekin upp svonefnd uppbót vegna framfærsluviðmiðs sem hækkaði lágmarksbæturnar um nær 30 þús. kr., í 180 þús. kr. á mánuði það ár.

Á samningstímabili núgildandi kjarasamninga, 2011-2013, og því síðasta, 2008-2010, hefur mikil áhersla verið lögð á hækkun lægstu launa umfram þau sem hærri eru og hefur sú stefna birst í krónutöluhækkunum á launataxta. Þær hafa verið hlutfallslega mun meiri en almennar launahækkanir. Áhersla á að hækka lægstu laun var einnig mikilvægur þáttur samningstímabilin þar á undan, 2000-2003 og 2004-2007, en var þá með því að hækka launataxta sérstaklega umfram almennar launahækkanir. Þannig hefur allan síðastliðinn áratug verið við lýði samfelld stefna sem falist hefur í því að hækka sérstaklega lægstu laun og launataxta.

Þetta hefur leitt til þess að launabil hafa minnkað. Það hefur verið litið á það sem sérstakt markmið hjá verkalýðshreyfingunni til þess að auka jöfnuð. Hin hliðin á þeim peningi er að samþjöppun launabila minnkar hvata til aukinnar menntunar og ábyrgðar. Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að slík samþjöppun er oftast tímabundin og gengur til baka á nokkrum árum eftir því sem aðstæður gefa tilefni til. Umframhækkun lægstu launa hefur þannig tilhneigingu til þess að fara upp allan launastigann.

Önnur afleiðing stefnunnar um sérstaka hækkun lægstu launa með krónutöluhækkunum er sú að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hafa hækkað hlutfallslega meira en lægstu laun vegna þess að bæturnar hafa verið lægri en lágmarkslaunin og hafa tekið krónutöluhækkunum. Frá þessu var þó vikið í samningum þessa árs þegar lágmarkslaunin voru hækkuð úr 165 þús. kr. í 182 þús. kr. á mánuði, eða um 17 þús. kr. en atvinnuleysisbæturnar um 12 þús. kr., úr 149.500 í 161.500.

Sú stefna sem fylgt hefur verið hér á landi á undanförnum árum, að hækka bætur langt umfram laun almennt, gerir framfærslu af bótum hlutfallslega eftirsóknarverðari en áður. Með öðrum orðum þá versnar samkeppnisstaða vinnumarkaðarins gagnvart bótakerfinu. Þessi þróun gæti verið hluti skýringarinnar á mikilli fjölgun örorkulífeyrisþega og langtímaatvinnulausra undanfarin ár.

Kaupmáttur launa skv. launavísitölu Hagstofunnar var 4% lægri í júlí á þessu ári en að meðaltali árið 2006, sbr. meðfylgjandi mynd. Það er afar hagstæð niðurstaða fyrir launafólk í ljósi þess að kaupmáttur launa almennt var mjög mikill það ár og að landsframleiðsla á mann lækkaði mun meira, eða 7,5% á milli 2006 og 2010 og þjóðartekjur á mann þrefalt meira, eða 23% á þessu tímabili. Það er einnig athyglisvert að á þessu þrengingartímabili hefur kaupmáttur lægstu launa, atvinnuleysisbóta og lágmarksbóta almannatrygginga aukist verulega, og lífskjör þeirra sem búa við þau kjör batnað samsvarandi.

Smelltu til að stækka!

Samtök atvinnulífsins