Efnahagsmál - 

20. október 2008

Í sókn með íslenskt hugvit á alþjóðlega markaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Í sókn með íslenskt hugvit á alþjóðlega markaði

Fjölmörg svokallaðra útrásarverkefna eiga sér bjarta framtíð en þegar fjármálakreppan skall á voru að minnsta kosti um 600 íslensk fyrirtæki og einstaklingar sem undirbjuggu eða stóðu að margháttuðum og fjölbreyttum útrásarverkefnum. Þetta kemur fram í grein Þórs Sigfússonar, formanns SA, sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að þessum verkefnum sé ógnað ef þjóðin sameinist um að tala niður útrásina. Gríðarleg tækifæri liggi í þessum hundruðum fyrirtækja til að hrista fljótt af sér þann samdrátt sem orðið hefur. Rétt sé að halda í sókn með íslenskt hugvit á alþjóðlega markaði.

Fjölmörg svokallaðra útrásarverkefna eiga sér bjarta framtíð en þegar fjármálakreppan skall á voru að minnsta kosti um 600 íslensk fyrirtæki og einstaklingar sem undirbjuggu eða stóðu að margháttuðum og fjölbreyttum útrásarverkefnum. Þetta kemur fram í grein Þórs Sigfússonar, formanns SA, sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að þessum verkefnum sé ógnað ef þjóðin sameinist um að tala niður útrásina. Gríðarleg tækifæri liggi í þessum hundruðum fyrirtækja til að hrista fljótt af sér þann samdrátt sem orðið hefur. Rétt sé að halda í sókn með íslenskt hugvit á alþjóðlega markaði.

Greinin í heild fylgir í heild hér að neðan:

Hvernig er hægt að drepa útrásarfyrirtæki?

Þegar íslenska fjármálakreppan skall á voru að minnsta kosti um 600 íslensk fyrirtæki og einstaklingar sem undirbjuggu eða stóðu að margháttuðum útrásarverkefnum. Þessi verkefni voru gríðarlega fjölbreytt. Íslenskar verkfræðistofur teygðu anga sína til ýmissa landa, upplýsingatæknifyrirtæki settu upp útibú í öðrum löndum, hönnuðir áttu í samstarfi við aðra hönnuði um rekstur á verslunum erlendis, íslensk menningar- og listafyrirtæki vöktu verðskuldaða athygli í erlendum stórborgum, íslensk sjávarútvegsfyrirtæki efldu sjávarútveg í ýmsum löndum og íslensk lyfjafyrirtæki starfræktu verksmiðjur í öðrum löndum.

Fjölmörg þessara verkefna eru enn í gangi og eiga sér bjarta framtíð. Helsta ógnunin við þau er ef þjóðin sameinast um að tala niður útrásina. Þá deyja þau hvert af öðru. Það yrði líklega dýrara fyrir þjóðfélagið en flestir gera sér grein fyrir.

Í þessum hundruðum fyrirtækja liggja gríðarleg tækifæri fyrir Íslendinga til að hrista fljótt af sér þann samdrátt sem orðið hefur og sækja fram. Við skulum hafa öll þessi fyrirtæki og það frábæra athafnafólk í huga þegar við fjöllum um útrás Íslendinga. Þessi stóri hópur á það ekki skilið að verða blóraböggull þess ástands sem við búum við í dag.

Nú er einmitt tækifærið fyrir okkur að sækja fram með útrás á ýmsum sviðum. Það á ekki síst við á sviðum þar sem atvinnuleysis er farið að gæta eins og í hönnun hvers konar og fjármálaþjónustu. Nú væri kjörið ef við gætum látið þann stóra hóp fjármálafólks, sem misst hefur vinnuna, og lítil íslensk útrásarfyrirtæki taka höndum saman til að auðvelda áframhaldandi sókn íslensks hugvits á alþjóðlega markaði.

Höfundur er formaður Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins