Fréttir - 

16. Júlí 2015

Jákvæð þróun á vinnumarkaðnum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Jákvæð þróun á vinnumarkaðnum

Mikilvæg skref hafa verið stigin á almennum vinnumarkaði með samþykkt nýrra kjarasamninga. Í kjölfar þess að meginþorri iðnaðarmanna samþykkti samningana í gær hefur náðst samkomulag sem nær til nánast allra þeirra sem starfa á almenna vinnumarkaðnum. Skýr og samræmd launastefna til næstu ára hefur verið staðfest. Samningarnir leggja grunn að stöðugleika til næstu ára og takist vel til um stjórn efnahagsmála munu þeir tryggja aukinn kaupmátt og bættan hag heimila í landinu.

Mikilvæg skref hafa verið stigin á almennum vinnumarkaði með samþykkt nýrra kjarasamninga. Í kjölfar þess að meginþorri iðnaðarmanna samþykkti samningana í gær hefur náðst samkomulag sem nær til nánast allra þeirra sem starfa á almenna vinnumarkaðnum. Skýr og samræmd launastefna til næstu ára hefur verið staðfest. Samningarnir leggja grunn að stöðugleika til næstu ára og takist vel til um stjórn efnahagsmála munu þeir tryggja aukinn kaupmátt og bættan hag heimila í landinu.

Launastefnan verður fordæmi í kjaraviðræðunum framundan við þá sem eiga eftir að semja og einnig þá sem fellt hafa samningana. Ekkert svigrúm er til að kvika frá þessari stefnu til þess að ekki komi til endurskoðunar kjarasamninga í febrúar á næsta ári. Forsenduákvæði samninganna er skilyrði þess að unnt væri að semja til lengri tíma en laun munu hækka um 17-20% til ársloka 2018.

Á sama tíma ríkir ófriður á opinberum vinnumarkaði en brýnt er að leiða deilur þar til lykta. Jafnvægi verður að haldast á milli almenna og opinbera hluta vinnumarkaðarins.  Launaþróun á öllum vinnumarkaðnum hefur verið mjög jöfn  frá 2006 og meira jafnvægi ríkir nú á milli einstakra hópa en um langt skeið. Engin innistæða er fyrir kröfum um sérstaka leiðréttingu á launum opinberra starfsmanna og að þeim beri mun meiri launahækkanir en þegar hefur verið samið um.

Deilurnar á íslenskum vinnumarkaði í aðdraganda samninganna leiddu í ljós áþreifanlega veikleika á íslenska vinnumarkaðslíkaninu en litlu mátti muna að tugþúsundir manna legðu niður störf með tilheyrandi tjóni fyrir samfélagið. Aðilar vinnumarkaðarins, bæði á almennum og opinberum markaði, verða því strax í haust að setja í forgang að endurskoða hvernig samið er um kaup og kjör á Íslandi og hvernig efnahagslegt svigrúm til launahækkana er metið. Góðar fyrirmyndir er að finna á Norðurlöndunum og ekki eftir neinu að bíða. Við óbreytt fyrirkomulag verður ekki unað.

Það eru jákvæð teikn á lofti í íslensku efnahagslífi og góður gangur í atvinnulífinu en það er ekki sjálfgefið að það verði viðvarandi. Nauðsynlegt er að fara varlega og halda fast við markaða  launastefnu. Það er besta leiðin til stöðugleika, vaxandi kaupmáttar, lægri vaxta og betri lífskjara allra.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í júlí 2015.

Samtök atvinnulífsins