1 MIN
Ísland er landið - Dómstóll ESB hafnar kröfum verslunarkeðjunnar Iceland
Almennur dómstóll Evrópusambandsins hefur hafnað kröfum bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods Ltd um einkarétt á orðinu ICELAND sem vörumerkis innan ESB. Með dómnum staðfestir dómstóllinn að slík vörumerkjaskráning brjóti gegn grundvallarsjónarmiðum hugverkaréttar og sé ekki heimil þar sem orðið ICELAND er landaheiti sem tengist uppruna og ímynd vara.
„Þetta er sigur fyrir íslenskt atvinnulíf og fyrir sanngjarnar leikreglur í alþjóðaviðskiptum. Það skiptir máli að fyrirtæki sem byggja markaðssetningu sína á íslenskum uppruna, hreinleika og gæðum þurfi ekki að óttast að verða lögsótt fyrir það eitt að vísa til landsins síns,“ segir Sigtryggur Magnason, forstöðumaður miðlunarsviðs Samtaka atvinnulífsins.
Sameinaðir hagsmunir Íslands
Síðan árið 2016 hafa íslensk stjórnvöld, Íslandsstofa, Samtök atvinnulífsins og Icelandic Trademark Holding ehf. staðið sameinuð að því að fá skráningu vörumerkisins ICELAND ógilta á vettvangi Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO).
Árið 2019 féllst stofnunin á allar kröfur Íslands og ógilti skráningu vörumerkisins í heild sinni. Sú niðurstaða var síðar staðfest af áfrýjunarnefnd EUIPO árið 2022. Iceland Foods reyndi að hnekkja niðurstöðunni fyrir Almennum dómstól ESB en því hafnaði dómstóllinn.
Ísland er landið
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að orðið ICELAND væri lýsandi fyrir landfræðilegan uppruna og að almenningur tengdi það við Ísland – land sem þekkt væri fyrir hreina náttúru, umhverfisvæna framleiðslu og hágæða útflutningsvörur. Því mætti ekki veita fyrirtæki einkarétt á notkun orðsins.
Mikilvægt fordæmi fyrir smærri ríki
Dómurinn hefur fordæmisgildi innan Evrópusambandsins og ver rétt annarra ríkja til að nýta landaheiti sín í markaðssetningu án íhlutunar erlendra vörumerkjaeigenda.
„Við hjá SA höfum staðið vörð um þann rétt íslenskra fyrirtækja að vísa til upprunalands síns. Þessi niðurstaða staðfestir að það er sjálfsagt og lögmætt. Niðurstaðan styrkir samkeppnisstöðu okkar á erlendum mörkuðum og sendir skýr skilaboð um að landaheiti eru sameign, ekki einkaeign,“ segir Sigtryggur.
Hægt er að áfrýja niðurstöðunni innan tveggja mánaða en aðeins að því er varðar túlkun ákvæða og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.