27. mars 2024

Í kjölfar leysinga siglir fjármálaáætlun

Efnahags- og skattamál

Efnahags- og skattamál

Stefanía K. Ásbjörnsdóttir

1 MIN

Í kjölfar leysinga siglir fjármálaáætlun

Nú líður senn að vori, með skvettandi kúm og fjármálaáætlun ríkisstjórnar fyrir árin 2025-2029. Útgjaldagleði sú sem gjarnan fylgir framlagningu fjármálaáætlunar vekur oft viðlíka eftirtekt og gleði kúa að vori. Í ár er eftirvæntingin að líkindum óvenjumikil, á sama tíma og sveitarfélög keppast mörg hver við að róa ákveðinn lífróður hefur ríkissjóður nú á vormánuðum keypt bæjarfélag og orðið við kröfum verkalýðshreyfingarinnar um tugmilljarða útgjöld. En líkt og áður þá er auðvelt að lofa en örðugt að efna. Í því samhengi er tilefni til að rýna lítið eitt í fjármál hins opinbera.

Oft verður grátt úr gamni

Því hefur verið haldið fram að þegar við ráðstöfum eigin fjármunum í okkur sjálf þá ráði skynsemin för. Þegar við ráðstöfum eigin fjármunum í aðra þá höfum við tilhneigingu til að fara vel með, en þegar við ráðstöfum annarra manna fé í aðra þá verði til sóun. Það er jú vandasamt verk að hirða um annarra manna fé, um það þarf enginn að efast. Skyldi þó einhver efast þarf ekki að leita langt yfir skammt.

Frá árinu 1980 hefur hið opinbera að meðaltali verið rekið með „tapi“ (eða „halla“ eins og það kallast almennt). Af þeim 44 árum sem gögn ná yfir hefur hið opinbera verið rekið með tapi í 30 ár. Ríki geta sannarlega tekið lán og stundað peningaprentun til að fjármagna tapreksturinn en það kann ekki góðri lukku að stýra til lengdar.

Þótt vissulega sé margt ólíkt með rekstri fyrirtækis og hins opinbera þá má samt vel velta upp þeirri spurningu hvernig færi fyrir fyrirtæki sem hirti jafn illa um eigin rekstur og viðgengst hjá hinu opinbera hér á landi. Slíkt ístöðuleysi myndi aldrei viðgangast.

Við tökum helminginn, þið megið eiga afganginn

Árið 2023 námu útgjöld hins opinbera hér á landi rúmum 45% af vergri landsframleiðslu. Frá árinu 1980 hefur verið stígandi í hlutfallinu sem nálgast það óðum að helmingi þeirra verðmæta sem verða til á Íslandi, og meira til, sé ráðstafað af hinu opinbera.

Ísland skarar fram úr á þessu sviði meðal helstu samanburðaþjóða – og hefur gert lengi vel. Frá árinu 1999 hafa útgjöld hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (að undanskildum útgjöldum til almannatrygginga og varnarmála) verið mest hér á landi meðal þjóða OECD í alls 20 ár af þeim 24 sem liggja hér til grundvallar.

Óhætt er að segja að íslenskum stjórnvöldum hafi tekist vel til við að skapa hlutverk til handa hinu opinbera í íslensku samfélagi, sennilega of vel.

Aldrei er svo djúpur brunnur að ei verði upp ausinn

Árið 2023 námu tekjur hins opinbera 43% af vergri landsframleiðslu, en það gera tæpar 4,9 milljónir króna á hvern íbúa, eða 405 þúsund krónur í hverjum mánuði. Útgjöldin námu rúmum 5 milljónum króna á hvern íbúa eða 424 þúsund krónum á mánuði.

Sýn fólks á mikilvægi einstakra opinberra verkefna er eflaust jafn ólík og verkefnin eru mörg. Sum eru jafnvel þeirrar skoðunar að öll séu þau ómissandi og hvergi tilefni til endurskoðunar. Þau hin sömu velta því sennilega fyrir sér hvort bagalegan rekstur hins opinbera megi ekki rekja til skorts á fjármunum, lausn á vanda hins opinbera felist í því að auka hreinlega við tekjurnar.

Sé litið aftur til ársins 1980 hefur verg landsframleiðsla á mann aukist um 104%, að teknu tilliti til hækkandi verðlags. Á sama tíma uxu tekjur hins opinbera á hvern íbúa um 97%. Það verður því ekki sagt að hið opinbera hafi slegið slöku við í tekjuöflun á umliðnum árum. Skýrasti vitnisburður þess er eflaust samanburður við önnur ríki innan OECD sem bendir til þess að hér sé skattpíning hins opinbera þegar með mesta móti.

Greinin birtist í Viðskiptamogganum 27. mars.

Stefanía K. Ásbjörnsdóttir

Hagfræðingur á efnahagssviði SA