Efnahagsmál - 

12. júlí 2005

Íbúðalánasjóður misskilur gagnrýni SA

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Íbúðalánasjóður misskilur gagnrýni SA

Íbúðalánasjóður sendi í gær frá sér lögfræðiálit um lánssamninga Íbúðalánasjóðs við viðskiptabanka og sparisjóði ásamt greinargerð þar sem umfjöllun SA um sjóðinn er vísað á bug. SA telja rétt að koma á framfæri nokkrum athugasemdum vegna þessa. Í umfjöllun sinni hafa SA látið í ljós efasemdir um að lánveitingar ÍLS til sparisjóða og viðskiptabanka samræmist lögbundnu hlutverki sjóðsins. Ekkert hefur hins vegar verið fullyrt um það efni.

Íbúðalánasjóður sendi í gær frá sér lögfræðiálit um lánssamninga Íbúðalánasjóðs við viðskiptabanka og sparisjóði ásamt greinargerð þar sem umfjöllun SA um sjóðinn er vísað á bug. SA telja rétt að koma á framfæri nokkrum athugasemdum vegna þessa. Í umfjöllun sinni hafa SA látið í ljós efasemdir um að lánveitingar ÍLS til sparisjóða og viðskiptabanka samræmist lögbundnu hlutverki sjóðsins. Ekkert hefur hins vegar verið fullyrt um það efni.

Í lögfræðiálitinu er m.a. lögð áhersla á að þegar uppgreiðslur eru meiri en svo að sjóðurinn geti ráðstafað þeim til afborgana lána eða nýrra útlána, beri sjóðnum að leita eins góðrar ávöxtunar og kostur er fyrir það fé. Lögðfræðiálitið skýrir hins vegar fátt um þetta efni, enda er þar ekkert upplýst um efni samninga Íbúðalánasjóðs við sparisjóði, en yfir þeim virðist hvíla mikil leynd. Þrátt fyrir greinargerðina hafa samtökin áfram efasemdir um að það geti samrýmst lögum um sjóðinn að sjóðurinn láni, með vísan til kröfu um áhættustýringu, milljarðatugi til sparisjóða og viðskiptabanka.

Ríkisábyrgð Íbúðalánasjóðs til umfjöllunar hjá EFTA dómstólnum
Meirihluti lögfræðiálitsins sem samið var fyrir ÍLS er umfjöllun um ríkisstyrkjaákvæði EES-samningsins. Í umfjöllun SA sem viðbrögð ÍLS beinast að hefur á hinn bóginn ekkert verið fjallað um þetta efni. Verulegur hluti lögfræðiálitsins er því umræðuefninu óviðkomandi. Í álitinu er vísað til þess að ESA hafi samþykkt fyrirkomulag ríkisábyrgða gagnvart ÍLS. Ekki er þó nefnt að samningar ÍLS við sparisjóðina komu síðar til og voru því ekki til skoðunar hjá ESA. Ekki er heldur minnst á að umrædd niðurstaða ESA er nú til umfjöllunar hjá EFTA dómstólnum. SA telja ljóst að ÍLS sé á gráu svæði með umræddar lánveitingar og að lögfræðiálit ÍLS feli ekki í sér neinn endanlegan úrskurð um það mál.

Athugasemdir ÍLS við umfjöllun SA

Í greinargerð sjóðsins um stöðu Íbúðalánasjóðs og lánssamninga á sviði áhættustýringar er að finna svar sjóðsins við umfjöllun í fréttarbréfi SA sl. fimmtudag. Þar er því haldið fram að skýrsla SA og forsendur útreikninga séu mjög ónákvæmar og að SA hafi dregið upp ranga og einhliða mynd af stöðu sjóðsins.

Viðbrögð ÍLS við umfjöllun SA felast í því að gera annað og meira úr greiningu SA en hún er. SA hafa ekki gert allsherjar úttekt á efnahag og fjárfestingarstefnu sjóðsins og hafa ekki gefið slíkt í skyn. Umfjöllun SA fólst í því að varpa ljósi á tiltekinn en mikilvægan þátt, sem tengist uppgreiðslum eldri lána, eins og lýst hefur verið.

Athugasemdir ÍLS um umfjöllun SA eru auk þess byggðar á misskilningi um mikilvægustu forsendur sem SA byggðu á. Það er t.d. rangt sem ÍLS heldur fram að SA geri ráð fyrir að meðalvextir skulda ÍLS séu 4,5%. Um slíkt er ekkert fjallað í greinargerð SA, heldur aðeins um vexti á íbúðabréfum sem skipt var fyrir húsbréf og húsnæðisbréf í fyrra. Það er einnig rangt að SA geri ráð fyrir að allar uppgreiðslur ÍLS séu endurfjárfestar á 3,55% ávöxtunarkröfu. SA gera þvert á móti ráð fyrir því að ÍLS takist að endurlána allt þetta fé með gildandi markaðsvöxtum húsnæðislána, 4,15%.

SA fagna því að staða ÍLS er nú til umfjöllunar hjá ráðuneytum fjármála og félagsmála ásamt Fjármálaeftirlitinu.


 

Samtök atvinnulífsins