Efnahagsmál - 

05. júlí 2009

Icesave-frumvarpið verði samþykkt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Icesave-frumvarpið verði samþykkt

Forsvarsmenn atvinnulífsins og verkalýðsforystunnar taka undir rök fjármálaráðherra um nauðsyn þess að frumvarp hans um Icesave-samninginn verði samþykkt. Uppbyggingin framundan sé því háð. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins. "Það verður að klára þetta. Öðruvísi komumst við ekki í samband við erlenda fjármagnsmarkaði sem endurreisnin byggir á," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við blaðið.

Forsvarsmenn atvinnulífsins og verkalýðsforystunnar taka undir rök fjármálaráðherra um nauðsyn þess að frumvarp hans um Icesave-samninginn verði samþykkt. Uppbyggingin framundan sé því háð. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins. "Það verður að klára þetta. Öðruvísi komumst við ekki í samband við erlenda fjármagnsmarkaði sem endurreisnin byggir á," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við blaðið.

Fyrsta umræða um frumvarpið fór fram á Alþingi í síðustu viku en fjárlaganefnd hefur nú málið til umfjöllunar. Nefndin mun kalla eftir umsögnum um frumvarpið og boða til sín gesti til að ræða það. Fjárlaganefnd mun hafa yfirumsjón með vinnunni við frumvarpið en ákveðnum hlutum þess mun verða vísað til efnahags- og skattanefndar og utanríkismálanefndar. Áætlað er að það þurfi rúma viku í nefndum áður en það verður tekið til annarrar umræðu á Alþingi.

Í samtali við Fréttablaðið segir Vilhjálmur Egilsson lyktir málsins alltaf hafa verið skilyrði fyrir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og annarra þjóða að lánveitingum. "Ég tel ekki að með því að hafna samningnum sé hægt að fá annan betri í framtíðinni." Vilhjálmur segir að innstreymi erlends fjármagns sé lykilatriði til að koma atvinnulífinu í gang og öll uppbygging næstu ára hvíli á því. "Án aðgangs að slíku lánsfé búum við til kreppu sem mun standa yfir svo árum skiptir."

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, segir málið í heild sinni skelfilegt fyrir Íslendinga en segist jafnframt telja að Íslendingar eigi engan annan kost en að en að samþykkja samninginn og ljúka málinu. Hann óttast afleiðingar þess ef Alþingi fellir samninginn. Þá taki við enn meiri óvissa í íslensku efnahagslífi en nú - nóg sé nú samt.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að stjórn samtakanna hafi ekki ályktað formlega um málið en það hafi verið rætt. "Ég heyri ekki betur en að allir stjórnarmenn okkar séu þeirrar skoðunar að við eigum um ekkert annað að velja en að samþykkja þennan samning, eins dapurt og það nú er."

Sjá nánar:

 

Umfjöllun Fréttablaðsins 4. júlí 2009

Samtök atvinnulífsins