Efnahagsmál - 

05. Janúar 2009

Ísland áfram í efstu deild þjóða

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ísland áfram í efstu deild þjóða

Hagstofa Evrópusambandsins hefur birt yfirlit yfir landsframleiðslu aðildarríkja ESB og EFTA-ríkjanna undanfarin ár og spá fyrir það ár sem nú er hafið. Hagstofa ESB birtir jafnframt yfirlit yfir meðalmannfjölda ríkjanna og mannfjöldaspár. Á þessum grundvelli hefur hagdeild SA reiknað út landsframleiðslu á hvern íbúa í þessum ríkjum og borið þau saman. Samkvæmt Hagstofu ESB verður verg landsframleiðsla á Íslandi tæplega 10 milljarðar evra á á árinu 2009 eða sem nemur 31 þúsund evrum á hvern íbúa. Í samanburði við umrædd 30 ríki verður Ísland í 13 sæti, á svipuðum slóðum og Frakkland og Þýskaland, og allnokkuð hærra en meðaltöl fyrir evru-svæðið eða ESB í heild.

Hagstofa Evrópusambandsins hefur birt yfirlit yfir landsframleiðslu aðildarríkja ESB og EFTA-ríkjanna undanfarin ár og spá fyrir það ár sem nú er hafið. Hagstofa ESB birtir jafnframt yfirlit yfir meðalmannfjölda ríkjanna og mannfjöldaspár. Á þessum grundvelli hefur hagdeild SA reiknað út landsframleiðslu á hvern íbúa í þessum ríkjum og borið þau saman. Samkvæmt Hagstofu ESB verður verg landsframleiðsla á Íslandi tæplega 10 milljarðar evra á á árinu 2009 eða sem nemur 31 þúsund evrum á hvern íbúa. Í samanburði við umrædd 30 ríki verður Ísland í 13 sæti, á svipuðum slóðum og Frakkland og Þýskaland, og allnokkuð hærra en meðaltöl fyrir evru-svæðið eða ESB í heild.

Umreikningur Hagstofu ESB á landsframleiðslu Íslands í evrur byggist á gengi evru á bilinu 155-160 kr. á árinu 2009.

Sé miðað við spá Seðlabankans frá því í nóvember 2008 um landsframleiðslu og gengi krónu gagnvart evru á þessu ári (141 kr.) verður landsframleiðslan um 11 milljarðar evra eða um 35 þúsund evrur á mann. Þetta er svipuð landsframleiðsla í evrum talið og var árið 2004. Ef spá Seðlabankans gengur eftir verður Ísland í 10. sæti í Evrópu hvað varðar þennan mælikvarða á verðmætasköpun á mann. Rétt fyrir ofan Ísland verða Hollendingar, Finnar og Svíar og næstir á eftir koma Belgar, Frakkar, Þjóðverjar og Bretar.

Ef gengi krónu gagnvart evru verður 170 kr. á árinu, þ.e. eins og það er um þessar mundir, þá fellur Ísland niður í 15. sæti Evrópuríkja hvað varðar landsframleiðslu í evrum á mann og verður þá rétt fyrir neðan Bretland og nálægt meðaltali ESB-ríkja sem nota evru sem gjaldmiðil.

Þegar gengi krónunnar var sem sterkast á árunum 2004-2007 var Ísland í þriðja sæti í þessum samanburði en var í sjötta sæti árin 2002 og 2003.

Þessi samanburður ber sterkri stöðu Íslands vitni. Þrátt fyrir fall krónunnar, harkalega aðlögun eftir ofþenslu síðustu ára og áfall vegna hruns bankanna fellur Ísland ekki neðar á þessum lista en svo að landið er enn í efstu deild þeirra þjóða sem við berum okkur saman við. Hér að neðan eru 2 súlurit sem sýna landsframleiðslu á mann í evrum árið 2009 í Evrópuríkjum.  Í fyrra súluritinu eru tölur Eurostat óbreyttar og í því seinna er einungis Íslandi breytt og miðað við spá SÍ og gengi krónu gagnvart evru 141 kr.

Landsframleiðsla í evrum á mann 2009 - Eurostat

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Landsframleiðsla í evrum á mann - Eurostat og SÍ

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Greinin er hluti af greinaröð SA: Fáum málin á hreint

Samtök atvinnulífsins