Efnahagsmál - 

04. febrúar 2014

Íslendingar horfi til árangurs Svía

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Íslendingar horfi til árangurs Svía

Í Svíþjóð hefur tekist með samvinnu atvinnurekenda, verkalýðshreyfingarinnar og hins opinbera að ná stórauknum stöðugleika, þannig að hóflegar launahækkanir undangenginna tveggja áratuga hafa skilað sér í myndarlegri kaupmáttaraukningu. Þetta kemur m.a. fram í ítarlegu viðtali Viðskiptablaðs Morgunblaðsins við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hann telur Íslendinga geta lært af reynslu Svía á undanförnum áratugum.

Í Svíþjóð hefur tekist með samvinnu atvinnurekenda, verkalýðshreyfingarinnar og hins opinbera að ná stórauknum stöðugleika, þannig að hóflegar launahækkanir undangenginna tveggja áratuga hafa skilað sér í myndarlegri kaupmáttaraukningu. Þetta kemur m.a. fram í ítarlegu viðtali Viðskiptablaðs Morgunblaðsins við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hann telur Íslendinga geta lært af reynslu Svía á undanförnum áratugum.

"Verðbólga í Svíþjóð hefur verið afar lítil undanfarna tvo áratugi og gengi sænsku krónunnar haldist mjög stöðugt á sama tíma, fyrst og fremst vegna aukins aga á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum. Sú var hins vegar ekki raunin áður. Á árunum 1980 til 1992 var verðbólgan þar í landi að sveiflast á bilinu fjögur til tólf prósent og gengi sænsku krónunnar féll um fimmtíu prósent gagnvart þýsku marki á sama tíma. Þetta eru kunnuglegar tölur og um margt líkar efnahagslegum veruleika okkar undangengin fimmtán ár," segir Þorsteinn.

Sambærileg þróun átti sér stað annars staðar á Norðurlöndunum þar sem aukinn agi á vinnumarkaði og aukinn agi í ríkisfjármálum leiddi til lágrar verðbólgu, gengisstöðugleika og umtalsvert meiri kaupmáttaraukningar en hér á landi.

Stöðugleiki eftir þjóðarsátt

Þorsteinn bendir á að í kjölfar þjóðarsáttarinnar hér á landi árið 1990 hafi efnahagslegur stöðugleiki aukist verulega.

"Í fimm eða sex ár var verðbólgan samfleytt innan núverandi verðbólgumarkmiða Seðlabankans, sem þá voru reyndar ekki til. Framleiðniaukningin var líka veruleg og kaupmáttaraukningin með því mesta sem við höfum kynnst.

En því miður misstum við sjónar á langtímamarkmiðinu og á endanum urðu launabreytingar langt umfram það sem fékk staðist. Fastgengisstefnan sprakk, við fengum mikið verðbólguskot í kjölfarið og árangur þjóðarsáttarinnar var fyrir bí. Við lærðum hins vegar lítið af þessum mistökum og héldum áfram að hækka laun úr öllum takti við forsendur stöðugleika.

Sú breyting, sem var gerð á peningamálastefnu Seðlabankans með upptöku verðbólgumarkmiðs, skilaði því engu betri árangri en fastgengisstefnan, enda unnu hvorki ríkisfjármálin né vinnumarkaður með framgangi hennar."

Þorsteinn segir að eini munurinn á okkur og Svíum hafi verið sá að þeir síðarnefndu hafi haldið út.

"Við tókum þetta sem gott átaksverkefni en slökuðum svo á um leið og betur áraði og misstum á endanum tök á efnahagsþróuninni. Það er oft auðvelt að skapa samstöðu þegar illa árar en þegar betur árar, þá reynir fyrst á hvort raunverulegur vilji sé fyrir hendi hjá stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins að standa vörð um efnahagslegan stöðugleika."

Sjá nánar í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 30. janúar 2014.

Samtök atvinnulífsins