Efnahagsmál - 

12. Nóvember 2003

Íslenska menntakerfið samkeppnishæfara

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Íslenska menntakerfið samkeppnishæfara

Viðskiptablaðið spyr Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumann stefnumótunar- og samskiptasviðs SA, hvaða áhrif stytting framhaldsskóla muni hafa á atvinnulífið. Svar Gústafs er eftirfarandi:

Viðskiptablaðið spyr Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumann stefnumótunar- og samskiptasviðs SA, hvaða áhrif stytting framhaldsskóla muni hafa á atvinnulífið. Svar Gústafs er eftirfarandi:

"Í sjálfu sér hefur stytting námstímans sem slík ekki mikil bein áhrif á atvinnulífið. Hún mun hins vegar hafa ýmis mikilvæg samfélagsleg áhrif til góða fyrir atvinnulífið sem aðra. Skólakerfið verður sambærilegra við erlend kerfi, tími nemenda verður betur nýttur, kostnaður verður minni fyrir nemendur og fyrir þjóðfélagið í heild, ævitekjur nemenda aukast, þjóðhagslegur ávinningur hefur verið metinn upp á fjóra milljarða króna fyrst í stað sem síðan færi hratt vaxandi, gert er ráð fyrir að brottfall nemenda úr framhaldsskóla muni minnka og íslenska menntakerfið verður allt samkeppnishæfara. Þessi stefnumótun öll er því mikið fagnaðarefni, en ekki verður komið auga á rök fyrir því íslenskir nemendur ljúki t.d. stúdentsprófi einu til tveimur árum síðar en nemendur í nágrannalöndum.

Fækkun námsára í framhaldsskóla þarf væntanlega að mæta með lengingu skólaársins. Í skýrslu menntamálaráðuneytisins er gert ráð fyrir lengingu um fimm kennsludaga sem er kannski fremur hógvært í þessu sambandi. Mjög mikilvægt er hins vegar, atvinnulífsins vegna, að lenging skólaársins eigi sér stað fyrri hluta sumars, en ekki á þeim síðari. Almennt séð er eftirspurn eftir sumarafleysingafólki mest á vinsælasta sumarleyfistímanum. Þá er háannatíminn í ferðaþjónustu síðari hluta sumars og því mjög mikilvægt að lenging skólaársins eigi sér stað fyrri hluta sumars."


 

Samtök atvinnulífsins