Jákvæðar áherslur í fjárlagafrumvarpinu en aðhald ekki nægjanlegt

Fjármálaráðherra lagði fram og kynnti í dag fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015. Þar er kveðið á um breytingar á virðisaukaskattkerfinu sem marka tímamót, en þann 1. janúar nk. mun hærra þrep virðisaukaskatts lækka úr 25,5% í 24% og lægra þrep skattsins hækka úr 7% í 12%, auk þess sem stofn VSK verður breikkaður. Samhliða verða almenn vörugjöld á ýmsar heimilisvörur felld niður. Einnig er ánægjulegt að engar hækkanir verða á krónutölugjöldum ríkisins, sem er mikilvægt framlag af hálfu stjórnvalda til að viðhalda þeim verðstöðugleika sem tekist hefur að ná á þessu ári og hefur verið sérstakt keppikefli aðila vinnumarkaðar til að bæta lífskjör.

Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir neytendur og fyrirtæki en ætla má að þessar aðgerðir hjálpi til við að halda verðbólgu í skefjum og að verð á ýmsum heimilistækjum lækki umtalsvert. Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á skaðleg áhrif vörugjalda á samkeppni þar sem þau valda oft og tíðum verulegu misræmi í verðlagningu sambærilegra vara. Það er því sérstakt fagnaðarefni að stjórnvöld áformi afnám þeirra. Þá eru hallalaus fjárlög við núverandi aðstæður  jafnframt mikilvæg aðgerð til að treysta stöðugleika í efnahagslífinu og á vinnumarkaði.

Fyrirhuguð sala á eignarhlut ríkissjóðs í Landsbankanum er einnig jákvæð en ganga mætti lengra og selja fleiri ríkiseignir til að lækka skuldir ríkissjóðs og minnka vaxtabyrðina.

Ónógt aðhald
Samtök atvinnulífsins telja að aðhald skorti í fjármálum ríkisins og að áætlaður afgangur af rekstrinum á þessu ári og næstu árum sé of lítill. Þannig er aðeins gert ráð fyrir um 2,5% raunsamdrætti ríkiútgjalda fram til ársins 2018.

Fjárlög 2015 - mynd.jpg

Þegar við bætist viðvarandi framúrkeyrsla ríkisútgjalda miðað við fjárlög og fjáraukalög er ljóst að vænt aðhald í ríkisútgjöldum verður lítið sem ekkert. Í ljósi væntinga um kröftugan hagvöxt á næstu árum er afar mikilvægt að aðhald í ríkisútgjöldin skapi mótvægi við fyrirsjáanlega þenslu í efnahagslífinu.

Þá er aukið aðhald nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að greiða skuldir ríkisins hraðar niður en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Skuldir ríkissjóðs nema nú tæplega 90% af landsframleiðslu og árleg vaxtabyrði rúmlega 80 milljarðar króna. Enn er fullkomin óvissa um hvernig tekið verður á verulegum skuldbindingum ríkissjóðs sem ekki er tekið tillit til í fyrrgreindri skuldastöðu. Þar skipta mestu ófjármagnaðar skuldbindingar ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs sem nema nú rúmlega þriðjungi  af landsframleiðslu eða 600-700 milljörðum króna. Fyrir utan afnám gjaldeyrishafta er lausn á þessum vanda mikilvægasta verkefni stjórnvalda.

Þá verður ekki annað séð en að ríkisstjórnin hyggist festa í sessi þær skattahækkanir sem núverandi og fyrri ríkisstjórn hafa staðið fyrir frá árinu 2009. Ætla má að tekjur ríkissjóðs vegna skattahækkana undangenginna ára nemi liðlega 100 milljörðum króna á næsta ári. Það er nauðsynlegt að vinda ofan af þeim til að tryggja aukinn þrótt í atvinnulífinu og efla nýsköpun, rannsóknir og þróun. Það er besta leiðin til að tryggja hagvöxt, auknar skatttekjur hins opinbera og bæta hag fólksins í landinu.