Efnahagsmál - 

13. Júlí 2001

Ísland sker sig úr

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ísland sker sig úr

Samtök atvinnulífsins í Danmörku (DA) sendu nýlega frá sér yfirlit yfir launaþróun í nokkrum ríkjum frá 1. ársfjórðungi síðasta árs til 1. ársfjórðungs þessa árs. Löndin í samanburðinum eru 11 mikilvægustu viðskiptalönd Danmerkur. Launabreytingar í þessum ríkjum voru að meðaltali um 3% á þessu tímabili, sem er svipuð niðurstaða og ársfjórðungana á undan.

Samtök atvinnulífsins í Danmörku (DA) sendu nýlega frá sér yfirlit yfir launaþróun í nokkrum ríkjum frá 1. ársfjórðungi síðasta árs til 1. ársfjórðungs þessa árs.  Löndin í samanburðinum eru 11 mikilvægustu viðskiptalönd Danmerkur. Launabreytingar í þessum ríkjum voru að meðaltali um 3% á þessu tímabili, sem er svipuð niðurstaða og ársfjórðungana á undan. 

Launabreytingar voru mestar í Finnlandi, eða um 5%, og hafa vaxið töluvert frá árunum á undan þegar þær voru á bilinu 3-4%.  Frakkland kemur þar fast á eftir með 4,8%.  Í Noregi og Hollandi hafa launabreytingar einnig farið vaxandi.  Launabreytingarnar fóru hins vegar minnkandi í flestum stóru ríkjanna, þ.e. Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi og Japan.


 
Í meðfylgjandi súluriti hefur launabreytingum á Íslandi verið bætt við, skv. niðurstöðum Kjararannsóknarnefndar.  Þar kemur berlega í ljós að Ísland sker sig verulega úr með margfalt meiri launabreytingu á þessu tímabili en að meðaltali í samanburðarríkjunum.  Eins og áður hefur komið fram á vef SA er meginskýringin á óvenju mikilli hækkun á Íslandi á þessum tíma sú að tvær hækkanir vegna kjarasamninga áttu sér stað á umræddu tímabili. Því má búast við að þessi munur minnki verulega í næstu mælingum. Á hinn bóginn er það staðreynd að launabreytingar, skv. mælingum Kjararannsóknarnefndar, hafa verið á bilinu 6-9% á síðustu árum eða tvöfalt til þrefalt meiri en að jafnaði í helstu viðskiptalöndum.


 
Á myndinni er einnig sýnd verðbólga á tímabilinu mars 2000 til mars 2001 skv. samræmdri neysluverðsvísitölu.  Í löndunum með mestu launabreytingarnar (utan Íslands), Finnlandi, Frakklandi og Bretlandi, óx kaupmáttur launa umtalsvert, og nokkuð í Danmörku og Noregi.  Í öðrum löndum stóð kaupmáttur í stað eða minnkaði örlítið.  Vaxandi alþjóðleg verðbólga undanfarna mánuði hefur rýrt kaupmátt bæði austan hafs og vestan. Sem fyrr sker Ísland sig hins vegar úr í samanburðinum, en hérlendis óx kaupmáttur langt umfram verðlagsþróun á þessu tímabili, eða um rúmlega 9% sem er þrefalt meiri aukning en þar sem hún er mest í samanburðarlöndunum.

Samtök atvinnulífsins