Efnahagsmál - 

20. nóvember 2008

IMF samþykkir efnahagsáætlun og lán til Íslands

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

IMF samþykkir efnahagsáætlun og lán til Íslands

Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) samþykkti á fundi sínum í gærkvöld áætlun um að koma á efnahagsstöðugleika á Íslandi, sem samin var af íslenskum sérfræðingum í samstarfi við sendinefnd IMF í síðasta mánuði. Samkvæmt áætluninni fær Ísland 2,1 milljarða Bandaríkjadala frá sjóðnum og viðbótarlán, allt að þremur milljörðum Bandaríkjadala, frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, Rússlandi og Póllandi. Að auki hafa Færeyingar boðið Íslendingum lán sem nemur um 50 milljónum Bandaríkjadala.

Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) samþykkti á fundi sínum í gærkvöld áætlun um að koma á efnahagsstöðugleika á Íslandi, sem samin var af íslenskum sérfræðingum í samstarfi við sendinefnd IMF í síðasta mánuði. Samkvæmt áætluninni fær Ísland 2,1 milljarða Bandaríkjadala frá sjóðnum og viðbótarlán, allt að þremur milljörðum Bandaríkjadala, frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, Rússlandi og Póllandi. Að auki hafa Færeyingar boðið Íslendingum lán sem nemur um 50 milljónum Bandaríkjadala.

Áætlunin er til tveggja ára. Gert er ráð fyrir að fyrsti hluti láns sjóðsins, 827 milljónir Bandaríkjadala, verði veittur eftir nokkra daga og síðan í átta jöfnum áföngum, um 155 milljónir Bandaríkjadala hvert sinn, á þriggja mánaða fresti. Lánið frá sjóðnum verður greitt til baka á árunum 2012 til 2015.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ríkisstjórn Íslands sem má nálgast hér að neðan en í henni kemur fram að fjármunirnir sem fást fyrir tilstilli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði notaðir til að styrkja krónuna og verði hún sett á flot um leið og stuðningur við hana verður talinn nægilegur til þess. Þess er að vænta að gjaldeyrisviðskipti færist þá fljótlega í eðlilegt horf og milliríkjaviðskipti fari að ganga hnökralaust fyrir sig, segir jafnframt í tilkynningunni.

Framkvæmdastjórn IMF sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að lánveiting til Íslands var samþykkt. Í umfjöllun mbl.is um yfirlýsinguna segir að þar komi fram að Íslendingar muni glíma við erfiðleika á næstunni og áætlunin um efnahagsuppbyggingu sé háð afar mikilli óvissu. Á sama tíma séu horfur Íslands til lengri tíma jákvæðar vegna sterkra undirstaðna vel menntaðs vinnuafls, jákvæðs fjárfestingaumhverfis og auðugra náttúruauðlinda.

Sjá nánar:

Fréttatilkynning  ríkisstjórnar Íslands um lán IMF á íslensku

Fréttatilkynning ríkisstjórnar Íslands um lán IMF á ensku

Yfirlýsing IMF

Útskýringar Paul Thomsen hjá IMF (myndskeið - 3 mín)

Samtök atvinnulífsins