Vinnumarkaður - 

10. Mars 2001

Jafnrétti kynjanna er hagsmunamál atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Jafnrétti kynjanna er hagsmunamál atvinnulífsins

Fyrirtækin þurfa á sem hæfustu starfsfólki að halda og því er jöfn staða kynjanna hagsmunamál atvinnulífsins, sagði Finnur Geirsson, formaður SA, í ávarpi sínu á málþingi SA og norrænu ráðherranefndarinnar um Evrópuvinnurétt og jafnréttislöggjöf, laugardaginn 10. mars. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að jafnréttislöggjöfin kallaði ekki á aukið skrifræði og sagði fyrirtækin best til þess fallin að ákveða hvernig ná mætti almennum markmiðum jafnréttislaga. Sjá ávarp Finns í heild:

Fyrirtækin þurfa á sem hæfustu starfsfólki að halda og því er jöfn staða kynjanna hagsmunamál atvinnulífsins, sagði Finnur Geirsson, formaður SA, í ávarpi sínu á málþingi SA og norrænu ráðherranefndarinnar um Evrópuvinnurétt og jafnréttislöggjöf, laugardaginn 10. mars. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að jafnréttislöggjöfin kallaði ekki á aukið skrifræði og sagði fyrirtækin best til þess fallin að ákveða hvernig ná mætti almennum markmiðum jafnréttislaga. Sjá ávarp Finns í heild:


Góðir gestir,

Jöfn staða kvenna og karla er hagsmunamál atvinnulífsins.  Fyrirtækin þurfa á sem hæfustu starfsfólki að halda.  Í samkeppni um fólk, framleiðni og þjónustu ræður hæfni, þekking og dugnaður starfsmanna ákvörðunum stjórnenda sem bera hag fyrirtækja sinna fyrir brjósti. Menn þurfa á hinn bóginn að gæta þess að vaninn byrgi ekki sýn.  Umræða um stöðu kvenna og karla í atvinnulífinu er því þörf.  Þar geta bæði fyrirtæki og starfsmenn miðlað af reynslu sinni og því sem vel er gert en víða er unnið öflugt jafnréttisstarf innan fyrirtækja. 

Um 68% íslenskra kvenna á aldrinum fimmtán ára og eldri eru nú á vinnumarkaði, og er þetta hlutfall með því hæsta sem gerist. Hjá aðildarríkjum Evrópusambandsins er meðalhlutfallið þannig um 47% en á hinum Norðurlöndunum er þetta hlutfall að meðaltali um 63%.

Íslensk jafnréttislöggjöf tryggir öllum jafna stöðu óháð kynferði með tilliti til starfa og launa. Starfaskiptin á vinnumarkaði eru þó enn mjög kynbundin, sem aftur stuðlar að launamun. Hvað löggjöfina varðar fylgjum við þróun Evrópuréttarins en markmiðið að ná fullu jafnrétti er nú eitt af meginverkefnum ESB. Því nátengt er aukin áhersla á að gera starfsmönnum kleift að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf.  Á það við um karla jafnt sem konur. Jafnframt því að koma til móts við óskir starfsfólksins getur áhersla á fjölskyldu- og jafnréttismál verið tæki til að gera betur í rekstri fyrirtækja. Hún getur m.a. stuðlað að betri nýtingu á hæfileikum og menntun starfsfólks og að aukinni ánægju starfsfólksins, sem skilar sér fljótt í betri anda á vinnustað og auknum afköstum.  Nýju lögin um fæðingar- og foreldraorlof munu vafalaust stuðla að aukinni sókn karla inn á heimilin og leggja grunn að því að þeir axli aukinn hluta fjölskylduábyrgðarinnar. Kannanir sýna að yngri menn hafa mikinn áhuga á að verja meiri tíma með fjölskyldum sínum, og flestir hafa áttað sig á því að jafnrétti á erfitt uppdráttar nema einnig sé hugað að jafnrétti karla og möguleikum þeirra til að axla aukna fjölskylduábyrgð.

Hvað varðar löggjöf um jafnréttismál á vinnumarkaðnum er þó rétt að leggja áherslu á mikilvægi þess að hún sé ekki mjög flókin eða kalli á aukið skrifræði. Fyrirtækin eru best til þess fallin að ákveða hvernig ná megi almennum markmiðum jafnréttislaga og ekki á að setja þau í spennitreyju lagasetningar. Þá verður samhæfing atvinnu- og fjölskyldulífs ekki einskorðuð við vinnustaðinn án tengsla við umhverfið, svo sem dagvistun barna, skólaleyfi og starfsdaga í skólum. Góðir leikskólar og nægjanlegt framboð á leikskólarými eru t.d. forsendur fyrir atvinnuþátttöku flestra foreldra yngri barna. Þeir eru því mikilvægur hlekkur í samhæfingu atvinnu- og fjölskyldulífs.

Samtök atvinnulífsins hafa fullan hug á að taka þátt í umræðu og stefnumótun í jafnréttismálum, með hagsmuni atvinnulífsins að leiðarljósi.  Á vegum samtakanna er nú starfandi málefnahópur skipaður fulltrúum aðildarfélaga samtakanna og einstakra fyrirtækja, sem hefur það verkefni að leggja drög að jafnréttisstefnu Samtaka atvinnulífsins.  Hópurinn mun skila af sér stefnumótun um áherslur atvinnulífsins á þessu sviði fyrir aðalfund samtakanna sem haldinn verður 15. maí næstkomandi.

Góðir áheyrendur,

Málþing það sem hér fer fram í dag og haldið er í samvinnu SA og norrænu ráðherranefndarinnar er jafnframt framlag SA til verkefnisins Konur og lýðræði. Hér á eftir verður bæði fjallað um jafnréttislöggjöfina á fræðilegum forsendum og um reynslu fyrirtækja og stéttarfélaga af framkvæmd hennar, en forsendur atvinnulífsins hafa viljað gleymast  í umræðu um þessi mál. Samtök atvinnulífsins vilja, m.a. með þessu málþingi, stuðla að aukinni umræðu um jafnréttismál út frá forsendum atvinnulífsins, en hagsmunir þess eru hagsmunir okkar allra.

Sjá sérstaka síðu um ráðstefnuna.
 

Samtök atvinnulífsins