08. september 2025

Hvurs virði er atvinnustefna?

Ísak Einar Rúnarsson

1 MIN

Hvurs virði er atvinnustefna?

Árið 1974 voru Nóbelsverðlaunin í hagfræði veitt tveimur mönnum. Svíanum Gunnari Myrdal og Austurríkismanninum Friedrich Von Hayek. Hinum síðarnefnda voru meðal annars veitt verðlaunin fyrir innsýn sína inn í gang efnahagsverksins. Hayek benti á að ef við byggjum svo vel að hafa allar upplýsingar, þekktum smekk hvers einstaklings og hvaða aðföng væru á reiðum höndum, væri stýring hagkerfis lítið annað en reiknilist. Sá einstaklingur gæti reiknað sig niður á hagkvæmustu nýtingu fólks og fjár þannig sem mest verðmæti sköpuðust.

Vandinn er bara sá að við höfum ekki allar upplýsingarnar. Hagkerfi eru samsett úr ótal einstaklingum sem hver um sig býr yfir litlum hluta okkar sameiginlegu þekkingar. Og jafnvel þó einhverjum tækist að safna öllum heimsins upplýsingum yrði stór hluti þeirra orðinn úreltur þegar til þess kæmi að taka ákvarðanir um efnahagsmál. Fyrir vikið leiðir miðstýring efnahagslífsins til töluvert minni velsældar en við myndum flest vilja.

Við verðum því að reiða okkur á dreifstýringu – að gefa framleiðendum og neytendum tækifæri til þess að nýta þá þekkingu sem þeir búa yfir til þess að taka ákvarðanir um sitt eigið efnahagslíf. En hvernig tryggjum við að upplýsingar flæði á milli einstaklinga í kerfinu, svo þeir geti tekið skynsamlegar ákvarðanir? Hvernig getum við komið þeim skilaboðum áleiðis að það sé tiltölulega lítið til í heiminum af liþíumi en tiltölulega mikið af bómull. Svarið sem reynst hefur best síðastliðin 200 ár eða svo, er markaðshagkerfið, þar sem við komum skilaboðum um skort eða ofgnótt á framfæri með háu eða lágu verði vara og þjónustu.

Þótt það sé freistandi fyrir fólk með stórar hugmyndir að miðstýra, hafa hér um bil allar meiriháttar tilraunir til þess farið illa. Þar með er ekki sagt að markaðurinn sé fullkominn eða þurfi aldrei inngrip. Við viðurkennum t.a.m. flest að hann leiðir til vanfjárfestingar í menntun og nýsköpun og í þeim tilvikum hefur þótt réttlætanlegt að grípa inn í. Kannski væri best að lýsa markaðinum þannig að hann væri versta efnahagsskipulagið, fyrir utan allt annað skipulag.

Tækifæri eða ógn?

Ég rifja upp þessi sannandi, sem legið hafa fyrir á prenti í 80 ár, og þóttu nógu merkileg til að veita höfundi þeirra Nóbelsverðlaun fyrir rúmum fimmtíu árum, vegna þess að við hjá Samtökum atvinnulífsins finnum þessa dagana að stór hluti félagsmanna hefur áhyggjur af því að stjórnvöld hafi gleymt þessu samhengi efnahagslífsins í tengslum við gerð atvinnustefnu fyrir Ísland.

Á meðan margir sjá tækifæri í gerð atvinnustefnu heyrum við að aðrir hafa áhyggjur af því að nú eigi að gera tilraun til þess að handstýra hagkerfinu. Velja sigurvegarana og hampa þeim, á kostnað hinna. Velja hverjir stækka – og hverjir minnka.

Það væri afleit niðurstaða, því við heyrðum líka í vor þegar við fórum í hringferð um landið og ræddum við hátt í 400 félagsmenn, að þeir vildu losna við óvissuna og óstöðugleikann sem einkenndi efnahagslífið þessi misserin. Flestir myndu fagna því að sjá skýra stefnu um að efla samkeppnishæfni Íslands og fylkja sér að baki stjórnvöldum sem stefna á framleiðnivöxt á breiðum grunni. En inntak slíkrar stefnu þarf að vera almennt, þar þurfa að búa að baki markmið um að skapa umhverfi sem stuðlar að verðmætasköpun en skilur eftir rými fyrir fyrirtæki og neytendur til að láta það ráðast á alþjóðlegum mörkuðum, hver nær árangri og hver ekki. Þannig næst mestur árangur í verðmætasköpun. Slík stefna yrði mikilvægt verkfæri til að sækja fram og skapa aukna hagsæld og tækifæri.

Halldór Laxness spurði í einum kafla Brekkukotsannáls hvurs virði bibblían væri. Túlka mátti kaflann hvoru tveggja þannig að sögumanni þætti hún vera dýrgripur eða nær verðlaus með öllu. Nú má spyrja: hvurs virði er atvinnustefna fyrir Ísland til ársins 2035. Dýrgripur eða verðlaus með öllu? Það fer eftir því hvernig stjórnvöld nálgast verkefnið.

Á þessum tímapunkti liggur ekki mikið fyrir um það hvaða nálgun stjórnvöld ætla að taka. En þau hafa það enn í hendi sér að ná breiðri sátt um langtímastefnu í atvinnumálum. Forsenda þess er að ráðamenn taki af öll tvímæli um að markmiðið sé að skapa sem samkeppnishæfast umhverfi fyrir alls kyns atvinnurekstur á Íslandi.

Þessi grein birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 3. september.

Ísak Einar Rúnarsson

Forstöðumaður málefnasaviðs Samtaka atvinnulífsins