Efnahagsmál - 

03. September 2008

Íslenska efnahagsundrið er engin bóla

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Íslenska efnahagsundrið er engin bóla

"Þrátt fyrir mjög alvarlega stöðu í íslenskum efnahagsmálum um þessar mundir þá megum við ekki gleyma því að íslenska efnahagsundrið er engin bóla og ef við stöndum rétt að málum þá er Ísland land tækifæranna og horft verður til Íslands um fyrirmyndir á næstu árum og áratugum." Þetta segir Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, í grein í Markaðnum í dag. Þór sat í síðustu viku fund formanna samtaka atvinnulífsins á Norðurlöndum þar sem var gerður samanburður á framtíðarhorfum milli OECD-landa. Þar kom skýrt fram að Ísland er í forystu í Evrópu á sviðum sem talin eru skipta miklu máli þegar horft er til framtíðarhorfa og langtímahagvaxtar.

"Þrátt fyrir mjög alvarlega stöðu í íslenskum efnahagsmálum um þessar mundir þá megum við ekki gleyma því að íslenska efnahagsundrið er engin bóla og ef við stöndum rétt að málum þá er Ísland land tækifæranna og horft verður til Íslands um fyrirmyndir á næstu árum og áratugum." Þetta segir Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, í grein í Markaðnum í dag. Þór sat í síðustu viku fund formanna samtaka atvinnulífsins á Norðurlöndum þar sem var gerður samanburður á framtíðarhorfum milli OECD-landa. Þar kom skýrt fram að Ísland er í forystu í Evrópu á sviðum sem talin eru skipta miklu máli þegar horft er til framtíðarhorfa og langtímahagvaxtar.

Grein Þórs má lesa í heild hér að neðan:

Í síðustu viku var haldinn hér í Reykjavík fundur formanna samtaka atvinnulífsins á Norðurlöndum. Þar var meðal annars gerður samanburður á framtíðarhorfum milli OECD-landa sem unninn hafði verið af frændum okkar á hinum Norðurlöndunum. Þar kom skýrt fram að Ísland er í forystu í Evrópu á sviðum sem talin eru skipta miklu máli þegar horft er til framtíðarhorfa og langtímahagvaxtar. Í þeim samanburði kemur styrkur Íslandsvélarinnar vel fram. Nauðsynlegt er að rifja hann upp nú þegar svo virðist sem við séum sjálf farin að trúa því að íslenska efnahagsundrið hafi verið bóla.

Fram kom að Íslendingar eru með hæstu fæðingartíðni á Norðurlöndum árið 2007. Það þýðir með öðrum orðum að hlutfall vinnandi fólks af heildaríbúafjölda verður áfram hærra hér en annars staðar á næstu áratugum. Reiknað er með að á Íslandi og í Noregi verði hlutfallsleg fjölgun í hópi vinnandi fólks en hlutfallsleg fækkun verði á hinn bóginn í fjölmörgum Evrópulöndum. Hlutfallslega fáir Íslendingar sem eru á aldrinum 16-66 ára eru á bótum frá hinu opinbera og mun færri en á hinum Norðurlöndunum.

Þá kom fram að í flestum löndum OECD ríkjanna er lögð áhersla á að auka atvinnuþátttöku fólks og fjölga vinnustundum. Flest viðmið til næstu ára og áratuga hjá OECD ríkjum þykja róttæk en þau liggja nær öll undir núverandi hagtölum frá Íslandi. Atvinnuþátttaka eldri starfsmanna, 60-74 ára, er hærri á Íslandi en í nokkru öðru landi OECD.

Þá er íslenska skattkerfið talið hvetja fólk og fyrirtæki til vinnu og athafna en skattkerfi marga landa eru fjarri því að hafa þau einkenni.

Það er ekki síst þegar horft er til nýrrar kynslóðar sem við getum litið bjartsýn fram á veginn. Atvinnuleysi meðal ungs fólks hefur verið lítið sem ekkert um áratugaskeið á meðan atvinnuleysi á meðal ungs fólks á sumum hinna Norðurlandanna hefur verið yfir 15 og 20% um árabil. Hérlendis er einnig algengara að ungt fólk stofni fyrirtæki.

Það er orðið einkennilegt þegar það þarf útlendinga, sem eru að skoða ýmsar framtíðarhorfur landsins, til að auka manni þrótt í þeim bölmóð sem nú ríður húsum. Í nýlegri skýrslu Alþjóðabankans sagði að íslenska hagkerfið standi "á erfiðum og óvissum tímamótum en langtímahorfur í íslenska hagkerfisins eru öfundsverðar".

Þrátt fyrir mjög alvarlega stöðu í íslenskum efnahagsmálum um þessar mundir þá megum við ekki gleyma því að íslenska efnahagsundrið er engin bóla og ef við stöndum rétt að málum þá er Ísland land tækifæranna og horft verður til Íslands um fyrirmyndir á næstu árum og áratugum.

Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins