Fréttir - 

08. september 2015

Jákvæð teikn í fjárlagafrumvarpinu en skattar á fyrirtæki verða að lækka

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Jákvæð teikn í fjárlagafrumvarpinu en skattar á fyrirtæki verða að lækka

Á undanförnum árum hefur hlutur fyrirtækja í skatttekjum ríkisins farið sífellt vaxandi. Á árunum 2003 - 2005 var hlutur fyrirtækja um 17% af tekjum ríkissjóðs en miðað við fjárlagafrumvarpið fyrir 2016 er hlutfallið komið í 29%. Á sama tíma hefur hlutdeild virðisaukaskatts í tekjum ríkissjóðs lækkað úr 29,5% í 26% og skatttekjur frá einstaklingum úr 27% í 25%.

Á undanförnum árum hefur hlutur fyrirtækja í skatttekjum ríkisins farið sífellt vaxandi. Á árunum 2003 - 2005 var hlutur fyrirtækja um 17% af tekjum ríkissjóðs en miðað við fjárlagafrumvarpið fyrir 2016 er hlutfallið komið í 29%. Á sama tíma hefur hlutdeild virðisaukaskatts í tekjum ríkissjóðs lækkað úr 29,5% í 26% og skatttekjur frá einstaklingum úr 27% í 25%.

Ástæða þessa er fyrst og fremst sú að hlutdeild tryggingagjalds í tekjum ríkissjóðs fer sífellt hækkandi ásamt því að lagðir hafa verið sértækir tugmilljarða króna skattar á t.d. fjármálafyrirtæki.

Enginn vafi er á því að sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki finna sér beina leið inn í vaxtatöflur bankanna og gjaldskrár þeirra. Á endanum greiða fyrirtækin og heimilin þessa séríslensku skatta og rétt að fella þá niður.

Sá hluti tryggingagjaldsins sem ætlað er að standa undir greiðslu atvinnuleysisbóta, rennur nú í vaxandi mæli í ríkissjóð og fjármagnar almenn útgjöld. Tryggingagjaldið leggst beint á launagreiðslur fyrirtækjanna og hamlar gegn fjölgun starfa og betri kjörum. Tryggingagjaldið hefur bein áhrif á framleiðni atvinnulífsins og dregur úr nýsköpun og markaðssókn.

Tekjur ríkisins af tryggingagjaldinu verða 18 milljörðum króna meiri en greiðslur til atvinnuleysisbóta gefa tilefni til. Það er skynsamlegt að lækka þessar álögur á fyrirtækin og samkeppnishæfni efnahagslífsins verði þannig aukin. Hátt tryggingargjald er sérstaklega íþyngjandi litlum fyrirtækjum, vegna hás launahlutfalls af kostnaði, en þau eru helsta uppspretta nýrra starfa.

Nauðsynlegt er að gæta frekara aðhalds í rekstri ríkissjóðs en það virðist takmarkað í fjárlagafrumvarpinu 2016. Þó eru jákvæð teikn í fjárlagafrumvarpinu sem ber að fagna. Niðurfelling tolla er sérstakt ánægjuefni, ríkissjóður er áfram rekinn með afgangi og hraðri niðurgreiðslu skulda er haldið áfram. Þá eru vísbendingar um að framkvæmd fjárlaga hafi gengið mun betur en áður m.v. útgjaldaáætlun 2015, en framúrkeyrsla úr fjárlögum hefur verið viðvarandi vandamál á Íslandi. Ríkisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu eru þó enn of há og ljóst að ríkið verður að hagræða til að ná betri tökum á rekstrinum.

Samtök atvinnulífsins