Fréttir - 

05. júlí 2006

„Innleiðingarhalli” vandamál innan ESB

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

„Innleiðingarhalli” vandamál innan ESB

Evrópusambandið (ESB) glímir við svokallaðan "innleiðingarhalla". Löggjöf sem samþykkt er í stofnunum ESB er oft ekki innleidd með fullnægjandi hætti í landslög aðildarríkjanna og þannig má segja að Evrópureglum sé ekki framfylgt með fullnægjandi hætti í öllum aðildarríkjum sambandsins. Þetta getur t.d. dregið úr skilvirkni hins sameiginlega innri markaðar Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og grafið undan tiltrú á sameiginlegu regluverki, þar sem skapast getur sú tilfinning að "við fylgjum reglunum en þeir ekki." Þá geta einstaklingar og lögaðilar sem hagsmuna eiga að gæta hugsanlega átt skaðabótarétt á hendur umræddum ríkjum ef Evrópureglur hafa ekki verið rétt innleiddar í landslög.

Evrópusambandið (ESB) glímir við svokallaðan "innleiðingarhalla". Löggjöf sem samþykkt er í stofnunum ESB er oft ekki innleidd með fullnægjandi hætti í landslög aðildarríkjanna og þannig má segja að Evrópureglum sé ekki framfylgt með fullnægjandi hætti í öllum aðildarríkjum sambandsins. Þetta getur t.d. dregið úr skilvirkni hins sameiginlega innri markaðar Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og grafið undan tiltrú á sameiginlegu regluverki, þar sem skapast getur sú tilfinning að "við fylgjum reglunum en þeir ekki." Þá geta einstaklingar og lögaðilar sem hagsmuna eiga að gæta hugsanlega átt skaðabótarétt á hendur umræddum ríkjum ef Evrópureglur hafa ekki verið rétt innleiddar í landslög.

Norðurlöndin standa sig best
Einkum eru það Frakkland, Ítalía og Grikkland sem framkvæmdastjórn ESB hefur stefnt fyrir Evrópudómstólnum vegna þessa, eða hátt á annað hundrað sinnum hverju ríki á tímabilinu 1997-2004. Norðurlöndin í hópi aðildarríkja ESB virðast hins vegar standa sig best í þessum efnum, en Danmörk, Finnland og Svíþjóð hafa lang fæstar slíkar stefnur fengið á sig frá framkvæmdastjórninni, eða 11-23 á tímabilinu. Í yfir 90% tilfella úrskurðar Evrópudómstóllinn að innleiðing umræddrar löggjafar hafi verið ófullnægjandi og stefna framkvæmdastjórnarinnar þar með a.m.k. að einhverju leyti verið réttmæt.

Stefnur framkvæmdastjórnar ESB fyrir Evrópudómstól vegna
ófullnægjandi innleiðingar á löggjöf ESB, 1997-2004

Aðildarríki ESB

Fjöldi  

Hlutfall

Danmörk 

11

1%

Svíþjóð 

20

2%

Finnland 

23

2%

Bretland 

58

4%

Holland 

51

4%

Austurríki 

76

6%

Portúgal 

77

6%

Írland 

82

6%

Lúxemborg 

93

7%

Spánn 

94

7%

Þýskaland 

107

8%

Belgía 

110

8%

Grikkland 

132

10%

Ítalía 

175

14%

Frakkland 

184

14%

Alls 

1.293

100%




Ein stefna gegn Íslandi
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gegnir í þessu samhengi sambærilegu hlutverki við framkvæmdastjórn ESB. ESA hefur eftirlit með að EES-löggjöf sé innleidd með fullnægjandi hætti í EFTA-aðildarríkjum EES og stefnir þeim fyrir EFTA-dómstólnum ef stofnunin telur aðildarríkin ekki bregðast við athugasemdum sínum með fullnægjandi hætti. Á árunum 1997 til 2004 stefndi ESA Noregi sjö sinnum fyrir EFTA-dómstólnum, Liechtenstein tvisvar og Íslandi einu sinni. EFTA-ríkin virðast samkvæmt þessu standa sig enn betur í innleiðingu EES-löggjafar en þau aðildarríki ESB sem þar skara framúr, þ.e. Norðurlöndin.

Heimild
Um innleiðingarhallann hjá ESB má lesa í nýlegri grein í tímariti evrópsku stjórnsýslustofnunarinnar (European Institute of Public Administration), en úttektin nær yfir árin 1997 til 2004 og nær því eingöngu til þeirra fimmtán ríkja sem áttu aðild að ESB á þessum árum. Greinarhöfundar starfa við stofnunina og benda þeir m.a. á að framkvæmdastjórn ESB mætti leggja aukna áherslu á að vekja athygli aðildarríkjanna á því sem vel er gert, sem og á algengustu mistökum í þeim ríkjum þar sem oftast virðist vera pottur brotinn. Sjá nánar á vef EIPA. Upplýsingar um stefnur til EFTA-dómstólsins má nálgast á vef hans.

Samtök atvinnulífsins