Í aðdraganda samningalotu

Flestir kjarasamningar á samningssviði SA verða lausir um áramót eða á allra fyrstu mánuðum næsta árs. Fregnir berast af því að verkalýðsfélög séu farin að fjalla um kröfugerðir á hendur atvinnulífinu á komandi misserum, sem er eðlilegt og í samræmi við viðræðuáætlanir milli samningsaðila, enda er það sameiginlegt markmið að samningar séu endurnýjaðir á svipuðum tíma og þeir eldri renna út. Það markmið hefur þó því miður aldrei náðst, a.m.k. ekki síðustu áratugina.

Launahækkanir eða stöðugleiki
Óskandi væri að þegar kröfugerðirnar líta dagsins ljós tækju þær mið af þeirri stöðu sem atvinnulífið býr við og raunhæfu mati á svigrúmi til launakostnaðarhækkana án þess að verðbólga og versnandi samkeppnisstaða hljótist af. Í ljósi reynslunnar má búast við því að verkalýðsfélögin muni leggja áherslu á stöðugleika í efnahagslífinu og lága verðbólgu en jafnframt miklar launahækkanir félagsmönnum sínum til handa. Öruggt má telja að farið verði fram á vaxandi kaupmátt launa og sérstaka hækkun á launatöxtum kjarasamninga. Þar sem miklar launahækkanir annars vegar og stöðugleiki og lág verðbólga hins vegar eru ósamrýmanleg markmið, sem ekki verður náð samtímis, er mikilvægt að menn geri það upp við sig hvor leiðin verði farin við gerð komandi kjarasamninga.

Festum hærri kaupmátt í sessi
Hátt gengi krónunnar, hár hlutur launa í verðmætasköpuninni og lítil fjölgun starfa í efnahagslífinu eru staðreyndir sem benda til þess að óvarlegt sé að efna til  kostnaðarhækkana í komandi kjarasamningum. Eftir mikla aukningu kaupmáttar launa undanfarin ár er varlegra að stuðla að því að sá árangur festist í sessi en að freista þess sækja mikið fram. Sérstaklega ber að gjalda varhug við hugmyndum um að gera út á væntanlegt "góðæri" eins og lenska er að gera hér á landi og skipta verðmætum sem enn hafa ekki orðið til. Þá ætti einnig flestum að vera ljóst að takmörk eru fyrir því hversu mikið er hægt að hækka lægstu launataxta umfram laun almennt og má ætla að það svigrúm hafi verið fullnýtt með gríðarlegum hækkunum lægstu taxta undanfarin samningstímabil.

Hátt gengi krónunnar, verri samkeppnisstaða
Gengi krónunnar er afgerandi þáttur í samkeppnisstöðu fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni. Ef gengið hækkar þá versnar samkeppnisstaðan gagnvart erlendum keppinautum og ef laun hækka meira hér á landi en í viðskiptalöndunum þá versnar hún einnig. Ef saman fer hækkandi gengi og meiri launakostnaðarhækkanir hérlendis en erlendis þá versnar samkeppnisstaðan af tvöföldum þunga. Þetta hefur einmitt gerst á síðari hluta yfirstandandi samningstímabils og þrengt verulega að atvinnurekstrinum. En samkeppnisstaðan versnaði einnig verulega á síðasta samningstímabili, árin 1997-1999, þannig að í upphafi yfirstandandi samningstímabils var launastig mjög hátt og staðan þá um margt lík því sem nú er. 

Tvöfalt meiri launahækkun en í viðskiptalöndunum
Hin þrönga staða sem nú er í atvinnurekstrinum verður því ekki skýrð nema varpa ljósi á þróunina á síðari hluta síðasta áratugar, en eins og fram kemur í þessu fréttabréfi hafa laun hækkað tvöfalt meira en hjá viðskiptalöndum okkar á undanförnum sex árum, mælt í erlendum gjaldmiðli. Stafar þetta af hvoru tveggja meiri launahækkunum hérlendis og af tiltölulega háu gengi krónunnar. Þessu til viðbótar hefur óbeinn launakostnaður íslenskra fyrirtækja aukist umfram kostnað keppinautanna vegna hækkunar tryggingagjalds og stóraukinna framlaga til viðbótarlífeyrissparnaðar launafólks. Sambærilegar hækkanir hafa ekki átt sér stað í helstu viðskiptalöndum okkar.

Launin aldrei verið hærra hlutfall verðmætasköpunarinnar
Launa- og gengisþróun undanfarinna ára hefur leitt til stóraukins hlutar launa í verðmætasköpuninni, en líkt og einnig kemur fram í þessu fréttabréfi verður hlutur launa og tengdra gjalda um 70% verðmætasköpunarinnar í ár. Þetta hlutfall er í sögulegu hámarki líkt og árið 2000 en meðaltal OECD-ríkjanna mun vera um 60%. Lækkun gengis krónunnar á árinu 2001 færði launahlutfallið niður aftur en styrking krónunnar undanfarin misseri og áframhaldandi launahækkanir valda því að hlutfallið stefnir enn á ný í fyrra hámark á þessu ári. Þessi hækkun launahlutfallsins hefur haft það í för með sér að framlegðin í atvinnulífinu hefur minnkað að sama skapi og þar af leiðandi er minna varið til endurnýjunar framleiðslutækja og til arðgjafar af fjármagni en áður. Það er áhyggjuefni.

Lægstu launin hafa hækkað mest
Loks er greint frá því í þessu fréttabréfi að undanfarin sex ár hafa lægstu laun hækkað mikið og langt umfram almenna launaþróun. Kaupmáttur lágmarkslauna hefur hækkað um 40% frá ársbyrjun 1997 sem er ríflega tvöfalt meiri kaupmáttaraukning en hjá launafólki í heild á almennum vinnumarkaði. Það var tilefni til sérstakrar hækkunar lágmarkslauna á þessum árum og það var nýtt en við núverandi aðstæður er næsta víst að sérstakar hækkanir lægstu launa muni mistakast og færast upp allan launastigann.

Hagvöxtur framundan að mestu tengdur stóriðjuframkvæmdum
Þrátt fyrir að horfur um hagvöxt séu góðar á næstu árum vegna mikilla fjárfestinga í virkjunum og stóriðju þá er ekki að vænta mikils vaxtar og atvinnusköpunar í öðrum atvinnugreinum. Störfum hefur farið fækkandi úr 158 þúsund í apríl 2001 í 156 þúsund á fyrri hluta þessa árs og árstíðaleiðrétt atvinnuleysi fer enn vaxandi. Leiða má líkur að því að hátt kostnaðarstig og lítil arðsemi í atvinnulífinu í heild, með undantekningu af góðum hagnaði banka af verðbréfaviðskiptum, haldi aftur af fjárfestingum og fjölgun starfa.

Lítið svigrúm til launahækkana
Staðan er sem sagt sú að lítið sem ekkert svigrúm er til launahækkana í miðlægum samningum. Hlutur launanna í verðmætasköpuninni er hærri en fær staðist til lengdar og hlýtur að lækka fyrr en síðar, annað hvort með hægari launabreytingum hér á landi en í viðskiptalöndunum eða með lækkun gengis króunnar. Sú fyrri er leið stöðugleikans en hin síðari hefur oftast verið kennd við kollsteypur. Þeir sem setja stöðugleikann á oddinn hljóta að taka mið af þessum staðreyndum.

Ari Edwald