Efnahagsmál - 

08. Maí 2003

Jafnréttismálin og atvinnulífið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Jafnréttismálin og atvinnulífið

Í erindi sínu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins á dögunum gerði Ingimundur Sigurpálsson, nýkjörinn formaður samtakanna, jafnréttismálin m.a. að umtalsefni. Sagði hann jafnréttismál eflaust verða ofarlega á baugi á komandi árum og sagði atvinnulífið stundum liggja undir ámæli varðandi frammistöðu í þeim málaflokki. "Staðreyndin er hins vegar sú", sagði Ingimundur, "að ekkert fyrirtæki hefur hagsmuni af því að mismuna starfsfólki sínu. Að velja ekki þann hæfasta eru einfaldlega slakir stjórnunarhættir, sem ekki skila árangri á samkeppnismarkaði. Hagur atvinnulífsins er því ótvírætt fólginn í því, að allir starfsmenn fái notið eigin verðleika og hafi jöfn tækifæri til starfa og starfsþróunar óháð kynferði eða öðrum óskyldum þáttum."

Í erindi sínu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins á dögunum gerði Ingimundur Sigurpálsson, nýkjörinn formaður samtakanna, jafnréttismálin m.a. að umtalsefni. Sagði hann jafnréttismál eflaust verða ofarlega á baugi á komandi árum og sagði atvinnulífið stundum liggja undir ámæli varðandi frammistöðu í þeim málaflokki. "Staðreyndin er hins vegar sú", sagði Ingimundur, "að ekkert fyrirtæki hefur hagsmuni af því að mismuna starfsfólki sínu. Að velja ekki þann hæfasta eru einfaldlega slakir stjórnunarhættir, sem ekki skila árangri á samkeppnismarkaði.  Hagur atvinnulífsins er því ótvírætt fólginn í því, að allir starfsmenn fái notið eigin verðleika og hafi jöfn tækifæri til starfa og starfsþróunar óháð kynferði eða öðrum óskyldum þáttum."

Jöfnun á heimilis- og fjölskylduábyrgð
Þetta er kjarni málsins. Til að ná árangri þarf hins vegar að horfast í augu við þann félagslega veruleika að þótt margt hafi sem betur fer áunnist, meðal annars fyrir tilstilli framsækinnar löggjafar um fæðingarorlof (þótt deila megi um einstök útfærsluatriði hennar), eru það ennþá konur sem bera meiri ábyrgð á heimilum og fjölskyldum þessa lands. Það er því lykilatriði að stuðla enn frekar að jöfnun á heimilis- og fjölskylduábyrgð kynjanna. Sem dæmi um samfélagsþætti, sem bitna verr á konum en körlum, nefndi Ingimundur vertrarfrí og óskipulagða starfsdaga í skólum. Loks sagði hann aukið tillit skólakerfisins til útivinnandi foreldra mundu leiða til jafnari stöðu á vinnumarkaði og þar með minni launamunar kynjanna.

Niðurstöður kannana
Samkvæmt nýlegri könnun Jafnréttisráðs og nefndar um efnahagsleg völd kvenna er óútskýrður launaumunur um 7,5 til 11%, sem samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar stafar af því að "hjónaband, barneignir og fleira hefur önnur áhrif á laun kvenna en karla." Nýlega kom fram í könnun Samtaka atvinnulífsins að konur sækjast síður eftir stjórnunarstöðum en karlar, sem og það mat forsvarsmanna fyrirtækja að konur væru bundnari en karlar af heimili og fjölskyldu.

Leikskólar, vetrarfrí, starfsdagar...
Það er ekki skoðun Samtaka atvinnulífsins að konur eigi að bera meiri ábyrgð en karlar á heimili og fjölskyldu. Síður en svo. Allt ber þetta hins vegar að sama brunni. Leiðin til að sigrast á mældum launamun kynjanna og auka hlut þeirra í stjórnunarstöðum hlýtur að byggjast á því að horfast í augu við þennan félagslega veruleika og gera ráðstafanir sem stuðla í reynd að jöfnum möguleikum kynjanna á vinnumarkaði og breyttu hugarfari. Góðir leikskólar, nægjanlegt framboð á dagvistun og gott skipulag skólastarfs eru forsendur fyrir atvinnuþátttöku flestra foreldra yngri barna. Skortur á leikskólaplássum, illa skipulagðir starfsdagar í grunnskólum og leikskólum, vetrarfrí í grunnskólum sem tekin voru upp án nokkurs tillits til hagsmuna foreldra og án nokkurs samráðs við atvinnulífið - allt eru þetta hlutir sem valda verulegum erfiðleikum í atvinnulífinu og bitna meira á konum en körlum.

Á meðan konur bera ennþá meiri ábyrgð á heimilunum en karlar hafa allar slíkar raskanir á reglubundinni atvinnustarfsemi meiri áhrif á atvinnuþátttöku og þar með kjör kvenna en karla. Á þessum sviðum eru því tækifæri til breytinga sem stuðla myndu að jöfnun á mældum launamun kynjanna.

Gústaf Adolf Skúlason

Samtök atvinnulífsins