1 MIN
Íslenskt lagaumhverfi fært nær því sem tíðkast í nágrannalöndunum
Samtök atvinnulífsins fagna frumvarpi fjármála- og efnahagsráðuneytisins um breytingar á lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda sem miða að því að einfalda regluverk um erlendar fjárfestingar. Frumvarpinu er ætlað að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að sækja fjármagn erlendis frá og skapa þannig betri skilyrði fyrir nýsköpun og vöxt atvinnulífsins.
Í umsögn samtakanna kemur fram að breytingarnar færðu íslenskt lagaumhverfi nær því sem tíðkast í nágrannalöndum, þar sem hagnaður erlendra aðila af sölu hlutabréfa er almennt ekki skattlagður. Slíkt stuðli að aukinni samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og bættu skattaumhverfi sem sé lykilatriði í að laða að fjárfestingu til landsins.
Samtökin benda á að bein erlend fjárfesting á Íslandi sé enn lítil í samanburði við önnur OECD-ríki. Nauðsynlegt sé að draga úr hindrunum í íslensku regluverki og tryggja að skatta- og viðskiptaleg umgjörð sé aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. „Tengsl beinnar erlendrar fjárfestingar og hagvaxtar eru ótvíræð,“ segir í umsögninni, og bent er á að slík fjárfesting auki framleiðni og skapi ný tækifæri í íslensku efnahagslífi.
SA gera ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið og hvetja Alþingi til að samþykkja það. Að mati samtakanna er frumvarpið mikilvægt skref í átt að einfaldara og skilvirkara regluverki sem styður við íslenskt atvinnulíf og efnahagslega hagsæld.