Efnahagsmál - 

21. Maí 2010

Illt er að tala tungum tveim og mæla sitt með hvorri

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Illt er að tala tungum tveim og mæla sitt með hvorri

Samtök atvinnulífsins telja eitt brýnasta verkefni stjórnvalda að örva fjárfestingar og efla útflutningsframleiðslu. Eitt mikilvægasta tækið til þess er að styrkja orkufyrirtækin til að tryggja að þau geti fjárfest í aukinni orkuframleiðslu og stundað rannsóknir svo unnt sé að halda áfram að virkja sjálfbærar orkulindir Íslands. Þetta markmið er í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem lýsti yfir við myndun stjórnarinnar: "Leitað verður leiða til þess að örva fjárfestingu innlendra og erlendra aðila og sköpun nýrra starfa á almennum vinnumarkaði."

Samtök atvinnulífsins telja eitt brýnasta verkefni stjórnvalda að  örva fjárfestingar og efla útflutningsframleiðslu. Eitt mikilvægasta tækið til þess er að styrkja orkufyrirtækin til að tryggja að þau geti fjárfest í aukinni orkuframleiðslu og stundað rannsóknir svo unnt sé að halda áfram að virkja sjálfbærar orkulindir Íslands. Þetta markmið er í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem lýsti yfir við myndun stjórnarinnar: "Leitað verður leiða til þess að örva fjárfestingu innlendra og erlendra aðila og sköpun nýrra starfa á almennum vinnumarkaði."

Það er því sérstakt fagnaðarefni að fengist hefur erlendur fjárfestir sem eignast hefur stóran hlut í HS Orku.  Jafnframt hefur þessi fjárfestir lýst yfir því að tryggt verði að HS Orka geti haldið áfram uppbyggingu nýrra orkuvera og stundað frekari rannsóknir á nýjum virkjanakostum. Þetta leiðir til þess að einnig er unnt að fjárfesta í fyrirtækjum sem nýta orkuna og hægt að tengja saman áfanga í virkjunum við tiltekin verkefni til orkunýtingar.

Orkulindirnar á Suðurnesjum og annars staðar verða eftir sem áður í eigu hins opinbera. Á Suðurnesjum hafa sveitarfélögin sem eiga orkulindirnar samið við HS Orku um leigugjald í tiltekinn tíma sem er í fullu samræmi við lög og reglur. Sú staðreynd að einkafyrirtæki taki orkulindirnar á leigu þýðir að hvorki ríki né sveitarfélög  bera sjálfkrafa ábyrgð á skuldum fyrirtækisins. Það gerir fyrirtækið sjálft. Öll orkufyrirtæki hér á landi skulda ómældar fjárhæðir erlendis og greiða af þeim vexti og annan kostnað. Þau eiga því öll undir erlenda lánardrottna að sækja og eru háð þeim um frekari fjármögnun en eins og kunnugt er þá hefur fjármögnun nýrra framkvæmda reynst þessum fyrirtækjum frekar mótdræg að undanförnu.  Nú hefur greiðst úr þessum hnút að því er varðar HS Orku og er það ánægjulegt.

Án fjárfestingar og eflingar útflutnings er sýnt að hagvöxtur hér á landi verður ekki nægur til að dragi úr atvinnuleysi og eins verður erfitt að ná endum saman í opinberum rekstri á næstu árum. Núverandi spár gera ráð fyrir um 2,5% hagvexti að jafnaði á næstu árum eru því alls ófullnægjandi til að vinna bug á efnahagserfiðleikunum hér á landi.

Það er því ákaflega undarlegt að ráðherrar í ríkisstjórninni skuli finna erlendri fjárfestingu í HS Orku allt til foráttu. Fyrirtækinu er nánast hótað öllu illu ef það komi ekki og semji um einhverjar óskilgreindar óskir ráðherra. Það er ekki í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar þegar hún var mynduð. Enginn vafi er um að þessar viðtökur hafa áhrif á aðra þá sem hér gætu haft hug á að fjárfesta. Ferill ríkisstjórnarinnar gagnvart erlendum fjárfestum er ekki beint glæsilegur og nægir auk þessa máls að nefna óraunhæfar hugmyndir um skattlagningu, hótanir um rof á samningum með lagagildi og endalausar tafir við leyfisveitingar.

Með aðgerðum sínum stefnir ríkisstjórnin að því að viðhalda atvinnuleysi, framlengja kreppuna og lengja þann tíma sem það mun taka að ná aftur fyrri lífskjörum og velferð.

Samtök atvinnulífsins