IÐAN útskrifar 80 manns

Í vor útskrifuðust 80 manns úr raunfærnimati frá IÐUNNI fræðslusetri. Um er að ræða ófaglærða iðnaðarmenn, 25 ára og eldri sem hafa í það minnsta 5 ára starfsreynslu og hafa hug á því að ljúka námi í sínu fagi. Aldrei áður hefur IÐAN útskrifað svo stóran hóp í einu. Starfsvettvangur útskriftarhópsins er mjög fjölbreyttur og má þar t.d. nefna iðngreinar eins og pípulagnir, múraraiðn, málaraiðn, húsasmíði, bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, bílamálun og vélstjórn.

Glæsilegur útskriftarhópur

Í gegnum raunfærnimatið hafa þátttakendurnir nú öðlast viðurkenningu á þeirri færni sem þeir hafa aflað sér í starfi og frítíma, í mörgum tilfellum til styttingar á námi. Kjósi þeir svo er næsta skref að setjast á skólabekk og taka til við námið sem margir hverjir hófu en af einhverjum ástæðum luku ekki.

Raunfærnimat er ferli sem gerir reynslumiklu fólki auðveldara um vik að hefja nám á nýjan leik. Undir lok síðasta árs höfðu yfir 1000 einstaklingar nýtt sér þennan valkost hjá IÐUNNI fræðslusetri og fyrir stóran hluta reynist áfanginn mikilvæg hvatning. Eins og einn þerra sagði "frábært að fá þetta tækifæri til að komast af stað aftur þegar maður hefur haft þetta í höfðinu og maganum í áratugi."

Allar frekari upplýsingar um raunfærnimat á vegum IÐUNNAR fræðsluseturs má finna á vefnum www.idan.is/raunfaernimat eða með því að hafa samband við námsráðgafa í síma 590 6400. Rafrænar fyrirspurnir er hægt að senda á netfangið radgjof@idan.is .