Efnahagsmál - 

21. Apríl 2008

Inn í framtíðina á aðalfundi SA 2008

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Inn í framtíðina á aðalfundi SA 2008

Vel á fimmta hundrað karla og kvenna mættu á aðalfund SA sem fram fór í Hafnarhúsinu 18. apríl - fjölmennasta aðalfund samtakanna frá upphafi. Yfirskrift fundarins var Út úr umrótinu - inn í framtíðina en það var hlutverk þriggja kvenna að líta til framtíðar á fundinum og deila sýn sinni með aðalfundargestum. Þetta voru þær Kristín Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Gaums, Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans og Ólöf Nordal, alþingismaður. Erindi þeirra má nú nálgast hér á vef SA.

Vel á fimmta hundrað karla og kvenna mættu á aðalfund SA sem fram fór í Hafnarhúsinu 18. apríl - fjölmennasta aðalfund samtakanna frá upphafi. Yfirskrift fundarins var Út úr umrótinu - inn í framtíðina en það var hlutverk þriggja kvenna að líta til framtíðar á fundinum og deila sýn sinni með aðalfundargestum. Þetta voru þær Kristín Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Gaums, Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans og Ólöf Nordal, alþingismaður. Erindi þeirra má nú nálgast hér á vef SA.

Kristín Jóhannesdóttir

Í erindi sínu sagði Kristín Jóhannesdóttir m.a. "Það má sannarlega segja að mikið umrót og órói hafi einkennt fjármálalíf heimsins að undanförnu og við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af því. Ef eitthvað er höfum við farið verr út úr því en nágrannaþjóðirnar. Myndin sem við okkur blasir er hækkandi vextir, hækkandi verðlag og gengissveiflur. Seðlabankinn hækkaði enn vexti í liðinni viku, svo stýrivextir nú eru þeir hæstu í heimi, í landi með þróað hagkerfi. Boðaðar hafa verið hækkanir á vörum og þjónustu, sem sumar hverjar hafa þegar komið til framkvæmda. Það má því segja, að ótæpilegar vaxtahækkanir Seðlabankans undanfarið hafi ekki unnið á verðbólgu heldur verið undirrót ójafnvægis og gengissveiflna sem hafa valdið íslensku atvinnulífi miklum skaða."  

Kristín sagði ekki margar færar leiðir til að bregðast við og ná stöðugleika í atvinnulífinu til framtíðar: "Að mínu viti eru ekki margar leiðir færar í því efni. Við getum auðveldlega eytt dýrmætum tíma í umræður um, hvort hinir ýmsu gjaldmiðlar komi okkur á réttan kjöl. Ég tel hins vegar að við eigum að horfa til evrunnar og aðildar að Evrópusambandinu. Því hefur verið haldið fram að umræðan um Evrópusambandið og evru sé flótti frá því verkefni sem þjóðin standi nú frammi fyrir. Ég get ekki fallist á það. Nær væri að segja að við höfum sofið á verðinum og svikist um að marka okkur skýra stefnu í Evrópumálum meðan flest hefur gengið okkur í haginn. Við stöndum frammi fyrir brennandi spurningum, sem við höfum svikist um að leita svara við."  

Edda Rós Karlsdóttir

Edda Rós Karlsdóttir sagði m.a. "Tækifærin eru ótal mörg og við höfum framtíðina í höndum okkar. Aldrei hefur mér þótt þessi hátíðlegu orð eiga jafn vel við og nú. Í mínum huga munu aðgerðir stjórnvalda og bankanna á næstu vikum og mánuðum breyta miklu um framtíðina, og þá er ég ekki endilega að tala um bankana, heldur fyrir krónu, verðbólgu, land og þjóð."

Edda sagði nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða til að efla trú á fjármálastöðugleika á Íslandi, m.a. með því að efla gjaldeyrisforðann og ná samkomulagi við erlenda seðlabanka. Stjórnvöld þurfa að lýsa yfir stuðningi við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Undirbúa þurfi strax breytingar í Seðlabankanum og setja á stofn peningastefnuráð að alþjóðlegri fyrirmynd. Skoða þurfi af fullri alvöru aðild að Evrópusambandinu og Myntbandalagi Evrópu - slíkur undirbúningur gagnist öllum, hvort sem niðurstaðan verði já eða nei. Endurskoða þurfi starfsemi Íbúðalánasjóðs, áður en EFTA dómstólinn krefst þess og bæta þurfi hagskýrslugerð, bæði hvað varðar skuldir og eignir þjóðarbúsins og þáttatekjur í uppgjöri á viðskiptahallanum.  

Ólöf Nordal

Ólöf Nordal sagði brýnasta verkefni dagsins að ná efnahagslegum stöðugleika: "Fjármálavandinn nú stafar fyrst og fremst af ytri vanda sem á okkur dynur. Við hann verðum við að berjast með öllum tiltækum vopnum. Að því loknu verður að draga af honum lærdóm og ákveða hvaða leiðir eru farsælastar til að styrkja kerfið til framtíðar. Það er því brýnasta verkefni dagsins að ná efnahagsjafnvægi, hvort sem við sjáum að því loknu þörf á að breyta stöðu okkar í efnahagskerfi heimsins eða ekki. Það verður ekki útkljáð fyrr en að þessu verki loknu. Við höfum ekki tíma til slíkra hluta nú.

Ólöf sagði atvinnulíf Íslendinga fjölbreyttara en nokkur sinni fyrr en vandi væri að atvinnuvegum væri gjarnan stillt upp gegn hverjum öðrum. "Það er of algengt að einn atvinnuvegur sé gripinn á lofti og látið eins og enginn annar sé til. Núna er aftur farið að tala um útflutningsgreinarnar, í fyrra áttu allir að vinna í banka, fyrir nokkrum árum voru netfyrirtækin svarið. Þetta viðhorf gerir ekkert annað en að grafa undan atvinnulífinu í landinu. Við þurfum skýra sýn og hún er sú að fjölbreytt atvinnulíf skapar traustar undirstöður fyrir þjóðarbúið. Allar atvinnugreinar eru jafngóðar, þær hafa allar rétt á að vaxa og dafna í samræmi við getu sína og samkeppnishæfni. Og það má aldrei hugsa þannig að þótt ein atvinnugrein gangi vel eigi hún að leysa öll vandamál í landinu."

Sjá nánar erindi frummælenda:

Kristín Jóhannesdóttir (PDF)

Edda Rós Karlsdóttir (PDF)

Ólöf Nordal (PDF)

Samtök atvinnulífsins