Samkeppnishæfni - 

07. júlí 2010

Íslenska ákvæðið skilar miklum árangri

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Íslenska ákvæðið skilar miklum árangri

Nýlega sendi Umhverfisstofnun skýrslu til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna um útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi árið 2008. Þetta er fyrsta árið af fimm sem fellur innan skuldbindingartímabils Kyoto-bókunarinnar. Eins og kemur fram í tilkynningu Umhverfisstofnunar er búist við að Ísland uppfylli þær skuldbindingar sem bókunin kveður á um.

Nýlega sendi Umhverfisstofnun skýrslu til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna um útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi árið 2008. Þetta er fyrsta árið af fimm sem fellur innan skuldbindingartímabils Kyoto-bókunarinnar. Eins og kemur fram í tilkynningu Umhverfisstofnunar er búist við að Ísland uppfylli þær skuldbindingar sem bókunin kveður á um.

Eins og  kunnugt er mun Ísland nýta útstreymisheimildir sem samþykktar voru vegna sérstakra aðstæðna hér á landi og  nema sem svara 1,6 milljón tonna af útstreymi CO2 á ári ("íslenska ákvæðið"). Í heild eru þessar heimildir því 8 milljón tonn á tímabilinu 2008 -2012. Heimildunum hefur verið úthlutað samkvæmt lögum til iðnfyrirtækja sem framleiða ál og járnblendi hér á landi.

Í skýrslu Umhverfisstofnunar kemur fram að ætla megi að í stað endurnýjanlegra orkulinda hér á landi hefðu kol verið nýtt til orkuframleiðslunnar ef ekki væri íslenska ákvæðið. Stofnunin áætlar að sparnaður í útstreymi (e. emission savings) vegna ákvæðisins nemi 9,4 milljónum tonna á árinu 2008. Þetta þýðir að hvert tonn útstreymis í íslenska ákvæðinu skilar sér í fimmföldum sparnaði þegar litið er til málsins í heild.

Í heild var útstreymi á Íslandi á árinu 2008 um 4,8 milljón tonn af gróðurhúsalofttegundum og lætur því nærri að íslenska ákvæði spari sem svarar tvöfalt það magn Íslendingar losa. Á öllu 5 ára tímabili Kyoto-bókunarinnar liggur nærri að þessi sparnaður í útstreymi sé að nálgast 50 milljón tonn.

Enginn vafi því er á að besta framlag Íslendinga til alþjóðlegra umhverfismála er að halda áfram að nýta endurnýjanlegar orkulindir landsins.  

Álfyrirtækin standa sig vel

Árið 1990 voru framleidd hér á landi um 88 þúsund tonn af áli og útstreymi gróðurhúsalofttegunda var um 556 þúsund tonn eða sem svarar 6,3 tonni útstreymis á hvert áltonn. Árið 2008 hafði framleiðslan aukist í 781 þúsund tonn og útstreymið var um 1517 þúsund tonn eða um 1,9 tonn/tonn. Útstreymi á hvert framleitt tonn hefur þannig minnkað um 70% á þessu tímabili.

Sjá nánar:

Frétt Umhverfisstofnunar

Skýrsla Umhverfisstofnunar (PDF)

Samtök atvinnulífsins