Efnahagsmál - 

25. Apríl 2006

Í okkar valdi að koma í veg fyrir langvinnt samdráttarskeið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Í okkar valdi að koma í veg fyrir langvinnt samdráttarskeið

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins fjallaði Ingimundur Sigurpálsson, formaður samtakanna, meðal annars um þann mikla árangur sem náðst hefur í íslensku atvinnulífi undanfarin ár. Hann sagði forsendur þess árangurs, sem náðst hefur, og frumskilyrði þess, að áfram megi halda á sömu braut, fyrst og fremst vera efnahagslegan stöðugleika, áframhaldandi umbætur á starfsskilyrðum fyrirtækja, framhald einkavæðingar, öflugt menntakerfi, metnaðarfulla stjórnendur og vel þjálfað starfsfólk, sveigjanleika á vinnumarkaði og öflugt og skilvirkt heilbrigðis-, velferðar- og lífeyriskerfi.

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins fjallaði Ingimundur Sigurpálsson, formaður samtakanna, meðal annars um þann mikla árangur sem náðst hefur í íslensku atvinnulífi undanfarin ár. Hann sagði forsendur þess árangurs, sem náðst hefur, og frumskilyrði þess, að áfram megi halda á sömu braut, fyrst og fremst vera efnahagslegan stöðugleika, áframhaldandi umbætur á starfsskilyrðum fyrirtækja, framhald einkavæðingar, öflugt menntakerfi, metnaðarfulla stjórnendur og vel þjálfað starfsfólk, sveigjanleika á vinnumarkaði og öflugt og skilvirkt heilbrigðis-, velferðar- og lífeyriskerfi.

Blikur á lofti

Ingimundur sagði Íslendinga hafa búið við tiltölulega stöðugt efnahagsumhverfi frá því að vítahringur verðbólgunnar var rofinn með gerð þjóðarsáttarsamninganna árið 1990, að undanskildu skammvinnu verðbólguskoti árið 2001 og sveiflukenndu gengi krónunnar frá því að hún var sett á flot það ár. "Nú eru hins vegar blikur á lofti, ekki síst í verðlagsmálum. Við verðum því að vera vel á verði og bregðast markvisst við, ef við ætlum ekki að glutra niður þeim mikla árangri, sem náðst hefur á undanförnum árum.  Nái verðbólgan að festast í sessi, er ástæða til að óttast, að langvinnt skeið samdráttar í efnahagslífinu sé framundan," sagði Ingimundur. Hann sagði það þó fjarri að slík þróun væri óhjákvæmileg og sagði það í okkar valdi að koma í veg fyrir að slíkt hendi. "Að því munu Samtök atvinnulífsins vinna á komandi misserum. Við viljum halda áfram á braut aukins árangurs, við viljum byggja á því góða, sem áunnist hefur, og við viljum sækja enn fram á veginn til hagsbóta fyrir landsmenn alla. Það er mögnuð áskorun."

Verðbólgan er dýr

Ingimundur fjallaði ítarlega um þann gríðarlega kostnað sem verðbólga hefur í för með sér fyrir atvinnulífið jafnt sem heimilin í landinu og sagði auknar launahækkanir síðan fóðra verðbólguvæntingar og ýta undir verðbólguna sjálfa. "Þetta er gamli vítahringurinn, sem hélt raunverulegum framförum á Íslandi í gíslingu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar," sagði Ingimundur og gagnrýndi launahækkanir skuldugra sveitarfélaganna umfram almennan vinnumarkað. Almennt sagði hann sveitarfélögin þurfa að axla meiri ábyrgð í baráttunni gegn verðbólgu og að ríkisvaldið þyrfti einnig að koma þar sterkar inn. "Stjórnvöld, bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, verða að endurskoða sín framkvæmdaáform og forgangsraða þeim með það að markmiði að auka trúverðugleika efnahagsstefnunnar."

Ráðaleysi í stjórn efnahagsmála ekki ástæða til upptöku evru

Þá fjallaði Ingimundur um ánægjulega bjartsýni unga fólksins, kosti einkarekstrar, mikilvægi sveigjanleika á vinnumarkaði og öflugs menntakerfis, mikilvægi rannsókna, nýsköpunar og fleira. Hann sagði fulla ástæðu til að ræða aðild að ESB og upptöku evru af yfirvegun. Hins vegar væri óneitanlega athyglisvert að umræða um evru og ESB skyldi jafnan skjótast upp þegar við stæðum frammi fyrir efnahagsvanda sem við hefðum sjálf komið okkur í. " Ráðaleysi í stjórn efnahags- og kjaramála má ekki verða ástæða fyrir upptöku evru eða aðild að ESB," sagði Ingimundur.

Sjá ræðu Ingimundar Sigurpálssonar.

Samtök atvinnulífsins