05. janúar 2023

Jafnlaunavottun – Varnaðarorð raungerast

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Jafnlaunavottun – Varnaðarorð raungerast

Endurskoða þarf lögfestingu jafnlaunastaðalsins

Lög um jafnlaunavottun, sem var ætlað að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði, tóku gildi 1. janúar 2018. Samtök atvinnulífsins voru ekki fylgjandi lögfestingu jafnlaunastaðalsins þó þau hafi komið að mótun hans. Samtökin hafa þó alla tíð lagt ríka áherslu á jafnréttismál og mótað skýra stefnu í málaflokknum. Þannig krefjast SA þess að félagsmenn fylgi í hvívetna jafnréttislögum og ákvæðum kjarasamninga um jafnrétti kynjanna og telja að í launamismunun felist slæmir stjórnunarhættir sem dragi úr samkeppnishæfni.

Gerðar voru margvíslegar athugasemdir við frumvarpið. Meðal þeirra má nefna að;

  • Stjórnunarstaðlar eru almennt ekki lögfestir. Betur hefði farið á því að hafa upptöku þeirra valkvæða eins og venjan er um sambærilega staðla.
  • Innleiðing jafnlaunastaðals getur verið flókið verkefni og í einhverjum tilfellum á skjön við þá framkvæmd sem aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um við launasetningu starfa í kjarasamningum. Því er ekki ljóst hvernig samningsréttur aðila vinnumarkaðar samræmist lögunum.
  • Samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar hækkuðu laun kvenna um 30% að meðaltali umfram laun karla á árunum 1998-2015 og hefur launamunurinn farið stöðugt minnkandi í öllum helstu starfsstéttum. Þessi þróun hefur raungerst samhliða auknu menntunarstigi kvenna og aukinni atvinnuþátttöku á ýmsum sviðum samfélagsins, þar með talið í ábyrgðarstöðum. Launamunurinn er mun meiri hjá eldri aldurshópum og fyrirséð er að áfram muni draga úr launamun kynjanna óháð innleiðingu jafnlaunastaðals.
  • Ekkert mat var lagt á kostnað fyrirtækja og stofnana vegna innleiðingar staðalsins en fjöldi fyrirtækja þarf að fá aðkeypta sérfræðiaðstoð, verja tíma eigin starfsmanna í verkefnið og festa kaup á hugbúnaði til að halda utan um þær skrár sem staðallinn krefst.

Hver þessara athugasemda vegur þungt en mikilvægast er líklega að rík ástæða er til að efast um að lögfesting jafnlaunastaðalsins hafi marktæk áhrif á kynbundinn launamun. Helsta skýring munarins er kynbundinn vinnumarkaður - hlutfall kynja eftir starfsstéttum er ólíkt. Mishá laun milli starfsgreina og fyrirtækja hafa þannig áhrif á launamun milli kynjanna þó að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar innan starfsgreina eða fyrirtækja, eins og vottuninni er ætlað að stuðla að.

Kostnaðarsamt en bitlaust verkfæri

Á dögunum kom út rannsókn á vegum Háskóla Íslands sem renndi stoðum undir ýmsar athugasemdir SA. Samkvæmt niðurstöðum hennar er ekki að sjá að innleiðing jafnlaunastaðals hafi haft bein áhrif á launamun kynjanna enda er lítill sem enginn munur á þróun launa í skipulagsheildum sem hlotið hafa jafnlaunavottun og annarra. Áfram hefur hins vegar dregið úr launamun kynjanna almennt eins og búist var við. Þá telja vottunaraðilar og stjórnendur hæglega unnt að komast hjá tilgangi vottunar, ef sá vilji er fyrir hendi, með ríku svigrúmi til fjölbreyttrar skilgreiningar starfa og skýribreytna.

Samkvæmt könnun sem SA lét framkvæma meðal félagsmanna sinna fyrri hluta árs 2021 kom fram að kostnaður fyrirtækja sem gengið höfðu í gegnum vottun næmi um 16 milljónum króna að meðaltali. Sé um 1.200 fyrirtækjum gert að ljúka vottun áður en upp er staðið mun heildarkostnaðurinn nema um 20 milljörðum króna auk endurtekins kostnaðar við viðhald vottunar.

Þrátt fyrir kostnaðinn bera margir stjórnendur jákvætt viðhorf til innleiðingar jafnlaunastaðals, telja hann munu nýtast til formfastari ákvarðana um launasetningu og vekja stjórnendur til umhugsunar um jafnrétti á vinnumarkaði. Mun fleiri telja vottunina þó vera dýra og íþyngjandi kvöð með takmarkað hagnýtt gildi. Spurningin snýst því um nauðsyn lögfestingar staðalsins fyrir svo mikinn fjölda fyrirtækja. Í það minnsta ættu stærðarmörk að vera endurskoðuð þannig að staðallinn gildi einungis fyrir fyrirtæki sem geta, án mikillar fyrirhafnar, tileinkað sér ISO staðla - svo sem fyrirtæki með fleiri en 150 starfsmenn.

Þó lögin hafi ekki verið lengi í gildi eru varnaðarorðin þegar að raungerast. Í ljósi þess að jafnlaunavottun tekur hvorki á kynbundnum vinnumarkaði né tryggir jafna launasetningu milli kynja þarf að endurskoða lögfestingu jafnlaunastaðalsins. Hver með réttu ráði myndi annars greiða tugi milljarða fyrir bitlaust verkfæri?

Pistillinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 5. janúar 2023

Hlusta má á útvarpsviðtal við Önnu Hrefnu í Bítinu hér á Bylgjunni

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins