Ísland borgar mest með landbúnaði
Opinber framleiðslustuðningur (PSE) til hvers bónda var hátt í
þrjár milljónir króna á ári hér á landi á árunum 1997-1999, á
verðlagi 2002. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu
stofnunarinnar. Stuðningurinn er meiri en í öðrum löndum
OECD, sem tölur eru til um.
(Smellið á myndina)
Stuðningurinn felst í beinum framlögum úr ríkissjóði til bænda og afurðaverði, sem haldið er uppi með því að hefta innflutning til landsins. Framlög til búnaðarskóla, landbúnaðarráðuneytisins og annarra innviða landbúnaðar eru ekki með í þessari tölu. Styrkur á bónda í Sviss og Noregi er sjónarmun minni en hér á landi, og e.t.v. þarf ekki að koma á óvart að stuðningurinn sé hæstur í ríkum en harðbýlum löndum. Meðalstuðningur á bónda í löndum OECD var ríflega tíu þúsund dalir á ári 1997-1999, um 900 þúsund krónur. Stuðningur á bónda hér á landi er því um það bil þrefaldur meðalstuðningur í iðnríkjunum. Litið er á Evrópusambandið sem eitt land í samantektinni, enda er þar rekin sameiginleg landbúnaðarstefna. Minnstur er stuðningurinn í Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Mexíkó og Mið-Evrópuríkjum.
Minnkandi stuðningur
Framleiðslustuðningur til landbúnaðar (PSE) hefur farið
minnkandi hér á landi. Á árunum 1986-1988 var stuðningurinn um 20
milljarðar króna á ári (á verðlagi ársins 2002, miðað við vísitölu
neysluverðs), en árið 2000 var hann kominn niður í 12½ milljarð.
Stuðningurinn samsvarar nú um 5% af ríkisútgjöldum. Þess ber að
geta að sá stuðningur sem felst í innflutningsbanni, kemur ekki
fram í útgjöldum ríkisins eins og þau eru sett fram í fjárlögum eða
ríkisreikningi. Stuðningurinn er líka á niðurleið sem hlutfall af
söluverði framleiðslunnar. Árin 1986-1988 nam styrkurinn 75% af
söluverði landbúnaðarvara hér á landi, en árið 2000 var hlutfallið
komið niður í 63%.
Deilt um ,,græna"
styrki
En þó að stuðningur við landbúnað sé greinilega að minnka eru áhöld
um hvort Ísland hafi staðið við skuldbindingar sínar í því
efni. Heimsviðskiptastofnuninni (WTO) hefur verið tilkynnt að
beingreiðslur til sauðfjárbænda séu ,,grænar" og ekki háðar hámarki
í alþjóðlegum samningum. Greiðslurnar eru ekki beint tengdar
framleiðslunni, til dæmis kílóum dilkakjöts, heldur miðaðar við
fjölda gripa eða flatarmál ræktaðs lands. Þessum skilningi hefur
verið andmælt hjá Heimsviðskiptastofnuninni. Jafnframt hefur
verið gerð athugasemd við þann hátt að draga gengistryggingu frá
útreikningi á heildarstuðningi, eins og stjórnvöld gerðu í
tilkynningu sinni til stofnunarinnar.