Íslenska krónan fellur á tíu ára fresti

Í gegnum tíðina höfum við upplifað gengisfall krónunnar á tíu ára fresti, ýmist handstýrt eða ekki, sagði Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, á fundi um Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Fjallað er um fundinn í Markaðnum í dag og á Vísi þar sem segir m.a.:

„Þetta er í raun hamfarasaga og ekkert annað en afleiðing slakrar hagstjórnar,“ sagði Ásdís. Hún lýsti yfir sérstökum áhyggjum af stöðu vinnumarkaðarins. „Hér er verið að semja um launahækkanir langt umfram getu hagkerfisins, langt umfram þá verðmætasköpun sem á sér stað,“ sagði Ásdís. Og bætti við að svigrúm til launahækkana ylti á framleiðniaukningu í íslensku atvinnulífi. Mesti vandinn sé fólginn í því að undanfarin ár hafi framleiðni á Íslandi aukist lítið sem ekkert og mun minna en fyrir hrun.

„Það einskorðast þó ekki aðeins við Ísland, heldur glíma önnur iðnríki jafnframt við litla framleiðniaukningu,“ sagði Ásdís. Hún segir ástæðuna meðal annars vera þá að hagvöxtur sé drifinn áfram af vinnuaflsfrekum þjónustugreinum eins og ferðaþjónustu.

Ásdís sagði að undanfarin misseri hefði ríkt hér á Íslandi sjaldséður stöðugleiki. Verðbólga sé við markmið Seðlabankans, atvinnuleysi sé lítið, afgangur af viðskiptum okkar við útlönd auk þess sem ríkissjóður sé farinn að skila afgangi á ný. Það sé því vert að velta fyrir sér hvað sé fram undan og hvort einhverjar hættur séu í veginum.

„Við óttumst það að við séum á góðri leið með að glata stöðugleikanum“ segir Ásdís. Umsamdar launahækkanir ógna verðstöðugleikanum og nú þegar sjáum við merki þess efnis í innlendu verðlagi. Seðlabankinn hefur hækkað vexti og boðar frekari vaxtahækkanir.

„Við upplifum skammtíma kaupmáttaraukningu samhliða því sem gengisstyrkingin heldur verðbólgunni niðri. Á endanum mun þessi þróun hins vegar grafa undan samkeppnisstöðu þjóðarbúsins,“ sagði Ásdís. Boðaðar launahækkanir leggist þyngst á vinnuaflsfrekar greinar, þar á meðal ferðaþjónustuna.

Ásdís sagði að okkur hætti til að kenna krónunni um hvernig færi í stað þess að líta í eigin barm. Ástæða hrakfaranna sé fyrst og fremst slök hagstjórn, óábyrgir kjarasamningar, agaleysi í fjármálastefnu hins opinbera auk þess sem misbrestir hafi verið í miðlun peningastefnunnar.

Hún sagði að Norðurlöndin, sem Íslendingar vilji gjarnan bera sig saman við, færu aðrar leiðir til að auka kaupmátt. Þar sé í mun meiri mæli horft til verðmætasköpunar og laun þar hækki í samræmi við framleiðniaukningu. Það kemur vart á óvart að verðbólga þar verði lægri. „Og jafnframt leiðir þetta til þess að seðlabankar á Norðurlöndunum eru í öfundsverðri stöðu ólíkt Seðlabanka Íslands,“ sagði Ásdís, því þetta leiði til þess að síður sé þörf á vaxtahækkunum.