Efnahagsmál - 

24. febrúar 2009

Hvernig tölum við efnahagslífið niður?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hvernig tölum við efnahagslífið niður?

Það er mikilvægt að fólk fái eins raunsanna mynd af ástandi efnahags- og ríkisfjármála og frekast er kostur. Frá upphafi kreppunnar hefur borið á stórum yfirlýsingum um hörmulegt ástand þjóðarbúsins sem skapað hefur ótta og dregið kjark úr fólki. Skemmst er að minnast yfirlýsinga strax í kjölfar bankahrunsins um að hér yrði matar- og olíuskortur.

Það er mikilvægt að fólk fái eins raunsanna mynd af ástandi efnahags- og ríkisfjármála og frekast er kostur. Frá upphafi kreppunnar hefur borið á stórum yfirlýsingum um hörmulegt ástand þjóðarbúsins sem skapað hefur ótta og dregið kjark úr fólki. Skemmst er að minnast yfirlýsinga strax í kjölfar bankahrunsins um að hér yrði  matar- og olíuskortur. 

Nokkrir hagfræðingar spáðu fyrir áramót að 40 þúsund manns yrðu atvinnulausir í mars 2009, aðrir spáðu hér þriggja og jafnvel fjögurra stafa óðaverðbólgu, sumir höfðu á orði að fasteignaverð mundi hrynja um 75% á fjórum mánuðum eftir hrunið og birtar voru skýringarmyndir þar sem sagt var að ríkissjóður skuldaði vel á þriðja þúsund milljarða króna eða sem nemur 10 milljónum á hvert mannsbarn. Reynum að vanda okkur í yfirlýsingum. Vandræðin eru alveg næg þó svo við séum ekki að ýkja umfang þeirra.

En hver er staðan? Komið hefur fram að nettó ríkisskuldir eru áætlaðar um 5-600 milljarðar í árslok 2009 eða 33-40% af áætlaðri landsframleiðslu ársins, en slíkt hlutfall er alls ekki fjarri því sem þekkist í mörgum samkeppnislöndum okkar. Nú lítur út fyrir að óðaverðbólgan sem margir spáðu árið 2009 verði nokkuð undir 10%.

Þeir sem eru á atvinnuleysisskrá eru 16 þúsund en ekki 40 þúsund. Í dag eru 165.000 manns í vinnu á Íslandi og tæp 14 þúsund án allrar atvinnu. Við erum með lægra atvinnuleysi en mörg Evrópulönd og Bandaríkin. Atvinnuleysi er alvarlegt mál og allir þurfa að snúa bökum saman og koma í veg fyrir að það aukist mikið meira en orðið er. Á síðustu mánuðum hafa fyrirtæki og starfsmenn þeirra sýnt ótrúlegt þolgæði og kænsku við að bjarga störfum við erfiðar aðstæður. Starfshlutföll og laun hafa verið lækkuð, fyrirtæki hafa aðlagað sig breyttum aðstæðum á undraskömmum tíma. Fasteignaverð hefur lækkað en því fer fjarri að það hafi lækkað um 75%.

Það er mikilvægt að vera raunsær á tímum sem þessum og segja fólki satt og rétt frá. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð í þessum efnum og þeir hafa staðið sig mjög vel að mörgu leyti á síðustu mánuðum. Það er samt eðli þeirra að endurspegla tíðarandann eins og sjá má á fyrirsögnum og aðalfréttum síðustu ár. Þær eru annað hvort í ökkla eða eyra. Fyrirsagnirnar í góðærinu voru margar á einn veg; Íslandsmet í söluhagnaði, Íslenskt fyrirtæki með 150 þúsund starfsmenn erlendis, Bankarnir hagnast um yfir hundrað milljarða o.s.frv. Eftir hrun voru fyrirsagnirnar af allt öðrum toga. Sjö námsmenn í neyð, Ríkissjóður skuldar á þriðja þúsund milljarða!

Þeir fáu sem höfðu hæst um viðkvæmt eða hættulegt ástand fjármálakerfisins nutu lítillar hylli og athygli fyrir hrun þrátt fyrir að hafa rétt fyrir sér. Nú vilja hins vegar allir tala eins og þeir. Það er bara of seint! Skaðinn er skeður, hreinsunarstörfin standa yfir og raunsætt mat skiptir meiru en svartnættisspár.

Það hefur margoft verið sýnt fram á að ef nógu margir tönnlast á því við einstakling með flensueinkenni að hann líti illa út og sé með afbrigðum veiklulegur þá eru meiri líkur en minni að þessi sami einstaklingur leggist í rúmið. Auðvitað ræður miklu um hvernig til tekst á næstu mánuðum við ýmsar ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda. Ein alvarlegasta hættan fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf nú um stundir er þó klárlega að við tölum það niður svo ástandið verði enn verra.

Þór Sigfússon

Samtök atvinnulífsins