Innistæðulausir kjarasamningar sveitarfélaga

Sveitarfélög kvarta nú undan því að þau hafi ekki efni á þeim kjarasamningum sem þau hafa gert og kalla eftir auknum skatttekjum frá ríkinu til að fjármagna þá. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það algjört ábyrgðarleysi að semja um launahækkanir fyrir hönd sveitarfélaga sem vitað er fyrirfram að þau hafi ekki efni á að greiða.

Þorsteinn segir að þetta hafi öllum átt að vera ljóst þegar samningarnir voru gerðir. Tekjur sveitarfélaganna séu að aukast allnokkuð milliára en launakostnaðurinn miklu meira. „Þetta hljóta menn að hafa séð,“ segir Þorsteinn. „Mér finnst mjög furðulegt að sveitastjórnarmenn hagi sér með þessum hætti og komi svo og heimti auknar skatttekjur til að borga fyrir ábyrgðarleysið.“

Rætt var við Þorstein í Bítinu á Bylgjunni í morgun um grafalvarlega stöðu sem er á vinnumarkaði. Verðbólga fer nú vaxandi vegna mikilla launahækkana, vextir munu hækka, gengi krónunnar mun veikjast og lífskjör versna. Húnæðiskostnaður mun til dæmis aukast umtalsvert vegna hærri vaxta og ráðstöfunartekjur minnka.

Viðsemjendur á vinnumarkaði bera mikla ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika og mikilvægt að þeir axli hana . „Nú erum við að fara inn í hefðbundna íslenska ofþenslu,“ segir Þorsteinn og undirstrikar að afleiðingarnar muni verða alvarlegar fyrir bæði heimili og fyrirtæki.

Ef launaþróun á almennum og opinberum vinnumarkaði er borin saman frá ársbyrjun 2013 hafa laun hækkað mun meira á opinbera markaðnum. „Þessi yfirsnúningur á vinnumarkaði hefur verið knúinn áfram af endurteknum verkfallsaðgerðum á opinbera vinnumarkaðnum.“

Smelltu til að hlusta