Ísland færist niður frelsislista
Fraser-stofnunin í Kanada hefur gefið út sína árlegu skýrslu þar sem borið er saman frjálsræði í efnahagsmálum í ríkjum heims, en undanfarin tvö ár hafa 123 ríki verið í samanburðinum. Ríkjunum er gefin einkunn sem byggir á alls 38 þáttum þar sem skoðuð eru umsvif opinberra aðila, regluumhverfi fyrirtækja, frelsi í utanríkisviðskiptum o.fl. Í nýrri skýrslu stofnunarinnar eru skoðaðar tölur fyrir árið 2001.
Ísland færist niður um tvö sæti
Ísland fær nánast sömu heildareinkunn og árið áður, eða 7,6 í stað
7,7 fyrir árið 2000 (af 10 mögulegum). Ísland fellur hins vegar úr
11.-12. í 13.-15. sæti í samanburðinum. Rétt er að hafa í huga að
samanburðurinn gildir fyrir árið 2001 og að ýmsar breytingar kunna
að hafa orðið síðan þá. Sem dæmi má nefna skattabreytingarnar sem
tóku gildi í ársbyrjun 2002 og munu án efa verða taldar Íslandi til
tekna í næstu samantekt. Sama má segja um einkavæðingu bankanna,
eins og Hagfræðistofnun HÍ hefur bent á.
Aukin reglubyrði og vaxandi hlutur
samneyslunnar
Að sumu leyti er þarna á ferðinni einfaldur tölulegur samanburður
en aðrar breytur er erfiðara að mæla, t.d. reglubyrði. Upplýsingar
um hana eru byggðar á svörum fyrirtækja við könnun World Economic
Forum og þar virðist vera að finna eina helstu ástæðuna fyrir að
Ísland lækkar lítillega í heildareinkunn. Fyrirtækin eru að kvarta
meira en áður undan þeim tíma sem fer í að sinna því sem hér er
kallað "eftirlitsiðnaðurinn" og undan skrifræði við stofnun nýrra
fyrirtækja. Þá er einkunn Íslands m.a. að lækka vegna vaxandi
hlutfalls samneyslunnar af þjóðarframeiðslu og vegna umfangsmikilla
millifærslu- og niðurgreiðslukerfa, m.a. í landbúnaði. Slík kerfi
hafa þau áhrif að skekkja verðmyndun á markaði og hafa þannig áhrif
á bæði framleiðslu og neyslu til bjögunar á raunverulegri
eftirspurn. Hlutfall samneyslunnar hefur því miður haldið áfram að
hækka hér á landi síðan árið 2001 sem þarna er miðað við. Á móti
vegur t.d. að við komum betur út í samanburðinum hvað varðar
sveigjanleika á vinnumarkaði.
Hlutfall samneyslu lækkar í Austurríki sem fer upp að
hlið Íslands í einkunn
Lúxemborg færist upp fyrir okkur og Danmörk og Austurríki færast
upp að hlið okkar, en þessi ríki voru við hæla okkar síðast. Meðal
breytinga í Danmörku og Austurríki má nefna stóraukinn hlut
einkaaðila við veitingu opinberrar þjónustu. Í Austurríki lækkar
jafnframt hlutfall samneyslunnar af þjóðarframleiðslunni og bæði
þar og í Lúxemborg minnka umsvif millifærslu- og
niðurgreiðslukerfa.
Sjá skýrsluna
á heimasíðu Fraser-stofnunarinnar.
Efnahagslegt frjálsræði í heiminum
15 efstu ríkin á lista Fraser-stofnunarinnar
Nú |
Land |
Í fyrra |
1 |
Hong Kong |
1 |
2 |
Singapore |
2 |
3 |
Bandaríkin |
3 |
4-5 |
Nýja-Sjáland |
5-6 |
4-5 |
Bretland |
4 |
6 |
Kanada |
8-10 |
7-9 |
Ástralía |
8-10 |
7-9 |
Írland |
7 |
7-9 |
Sviss |
5-6 |
10 |
Holland |
8-10 |
11-12 |
Finnland |
11-12 |
11-12 |
Lúxemborg |
13-14 |
13-15 |
Austurríki |
15-18 |
13-15 |
Danmörk |
13-14 |
13-15 |
Ísland |
11-12 |