Vinnumarkaður - 

10. mars 2001

Jafnréttislöggjöfin: tími kominn á jákvæða umræðu um framkvæmdina

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Jafnréttislöggjöfin: tími kominn á jákvæða umræðu um framkvæmdina

Tími er kominn á jákvæða umræðu um framkvæmd jafnréttislaga, sagði Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur SA, í almennum umræðum á málþingi SA og norrænu ráðherranefndarinnar um Evrópuvinnurétt og jafnréttislöggjöf. Á málþinginu var m.a. fjallað um reynslu fyrirtækja og stéttarfélaga af framkvæmd laganna.

Tími er kominn á jákvæða umræðu um framkvæmd jafnréttislaga, sagði Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur SA, í almennum umræðum á málþingi SA og norrænu ráðherranefndarinnar um Evrópuvinnurétt og jafnréttislöggjöf. Á málþinginu var m.a. fjallað um reynslu fyrirtækja og stéttarfélaga af framkvæmd laganna.

Hrafnhildur sagði mjög jákvæð fordæmi hafa komið fram á málþinginu um framkvæmd jafnréttislaga. Löggjöfin væri orðin mjög þróuð á þessu sviði og nú væri tími kominn á jákvæða umræðu um framkvæmd laganna. Í andsvari tók Lára V. Júlíusdóttir, hrl., undir þetta mat Hrafnhildar. Enn væru reyndar ákveðnir hnökrar á jafnréttislöggjöfinni, en nú væri komið að framkvæmdinni sem mætti bæta.

Jón Scheving Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Baugs, fjallaði um samræmingu vinnu og fjölskyldulífs. Hann sagði gott samræmi vinnu og fjölskyldulífs starfsmanna vera hagsmuni fyrirtækja þar sem það stuðlaði að aukinni ánægju í starfi og þar með aukinni framleiðni starfsmanna. Jón lagði áherslu á mikilvægi góðs fordæmis yfirmanna og áhuga þeirra á fjölskyldumálum starfsmanna sinna.

Elfar Rúnarsson, starfsmannastjóri hjá Íslandsbanka-FBA, lagði áherslu á sama atriði í umfjöllun sinni um jafnræðisáætlun bankans. Báðir fjölluðu þeir einnig um mikilvægi þess að fjölskyldur starfsmanna tækju þátt í félagslífi á vegum fyrirtækja. Jón sagði mikilvægt að fyrirtæki ræktuðu áhuga fjölskyldna starfsmanna sinna á hagsmunum fyrirtækjanna. Þannig auðvelduðu þau starfsmönnum að takast á við sérstaka álagstíma í starfi. Því væri fyrirtækjum mikilvægt að "selja fjölskyldu starfsmannsins fyrirtækið."

Rebekka Ingvarsdóttir, starfsmannastjóri Skeljungs, fjallaði um hvað fyrirtæki gætu gert til að gæta samræmis í launasetningu. Hún sagði jafnrétti kynjanna órofa hluta af menningu fyrirtækisins þar sem hæfni réði vali í lausar stöður og góður liðs- og starfsandi væri talinn sterkasta vopnið í stöðugt harðnandi samkeppni. Þá fjallaði hún um starfsmatskerfi fyrirtækisins og árangurstengingu launa, en hlutfallsleg meðallaun kynjanna eru nær algerlega jöfn innan fyrirtækisins.

Guðmundur B. Ólafsson, lögfræðingur VR, fjallaði um aðgerðir til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og einelti á vinnustað. Hann sagði mikilvægt að þolendur vissu hvert þeir gætu leitað vegna slíkra mála innan fyrirtækja, til dæmis til sérstaks vinnuhóps sem gæti þá veitt aðstoð og ráðleggingar, kannað málið, komið með hugmyndir að lausn og ekki síst hlúið að stöðu þolenda eftir niðurstöðu.

Sjá sérstaka síðu um ráðstefnuna.

Samtök atvinnulífsins