23. desember 2022

Íslensk veðrátta dæmd í júlí

Konráð S. Guðjónsson

1 MIN

Íslensk veðrátta dæmd í júlí

Mikil kaupmáttaraukning verður hjá láglaunafólki ef markmið kjarasamninga nást

Þegar fjallað er um málefni er mikilvægt að það sé gert heildstætt. Enginn getur til dæmis. ályktað um að veður sé almennt gott á Íslandi með því að líta til hlýjustu daga júlí. Ályktun í þá veru var þó að finna í grein Stefáns Ólafssonar, sérfræðings hjá Eflingu, í Kjarnanum 20. desember. Greinin fjallar um hvernig nýsamþykktir kjarasamningar SA og Starfsgreinasambandsins henta ekki Eflingu þar sem framfærslukostnaður sé töluvert hærri á höfuðborgarsvæðinu vegna meiri húsnæðiskostnaðar. Það er út af fyrir sig rétt að húsnæðiskostnaður á félagssvæði Eflingar er almennt séð hærri en annars staðar á landinu. Rétt eins og veður í júlí á Íslandi segir ekki alla söguna, segir sú staðreynd ekki alla söguna um lífskjör eftir landshlutum.

Húsnæðiskostnaður er ekki einu sinni hálf sagan

Í fyrsta lagi kenna aldagamlar hagfræðikenningar okkur að fasteigna- og leiguverð ráðist af staðsetningu - nánar tiltekið nálægð við atvinnusvæði og tekjumöguleika. Það þýðir að hærri húsnæðiskostnaður á höfuðborgarsvæðinu endurspegli ýmiskonar ávinning sem íbúarnir njóta. T.d. í fjölbreyttari og meiri tekjumöguleikum eða nálægð við mikilvæga þjónustu. Til dæmis voru atvinnutekjur á mann 9% hærri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess árið 2021. Við blasir að Eflingarfólk, sem aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins, hafa í þessu samhengi töluvert forskot á landsbyggðina. Það er ekki tilviljun að byggðastefna, óháð ágæti og útfærslu hennar, hér og í öðrum löndum hefur snúist um stuðning við dreifðari byggðir, ekki höfuðborgir.

Í öðru lagi er einfaldlega rangt að líta á eingöngu einn þátt framfærslukostnaðar og fullyrða út frá honum. Sá sem þetta skrifar þekkir af eigin raun að í minni bæjum landsins er t.d. matvöruverð hærra og oft þarf að sækja ýmis konar þjónustu um langan veg – jafnvel þvert yfir landið. Á Vopnafirði eru til að mynda ekki lágvöruverslanir, þó að verslun bæjarins sé vissulega frábær þá getur hún ekki boðið sambærileg verð og lágvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu geta gert. Þá kostar rafmagn og húshitun oft á tíðum töluvert meira á landsbyggðinni.

Í þriðja lagi má nefna að háum húsnæðiskostnaði er mætt í opinberum húsnæðisstuðningi. Í aðgerðum stjórnvalda vegna nýgerðra kjarasamninga hækka bæði húsnæðis- og vaxtabætur – oft um tugi þúsunda. Slíkur stuðningur rennur nú þegar í hlutfallslega mun meira mæli til höfuðborgarsvæðisins. Af þessum stuðningi má ætla að Eflingarfólk njóti góðs af.

Í fjórða lagi, sem er kannski mikilvægast, er ekki að finna heildstæð gögn sem styðja fullyrðingar Stefáns, heldur þvert á móti. Til að gæta sanngirni skal nefna að gögn um samanburð á lífskjörum og kaupmætti milli landshluta eru af skornum skammti. Einn mælikvarðinn er skortur á efnislegum gæðum barna og þar er niðurstaðan sú að hann er mun meiri utan höfuðborgarsvæðisins. Árið 2021 bjó 1,9% barna á höfuðborgarsvæðinu við skort á efnislegum gæðum til samanburðar við 8,6% utan höfuðborgarsvæðisins. Þær niðurstöður benda því til þess að hagsæld sé minni á landsbyggðinni og því ætti með rökum Stefáns að hækka laun meira hjá öðrum SGS félögum en Eflingu.

Sameiginlegur ávinningur skiptir máli

Í greininni er einnig bent á að sérstakar hækkanir fólks á kauptöxtum eftir starfsaldri henti síður Eflingu þar sem meira en helmingur Eflingar félaga séu á byrjendalaunum. Það skýtur svolítið skökku við að hækka þurfi frekar laun fólks sem stoppar stutt við á vinnustað heldur en þeirra sem hafa öðlast reynslu. Hægt er að nýta sameiginlegan ábata sem felst í reynslumiklu starfsfólki með því að hækka laun í takt við reynslu. Það er fyrirtækjum verðmætt að halda í slíkt fólk og það gildir fyrir öll störf og stéttarfélög. Því er eðlilegt að auka á ný bil starfsaldursþrepa í samningum við SGS, VR/LÍV og iðnaðar- og tæknifólk, sem hafa þjappast mikið saman á síðustu árum. Það gagnast líka Eflingu og gæti hækkað hlutfall þeirra sem starfa lengur hjá sama fyrirtæki enda yrði ávinningur þess meiri, bæði fyrir starfsmenn og fyrirtæki. Eins og fram hefur komið er þó til umræðu af hálfu Samtaka atvinnulífsins að útfæra samninga Eflingar með tilliti til sérkenna félagsins, innan þess ramma sem aðrir samningar marka. Í því samhengi má segja að grein Stefáns sé gagnleg.

Mikil kaupmáttaraukning hjá láglaunafólki ef markmið nást

Að lokum er rétt að benda á aðalatriði launaþróunar í nýjum samningum SA við verkafólk, verslunarmenn og iðnaðarmenn. Þar var lögð sérstök áhersla á hækkanir kauptaxta og þar með þeirra lægst launuðu á vinnumarkaði. Um er að ræða 10-13% hækkun launa á 15 mánaða tímabili þar sem flestar spár gera ráð fyrir ríflega 5% hækkun verðlags yfir tímabilið. Það bæði þýðir kaupmáttaraukningu í ár og óvenju mikla kaupmáttaraukningu á næsta ári hjá þeim sem fá mestar hækkanir – allt að 8%. Stefán hefur í fyrri skrifum á frumlegan hátt reynt að snúa út úr þessu og sýna hið gagnstæða. Sú tilraun hefur gengið heldur brösuglega enda sjá t.d. aðrir félagar SGS hvað í samningunum felst og samþykktu með 86% atkvæða. Sömu sögu er að segja um verslunar- og iðnaðarmenn.

Allt gerist þetta á tímum þar sem kaupmáttur rýrnar hratt í löndunum í kringum okkur og efnahagshorfur eru tvísýnar. Von Samtaka atvinnulífsins og þeirra stéttarfélaga sem hafa nú þegar samþykkt samninga er að stuðla megi að auknum stöðugleika og skapa þannig forsendur fyrir nýjum langtímasamningi. Um það eru stéttarfélög ríflega 80 þúsund launamanna á almennum vinnumarkaði sammála að Eflingu einni undanskilinni. Efling er hér eftir sem áður velkomin að taka þátt í því verkefni.

Kaupmáttur frá aldamótum

Konráð S. Guðjónsson

Efnahagsráðgjafi SA