Samkeppnishæfni - 

07. júní 2001

Innheimta án lagastoðar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Innheimta án lagastoðar

Að undanförnu hefur Ríkisútvarpið hafið innheimtu útvarpsgjalds af fyrirtækjum vegna útvarpstækja í fyrirtækjabílum. Um er að ræða nýja lagaframkvæmd, en innheimtan byggir á reglugerðarákvæði sem ekki á sér ótvíræða stoð í lögum. Óviðunandi er að fyrirtæki séu krafin um opinber gjöld án ótvíræðrar lagastoðar.

Að undanförnu hefur Ríkisútvarpið hafið innheimtu útvarpsgjalds af fyrirtækjum vegna útvarpstækja í fyrirtækjabílum. Um er að ræða nýja lagaframkvæmd, en innheimtan byggir á reglugerðarákvæði sem ekki á sér ótvíræða stoð í lögum. Óviðunandi er að fyrirtæki séu krafin um opinber gjöld án ótvíræðrar lagastoðar.

Í lögum um Ríkisútvarpið nr. 122/2000 er hvergi minnst á sérstaka gjaldtöku vegna útvarpa í bifreiðum, hvorki einkabifreiðum né atvinnubifreiðum. Löggjafinn veitir hins vegar heimild til afslátta til fyrirtækja og stofnana vegna fjölda viðtækja á sama stað (12. gr.). Þetta má skilja svo að ekki hafi verið höfð í huga gjaldheimta vegna tækja sem eru í bílum eða í fórum einstaklinga á ferð og flugi.

Samkvæmt reglugerð um útvarpið nr. 357/1986 teljast viðtæki í einkabifreiðum hluti af heimili notenda, en aðeins skal greiða eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili. Hugtakið einkabifreið er ekki skilgreint þar frekar en í útvarpslögunum. Hins vegar kveður reglugerðin á um að greiða skuli fullt gjald af viðtækjum í "öðrum bifreiðum og vélknúnum tækjum" (2. mgr. 18. gr.), án þess að skilgreint sé nánar hvaða tæki um ræðir. Þarna er væntanlega átt við atvinnubifreiðar og tæki og þess vegna hljóta t.d. leigubifreiðar að verða að fullu gjaldskyldar samkvæmt reglugerðinni, ef sú er túlkunin.  Óljósara er hins vegar um svokallaða forstjórabíla (ráðherrabíla), sem æðstu stjórnendur hafa stundum til einkaafnota auk þess að nota vegna atvinnu sinnar.

Innheimtudeild RÚV hefur nú sem fyrr segir hafið innheimtu útvarpsgjalds vegna útvarpstækja í fyrirtækjabílum á grundvelli þessa reglugerðarákvæðis. Um nýja lagaframkvæmd og innheimtuaðgerðir virðist því vera að ræða, sem á sér ekki ótvíræða stoð í lögum. Augljóst er að ákvæðið getur leitt til mismununar í framkvæmd, t.d. þegar um einstaklingsfyrirtæki er að ræða og í fleiri tilvikum.

Einstök fyrirtæki munu hafa samið við RÚV um verulegan afslátt af umræddu gjaldi með tilliti til fjölda fyrirtækjabíla. Viðkomandi fyrirtæki eru seinþreytt til vandræða og hafa kosið að ganga til samninga við RÚV um upphæð gjaldsins. Engin ákvæði eru hins vegar um slíkan afslátt í gildandi reglugerð. Þar er hins vegar að finna ítarleg ákvæði um afslátt vegna fjölda sjónvarpa og útvarpa í sjúkrahúsum, gistihúsum, skipum og víðar.

Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að fyrirtækin í landinu búi við skýrar reglur þegar opinber gjaldtaka er annars vegar, og ekki síður að slík gjaldtaka eigi sér ótvíræða stoð í lögum. Hvorugt þessara atriða gildir hins vegar um innheimtu útvarpsgjalda vegna útvarpstækja í fyrirtækjabílum.

Samtök atvinnulífsins